Fyrri leikjunum í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta er lokið. Atletico Madrid vann heimasigur á Liverpool 1-0 þar sem Diego Forlan skoraði eina markið.
Þá gerðu Hamburger SV og Fulham markalaust jafntefli í Þýskalandi. Seinni leikirnir verða að viku liðinni.
Úrúgvæinn Forlan skoraði í Madríd á 9. mínútu leiksins en markið var í skrautlegri kantinum. Hann átti misheppnaðan skalla en fékk annað tækifæri og kom knettinum í netið.
Skömmu síðar hefði Liverpool átt að jafna en þá skoraði Yossi Benayoun mark sem ranglega var dæmt af vegna rangstöðu.
Atletico Madrid fékk besta færið í seinni hálfleiknum en Jose Reina, markvörður Liverpool, kom í veg fyrir að spænska liðið næði tveggja marka forskoti.