Trú og hefðir strokaðar út? Ólafur Stephensen skrifar 18. október 2010 06:00 Meirihlutinn í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar hefur lagt fram drög að ályktun um samskipti leik- og grunnskóla borgarinnar við trúfélög. Ekki verður annað séð en að nái ýmsar tillögur sem þar er að finna fram að ganga, verði ýmsar gamlar og góðar hefðir í skólastarfinu afnumdar. Þannig er lagt til að kirkjuferðum fyrir jól verði hætt, en þær hafa verið þáttur í starfi velflestra skóla og leikskóla. Sömuleiðis á að taka fyrir bænahald, sálmasöng og „listsköpun í trúarlegum tilgangi" í skólunum. Það þýðir væntanlega að nú megi ekki lengur syngja sálma á litlu jólunum og ekki föndra myndir af Maríu og Jesúbarninu fyrir jól - eða hvað? Lagt er til að hætt verði að gefa börnum í sjöunda bekk frí til að fara í ferðalag vegna fermingarfræðslu. Heimsóknir fulltrúa trúfélaga í skóla og leikskóla á að banna. Þá er því beint til skólanna að þurfi að leita aðstoðar vegna sálrænna áfalla skuli frekar kalla til „fagaðila" en fulltrúa trúfélaga. Margrét Sverrisdóttir, formaður mannréttindaráðsins, sagði í samtali við Vísi fyrir helgina að þessar tillögur væru til komnar vegna kvartana foreldra barna í leik- og grunnskólum og fyrirspurna starfsfólks skólanna, sem vildi fá að vita hvaða reglur giltu um samstarf skóla og trúfélaga. Það er raunar alveg sjálfsagt mál að um það gildi skýrar reglur. En þarf það að þýða að hluti af trú, menningu og hefðum yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar verði strokaður út úr skólastarfinu? Íslendingar eru að uppistöðu kristin þjóð, þótt fólki sem aðhyllist önnur trúarbrögð eða engin hafi fjölgað. Níutíu prósent Íslendinga eru skráð í kristin trúfélög. Hátt í níu af hverjum tíu börnum fermast í kristinni athöfn. Hér skal fullyrt að yfirgnæfandi meirihluti foreldra barna í leik- og grunnskólum Reykjavíkur er ánægður með kirkjuferðirnar, fermingarfræðsluferðirnar, að prestar komi í skólann þegar áföll dynja yfir (slíkt er raunar hluti af áfallaætlun margra skóla og hefur gefizt vel), að sálmar séu sungnir á litlu jólunum og krakkarnir komi heim með myndir af Maríu, Jesúbarninu og öllum hinum í Betlehem á aðventunni. Hins vegar er minnihluti foreldra sem kvartar. Þær kvartanir nema kannski einhverjum tugum á ári og sjálfsagt er að starfsfólk skólanna hafi svör og úrræði á reiðum höndum. Rétt minnihlutans ber að virða. Að sjálfsögðu á ekki að þvinga börn, sem ekki eru kristin, til að fara í kirkju heldur finna þeim önnur verkefni á meðan. En það á ekki að taka ánægjuna af kirkjuferðinni af meirihlutanum. Ef einhver vill ekki að börnin hans taki þátt í jólaföndri með kristilegu mótífi, er sjálfsagt að koma til móts við það. En eyðileggjum ekki ævagamlar hefðir fyrir meirihlutanum. Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar virðist fyrst og fremst hafa hlustað á háværan minnihluta foreldra þegar það samdi tillögu sína. Hvernig væri að meirihlutinn léti nú í sér heyra? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Kæra vinkona Margrét Pála María Ösp Ómarsdóttir,Tinna Björg Kristinsdóttir Skoðun Gerræðisleg og hjartalaus leyfisveiting, sem stöðva verður! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Dýrkeypt skiptimynt! María Védís Ólafsdóttir Skoðun Opið bréf til stjórnar Leikfélags Reykjavíkur Margrét Tryggvadóttir Skoðun Hugleiðingar leikskólakennara í verkfalli Elín Gíslína Steindórsdóttir Skoðun Ráðningarvernd samrýmist grunnstoðum lýðræðisins Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Reykjalundur í 80 ár Pétur Magnússon Skoðun Opið bréf til þingmanna frá húsmóður í Vesturbænum Margrét Kristín Blöndal Skoðun Opið bréf til kennara og stjórnenda allra framhaldsskóla Klara Nótt Egilson Skoðun Menntun í gíslingu hrímþursa Þorsteinn Gunnarsson Skoðun
Meirihlutinn í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar hefur lagt fram drög að ályktun um samskipti leik- og grunnskóla borgarinnar við trúfélög. Ekki verður annað séð en að nái ýmsar tillögur sem þar er að finna fram að ganga, verði ýmsar gamlar og góðar hefðir í skólastarfinu afnumdar. Þannig er lagt til að kirkjuferðum fyrir jól verði hætt, en þær hafa verið þáttur í starfi velflestra skóla og leikskóla. Sömuleiðis á að taka fyrir bænahald, sálmasöng og „listsköpun í trúarlegum tilgangi" í skólunum. Það þýðir væntanlega að nú megi ekki lengur syngja sálma á litlu jólunum og ekki föndra myndir af Maríu og Jesúbarninu fyrir jól - eða hvað? Lagt er til að hætt verði að gefa börnum í sjöunda bekk frí til að fara í ferðalag vegna fermingarfræðslu. Heimsóknir fulltrúa trúfélaga í skóla og leikskóla á að banna. Þá er því beint til skólanna að þurfi að leita aðstoðar vegna sálrænna áfalla skuli frekar kalla til „fagaðila" en fulltrúa trúfélaga. Margrét Sverrisdóttir, formaður mannréttindaráðsins, sagði í samtali við Vísi fyrir helgina að þessar tillögur væru til komnar vegna kvartana foreldra barna í leik- og grunnskólum og fyrirspurna starfsfólks skólanna, sem vildi fá að vita hvaða reglur giltu um samstarf skóla og trúfélaga. Það er raunar alveg sjálfsagt mál að um það gildi skýrar reglur. En þarf það að þýða að hluti af trú, menningu og hefðum yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar verði strokaður út úr skólastarfinu? Íslendingar eru að uppistöðu kristin þjóð, þótt fólki sem aðhyllist önnur trúarbrögð eða engin hafi fjölgað. Níutíu prósent Íslendinga eru skráð í kristin trúfélög. Hátt í níu af hverjum tíu börnum fermast í kristinni athöfn. Hér skal fullyrt að yfirgnæfandi meirihluti foreldra barna í leik- og grunnskólum Reykjavíkur er ánægður með kirkjuferðirnar, fermingarfræðsluferðirnar, að prestar komi í skólann þegar áföll dynja yfir (slíkt er raunar hluti af áfallaætlun margra skóla og hefur gefizt vel), að sálmar séu sungnir á litlu jólunum og krakkarnir komi heim með myndir af Maríu, Jesúbarninu og öllum hinum í Betlehem á aðventunni. Hins vegar er minnihluti foreldra sem kvartar. Þær kvartanir nema kannski einhverjum tugum á ári og sjálfsagt er að starfsfólk skólanna hafi svör og úrræði á reiðum höndum. Rétt minnihlutans ber að virða. Að sjálfsögðu á ekki að þvinga börn, sem ekki eru kristin, til að fara í kirkju heldur finna þeim önnur verkefni á meðan. En það á ekki að taka ánægjuna af kirkjuferðinni af meirihlutanum. Ef einhver vill ekki að börnin hans taki þátt í jólaföndri með kristilegu mótífi, er sjálfsagt að koma til móts við það. En eyðileggjum ekki ævagamlar hefðir fyrir meirihlutanum. Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar virðist fyrst og fremst hafa hlustað á háværan minnihluta foreldra þegar það samdi tillögu sína. Hvernig væri að meirihlutinn léti nú í sér heyra?