Aston Villa er úr leik í Evrópudeildinni þrátt fyrir 2-1 sigur á Rapíd Vín á heimavelli í kvöld. Austurríska liðið vann 1-0 sigur á heimavelli í fyrri leik liðanna og komst áfram á fleiri útivallarmörkum.
Aston Villa komst í 2-0 forystu í leiknum. Liðið fékk tvær vítaspyrnur í fyrri hálfleik, í bæði skipti eftir að brotið var á Ashley Young.
Young lét verja frá sér í fyrra vítinu en James Milner nýtti þá síðari. Það var svo John Carew sem skoraði síðara mark Villa snemma í síðari hálfleik.
Hetja Rapíd Vín var Króatinn Nikica Jelavic sem skoraði þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka. Hann skoraði einmitt sigurmark Rapíd í fyrri leik liðanna í Vínarborg.
Leikmenn Aston Villa reyndu hvað þeir gátu til að skora þriðja markið sem hefði tryggt þeim áframhaldandi þátttöku í keppninni en allt kom fyrir ekki.
Everton vann öruggan 5-1 samanlagðan sigur á Sigma Olomouc frá Tékklandi en liðin skildu jöfn í kvöld, 1-1. Steven Pienaar skoraði mark Everton í leiknum.
Fulham komst einnig áfram, eftir 3-2 samanlagðan sigur á rússneska félaginu Amkar Perm. Liðið tapaði á útivelli í kvöld, 1-0.