Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari var gríðarlega svekktur eftir leikinn í kvöld og sagði meðal annars að dómgæslan hefði verið óskiljanleg.
"Við ætluðum okkur auðvitað meira í þessum leik en við náum okkur of seint á strik í vörninni. Sóknarleikurinn var erfiður allan tímann og við náðum ekki að fylgja þessu eftir þó svo við hefðum komist aftur inn í leikinn sem var vel gert.
"Mér fannst halla á okkur í dómgæslunni. Það er lélegt að skýla sér bak við það en þeir taka af okkur fjögur mörk sem voru eðlileg. Þeir dæma ekki víti í svona fimm skipti. Ég skil ekki hvernig var hægt að sleppa þessu.
"Þeir dæma síðan ruðning á Alexander á afar mikilvægu augnabliki í leiknum. Það var algjört bull. Ég skil ekki hvernig þeir velja dómarapar á svona mikilvægan leik," sagði Guðmundur afar ósáttur."