Breskir fjölmiðlar hafa í dag vitnað til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, sem segir að breskar verslanir séu leiðinlegar og þreytandi og bjóði margar hverjar upp á sama vöruúrval. Baugur Group og aðrir fjárfestar luku við kaup á bresku verslanakeðjunni House of Fraser í gær.
Kaupverð nam jafnvirði 77 milljarða íslenskra króna.
Jón sagði verslanakeðjuna ætla að hætta sölu nokkurra þekktra vörutegunda, hefja sölu á nýjum merkjum og „krydda" vöruúrvalið.
Breska dagblaðið Times segir að breytingar á House of Fraser muni taka um tvö ár. Ekki er gefið upp hversu mikið breytingarnar muni kosta að öðru leyti en því að þær hlaupi á tugum milljóna punda.
Þá segir blaðið að verslanakeðjan ætli að hætta sölu á vörum frá 14 framleiðendum og taka nýjar vörur inn með það fyrir augum að blása nýju lífi í heldur þreytandi og keimlíkt vöruúrval í breskum verslunum. „Við höfum tækifæri til að koma inn með spennandi vörumerki og krydda úrvalið," hefur blaðið eftir Jóni Ásgeiri.