Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group Holding, sagði í viðtali í beinni útsendingu á Bloomberg sjónvarpsstöðinni í dag, skömmu eftir skráningu flugfélagsins í Kauphöll Íslands, að sveigjanleiki Icelandair skipti félagið miklu máli enda væri það mikilvægur lykill að velgengni flugfélaga.
Jón Karl var meðal annars spurður út í breytingar á rekstri flugfélaga í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum 11. september árið 2001. Hann sagði það hafa verið breytingatíma hjá Icelandair, sem hafi tekist vel. Benti hann á að hæfileikinn til að laga sig að breyttum rekstraraðstæðum væri mikilvægur fyrirtækjum. Yfir þeim hæfileika byggi Icelandair og gæti dregið seglin saman, ef á þyrfti að halda.