Glitnir keypti á mánudag öll bréf Bjarna Ármannssonar, fráfarandi forstjóra bankans fyrir 29 krónur á hlut. Kaupvirði nemur rúmum 6,8 milljörðum króna. Á sama tíma fékk Lárus Welding, sem tekur við forstjórastólnum af Bjarna, kaupréttarsamning fyrir 150 milljón hlutum í bankanum á genginu 26,6 krónur á hlut, eða rétt tæpa 4 milljarða króna.
Gengi kaupréttar Lárusar er það sama og gengi bréfa í Glitni stóð í við lokun Kauphallar Íslands á mánudag.
Í tilkynningu frá Glitni kemur fram að kaupréttarsamningur Lárusar sé til fimm ára og ávinnist 20 prósent hans á hverju ári á því tímabili.
Til samanburðar átti Bjarni, sem hefur verið forstjóri Glitnis banka í tæp tíu ár, 234.957.500 hluti í bankanum.