Greiningardeild Glitnis telur líklegt að Seðlabankinn hækki stýrivexti sína um 25 punkta 2. nóvember næstkomandi og að vextirnir fari í 14,25 prósent. Þá telur deildin líkur á að bankinn byrji að lækka vexti eftir mars á næsta ári og verði þeir komnir niður í 10 prósent fyrir lok ársins.
Í Morgunkorni greiningardeildar Glitnis segir að flest bendi til þess að verðbólga muni
hjaðna á næsta ári ef gengi krónunnar gefi ekki verulega eftir
samhliða vaxtalækkun Seðlabankans. Kólnandi íbúðamarkaður og minnkandi
hagvöxtur muni draga talsvert úr verðbólguþrýstingi og nokkur hætta sé á
harðri lendingu ef vaxtastiginu verði haldið háu of lengi.
Vísbendingar
um að hægt hafi á í hagkerfinu sé þegar fyrir hendi og þótt vextir
lækki verulega á næsta ári verði aðhald peningastefnu Seðlabanka
töluvert.
Ýmsir þættir geta haft áhrif á hækkun stýrivaxta í nóvember, að sögn greiningardeildar Glitnis. Reynist verðbólgutölur í október háar eða að gengi krónunnar lækki á næstu vikum megi telja meiri
líkur á vaxtahækkun en ella. Þá verða hagtölur birtar á næstunni. Gefi þær til kynna hæga hjöðnun þenslu aukast einnig líkurnar á frekari
vaxtahækkun, að sögn deildarinnar. Að sama skapi geti ýmsir þættir dregið úr
líkum á vaxtahækkun í nóvember, s.s. hóflegar verðbólgutölur fyrir
október eða áframhaldandi gengishækkun krónunnar á næstu vikum. Verði niðurstaðan sú muni það minnka líkurnar á vaxtahækkun. Sömuleiðis muni veruleg kólnun í hagkerfinu
snarminnka líkurnar á frekari vaxtahækkun, að sögn greiningardeildar Glitnis.