„Þetta eru vonbrigði enda fínar eignir sem við misstum vegna aðstæðna og vantrausts á markaði," segir Guðmundur Ólason, forstjóri Milestone.
Í gær var skrifað upp á samning um sölu á skaðatryggingafélaginu Moderna Forsäkringar og sjóðstýringarfyrirtækinu Aktie-Ansvar auk þess sem stefnt er að því að selja líftryggingafélagið Moderna Liv og bankann Banque Invik.
Félögin heyrðu öll undir sænska fjármálafyrirtækið Moderna, dótturfélag Milestone. Á móti kaupir Milestone íslenskar eignir sínar aftur, Sjóvá, Askar Capital og Avant, sem sænska fjármálaeftirlitið hafði tekið yfir.
Salan er gerð í samráði við skilanefnd Glitnis sem er stærsti lánardrottinn Milestone.
Guðmundur segir vonbrigðin ekki síst felast í því að með sölunni sé horfið frá áformum um fjárhagslega endurskipulagningu Moderna, sem unnið hafi verið að sleitulaust frá í október auk þess sem nær ekkert hafi fengist fyrir þær vegna arfaslakra markaðsaðstæðna. - jab
