Hugmyndaauðgin Svanborg Sigmarsdóttir skrifar 10. nóvember 2008 07:00 Hún hefur verið löng, biðin eftir upplýsingum um hvert eigi að stefna og hvernig staðan er. „Nú er botninum náð og viðspyrnan getur hafist," hefur ómað, en ekkert breyttist samt. Á meðan ríkisstjórnin er enn í áfallastjórnun hafa háskólasamfélagið og almenningur gefist upp á biðinni og sýnt hvað í þeim býr. Þar er boðið upp á lausnir í stað vandamála. Á síðustu dögum hefur það komið í ljós hvernig hátt menntunarstig Íslendinga verður lausnin í því að byggja upp nýtt samfélag eftir hrunið. Það verður þó að viðurkennast að það hefur valdið vonbrigðum hvað stjórnvöld eru föst í áfallastjórnuninni í stað þess að leiða landið til framtíðar. Það hvílir mikið á ríkisstjórninni, örfáir ráðherrar snúast í erlendum lántökum og milliríkjadeilum. Aðrir ráðherrar og þingmenn væntanlega einnig uppteknir við að endurskrifa fjárlög fyrir komandi ár. En er virkilega enginn sem hefur tíma til að ráðgast við þá sem hugmyndir hafa um hvernig Ísland getur byggst upp aftur og miðla því til almennings? Meðal þess sem hefur komið fram eru hugmyndir Háskólans í Reykjavík og Listaháskólans um hugmyndahús, þar sem fólk í nýsköpunarstellingum hefði aðstöðu til að nýta hugmyndir og þekkingu til að skapa nýjan auð. Meðal þeirra sem eru nú, eða eru að verða, atvinnulausir er vel menntað fólk sem hefur hugmyndaauðgina til að skapa ný tækifæri. Það sem vantar til að sprotafyrirtækin verði að veruleika er aðstaða og fjármagn. Auð þessa fólks þarf að nýta áður en það flyst af landi brott og tækifærin glatast. Hvað ætlar ríkið að gera til að halda í þetta fólk? Þegar sagan dæmir þetta mikla áfall sem við upplifum nú, mun krónan verða úttalaður sökudólgur. Deilumálið mun snúast um hvoru megin er horft á krónupeninginn. Átti fjármálakerfið að sníða sér stakk eftir vexti og starfa með stærð krónunnar í huga eða átti að bregðast við og taka upp gjaldmiðil sem hæfði fjármálakerfinu. Hvort sem verður er niðurstaðan nú að krónan hefur reynst okkur dýr. Nú um helgina birtist áhugaverð grein um það hvernig hægt væri að taka upp aðra mynt og spara þannig milljarða dala lántöku. Um þessa hugmynd þarf að ræða, því stjórnvöld hafa einblínt á lántöku frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að styrkja gjaldmiðil sem meira að segja Íslendingar hafa enga trú á lengur. Hvernig eiga þá erlendir aðilar að hafa trú á endurreistri krónu? Hvort sem ákvörðun verður tekin um að skipta um gjaldmiðil nú eða síðar þarf línan að koma frá stjórnvöldum. Hvert skal stefnt í peningamálum? Hve lengi á að halda í krónuna? Almenningur sjálfur, þjóðin öll, er farin að skilgreina hver við erum og hvers konar þjóð við viljum vera. Það keppast allir við að sverja af sér flatskjáina og annað það sem einkennt hefur neysluhyggju undanfarinna ára. Auðvitað höfum við öll notið góðæranna, en þegar litið er til baka hefðum við viljað hafa notið þeirra á annan hátt. Þegar farið er að ræða um ráðdeild Norðmanna með virðingu, í stað þess að skopast að henni, hefur breyting orðið á skilningi þjóðarinnar á æskilegum dyggðum. Aftur eru stjórnvöld hvergi til að vísa veginn og því gerum við það sjálf. Kannski er það það sem skiptir máli þegar upp er staðið, að þjóðin ákveði sjálf hvert skuli stefnt. Ríkisvaldið getur svo fylgt í kjölfarið ef það vill. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Svanborg Sigmarsdóttir Mest lesið Hafa íslenskir neytendur sama rétt og evrópskir? Ásthildur Lóa Þórsdóttir,Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Skuldin við úthverfin Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir Skoðun Til þeirra sem fagna Doktornum! Kristján Freyr Halldórsson Skoðun Hringekja verðtryggingar og hárra vaxta Benedikt Gíslason Skoðun Einelti er dauðans alvara Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Skoðun Áfram gakk – með kerfisgalla í bakpokanum Harpa Þorsteinsdóttir Skoðun Réttlæti hins sterka. Gildra dómarans Jörgen Ingimar Hansson Skoðun Málgögn og gervigreind Steinþór Steingrímsson,Einar Freyr Sigurðsson,Helga Hilmisdóttir Skoðun Það sem Njáll sagði ykkur ekki Inga Lind Karlsdóttir Skoðun Hefur þú heyrt þetta áður? Stefnir Húni Kristjánsson Skoðun
Hún hefur verið löng, biðin eftir upplýsingum um hvert eigi að stefna og hvernig staðan er. „Nú er botninum náð og viðspyrnan getur hafist," hefur ómað, en ekkert breyttist samt. Á meðan ríkisstjórnin er enn í áfallastjórnun hafa háskólasamfélagið og almenningur gefist upp á biðinni og sýnt hvað í þeim býr. Þar er boðið upp á lausnir í stað vandamála. Á síðustu dögum hefur það komið í ljós hvernig hátt menntunarstig Íslendinga verður lausnin í því að byggja upp nýtt samfélag eftir hrunið. Það verður þó að viðurkennast að það hefur valdið vonbrigðum hvað stjórnvöld eru föst í áfallastjórnuninni í stað þess að leiða landið til framtíðar. Það hvílir mikið á ríkisstjórninni, örfáir ráðherrar snúast í erlendum lántökum og milliríkjadeilum. Aðrir ráðherrar og þingmenn væntanlega einnig uppteknir við að endurskrifa fjárlög fyrir komandi ár. En er virkilega enginn sem hefur tíma til að ráðgast við þá sem hugmyndir hafa um hvernig Ísland getur byggst upp aftur og miðla því til almennings? Meðal þess sem hefur komið fram eru hugmyndir Háskólans í Reykjavík og Listaháskólans um hugmyndahús, þar sem fólk í nýsköpunarstellingum hefði aðstöðu til að nýta hugmyndir og þekkingu til að skapa nýjan auð. Meðal þeirra sem eru nú, eða eru að verða, atvinnulausir er vel menntað fólk sem hefur hugmyndaauðgina til að skapa ný tækifæri. Það sem vantar til að sprotafyrirtækin verði að veruleika er aðstaða og fjármagn. Auð þessa fólks þarf að nýta áður en það flyst af landi brott og tækifærin glatast. Hvað ætlar ríkið að gera til að halda í þetta fólk? Þegar sagan dæmir þetta mikla áfall sem við upplifum nú, mun krónan verða úttalaður sökudólgur. Deilumálið mun snúast um hvoru megin er horft á krónupeninginn. Átti fjármálakerfið að sníða sér stakk eftir vexti og starfa með stærð krónunnar í huga eða átti að bregðast við og taka upp gjaldmiðil sem hæfði fjármálakerfinu. Hvort sem verður er niðurstaðan nú að krónan hefur reynst okkur dýr. Nú um helgina birtist áhugaverð grein um það hvernig hægt væri að taka upp aðra mynt og spara þannig milljarða dala lántöku. Um þessa hugmynd þarf að ræða, því stjórnvöld hafa einblínt á lántöku frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að styrkja gjaldmiðil sem meira að segja Íslendingar hafa enga trú á lengur. Hvernig eiga þá erlendir aðilar að hafa trú á endurreistri krónu? Hvort sem ákvörðun verður tekin um að skipta um gjaldmiðil nú eða síðar þarf línan að koma frá stjórnvöldum. Hvert skal stefnt í peningamálum? Hve lengi á að halda í krónuna? Almenningur sjálfur, þjóðin öll, er farin að skilgreina hver við erum og hvers konar þjóð við viljum vera. Það keppast allir við að sverja af sér flatskjáina og annað það sem einkennt hefur neysluhyggju undanfarinna ára. Auðvitað höfum við öll notið góðæranna, en þegar litið er til baka hefðum við viljað hafa notið þeirra á annan hátt. Þegar farið er að ræða um ráðdeild Norðmanna með virðingu, í stað þess að skopast að henni, hefur breyting orðið á skilningi þjóðarinnar á æskilegum dyggðum. Aftur eru stjórnvöld hvergi til að vísa veginn og því gerum við það sjálf. Kannski er það það sem skiptir máli þegar upp er staðið, að þjóðin ákveði sjálf hvert skuli stefnt. Ríkisvaldið getur svo fylgt í kjölfarið ef það vill.
Hafa íslenskir neytendur sama rétt og evrópskir? Ásthildur Lóa Þórsdóttir,Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun
Hafa íslenskir neytendur sama rétt og evrópskir? Ásthildur Lóa Þórsdóttir,Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun