Glamúrviðtöl við gangstera Ólafur Þ. Stephensen skrifar 16. september 2011 06:00 Foreldrar nemenda í Menntaskólanum í Reykjavík kvörtuðu réttilega yfir því að í Menntaskólatíðindum skólafélagsins skyldi birtast viðtal við vitgrannt vöðvatröll, sem komið hefur við sögu eiturlyfjasölu og -neyzlu, handrukkana, líkamsmeiðinga og hótana og er grunað um tengsl við skipulagða glæpastarfsemi. Í viðtalinu lýsti undirheimamaðurinn því meðal annars yfir að hann hefði alltaf getað hætt eiturlyfjaneyzlu af sjálfsdáðum og hjálparlaust og gaf menntskælingum góð ráð um vodkadrykkju. Ritnefndarmennirnir hafa fengið verðskuldaðar ákúrur hjá rektor skólans. Sennilega kæmu nokkrir aukatímar í íslenzku sér líka vel, af útdráttunum úr viðtalinu sem birtust á dv.is að dæma. Þeir sem tóku og birtu viðtalið eru auðvitað bara krakkar, læra vonandi sína lexíu og geta kannski huggað sig við að hátt á aðra öld hafa margir hafið annars farsælan feril sem nýtir þjóðfélagsþegnar með vandræðalegum heimskupörum í þessum gamla skóla. Kannski er þeim líka vorkunn, því að ýmsir fullorðinsfjölmiðlar hafa dottið lóðbeint á nefið í sömu gryfju; að finnast umrætt sterabuff spennandi viðtalsefni. Þannig hafa birzt við það tvö ýtarleg sjónvarpsviðtöl á undanförnum misserum, á Skjá einum og Stöð 2. DV, fjölmiðillinn sem sagði fyrstur frá viðtalinu í skólablaðinu, með hæfilegri hneykslan og undir fyrirsögn um „glamúrviðtal", hefur ekki heldur verið alveg laus við jákvæðan áhuga á umfjöllunarefninu. Staðreyndin er hins vegar sú að lífsstíll og lífsviðhorf undirheimamannanna á ekki heima í glamúrviðtölum. Í viðtali hér í blaðinu í febrúar síðastliðnum ræddi Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur um þá varhugaverðu þróun að einstaklingar úr þessum þjóðfélagsafkima fengju jákvæða og gagnrýnislitla umfjöllun í fjölmiðlum, á léttum nótum. „Þetta getur verið varasamt því að stundum eru dregnar upp ýktar myndir af viðkomandi sem eiga jafnvel ekki við rök að styðjast. Ákveðinn lífsstíll á mörkum þess ólöglega eða jafnvel ólöglegur er settur fram á jákvæðan og spennandi hátt. Það er hætta á því að slík framsetning verði til þess að viðurkenna og réttlæta slíkan lífsmáta og verði öðrum fyrirmynd," sagði Helgi. Þessar viðvaranir eiga fullan rétt á sér. Menn geta sagt sem svo að hver sem lesi viðtalið við ógæfumanninn í skólablaðinu eða hlusti á hann í spjallþáttum sjónvarpsstöðvanna eigi strax að geta áttað sig á því að hann sé ekki æskileg fyrirmynd. En svo einfalt er það því miður ekki. Einhvers staðar fékk hann til dæmis sjálfur þá flugu í höfuðið að hann hefði „alltaf vitað þetta, að ég ætlaði að vera krimmi" eins og segir í blaðinu. Það er ekkert spennandi og ekkert fyndið eða skrýtið heldur við þennan og fleiri viðmælendur sem þrífast einhvers staðar á mörkum hins ólöglega við handrukkun, gengjamyndun eða súlustaðarekstur. Grobbsögurnar, grunnvitur lífsspekin, kvenfyrirlitningin og allt hitt bullið sem vellur upp úr þeim á hvorki heima á síðum skólablaðs né í alvöru fjölmiðlum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Foreldrar nemenda í Menntaskólanum í Reykjavík kvörtuðu réttilega yfir því að í Menntaskólatíðindum skólafélagsins skyldi birtast viðtal við vitgrannt vöðvatröll, sem komið hefur við sögu eiturlyfjasölu og -neyzlu, handrukkana, líkamsmeiðinga og hótana og er grunað um tengsl við skipulagða glæpastarfsemi. Í viðtalinu lýsti undirheimamaðurinn því meðal annars yfir að hann hefði alltaf getað hætt eiturlyfjaneyzlu af sjálfsdáðum og hjálparlaust og gaf menntskælingum góð ráð um vodkadrykkju. Ritnefndarmennirnir hafa fengið verðskuldaðar ákúrur hjá rektor skólans. Sennilega kæmu nokkrir aukatímar í íslenzku sér líka vel, af útdráttunum úr viðtalinu sem birtust á dv.is að dæma. Þeir sem tóku og birtu viðtalið eru auðvitað bara krakkar, læra vonandi sína lexíu og geta kannski huggað sig við að hátt á aðra öld hafa margir hafið annars farsælan feril sem nýtir þjóðfélagsþegnar með vandræðalegum heimskupörum í þessum gamla skóla. Kannski er þeim líka vorkunn, því að ýmsir fullorðinsfjölmiðlar hafa dottið lóðbeint á nefið í sömu gryfju; að finnast umrætt sterabuff spennandi viðtalsefni. Þannig hafa birzt við það tvö ýtarleg sjónvarpsviðtöl á undanförnum misserum, á Skjá einum og Stöð 2. DV, fjölmiðillinn sem sagði fyrstur frá viðtalinu í skólablaðinu, með hæfilegri hneykslan og undir fyrirsögn um „glamúrviðtal", hefur ekki heldur verið alveg laus við jákvæðan áhuga á umfjöllunarefninu. Staðreyndin er hins vegar sú að lífsstíll og lífsviðhorf undirheimamannanna á ekki heima í glamúrviðtölum. Í viðtali hér í blaðinu í febrúar síðastliðnum ræddi Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur um þá varhugaverðu þróun að einstaklingar úr þessum þjóðfélagsafkima fengju jákvæða og gagnrýnislitla umfjöllun í fjölmiðlum, á léttum nótum. „Þetta getur verið varasamt því að stundum eru dregnar upp ýktar myndir af viðkomandi sem eiga jafnvel ekki við rök að styðjast. Ákveðinn lífsstíll á mörkum þess ólöglega eða jafnvel ólöglegur er settur fram á jákvæðan og spennandi hátt. Það er hætta á því að slík framsetning verði til þess að viðurkenna og réttlæta slíkan lífsmáta og verði öðrum fyrirmynd," sagði Helgi. Þessar viðvaranir eiga fullan rétt á sér. Menn geta sagt sem svo að hver sem lesi viðtalið við ógæfumanninn í skólablaðinu eða hlusti á hann í spjallþáttum sjónvarpsstöðvanna eigi strax að geta áttað sig á því að hann sé ekki æskileg fyrirmynd. En svo einfalt er það því miður ekki. Einhvers staðar fékk hann til dæmis sjálfur þá flugu í höfuðið að hann hefði „alltaf vitað þetta, að ég ætlaði að vera krimmi" eins og segir í blaðinu. Það er ekkert spennandi og ekkert fyndið eða skrýtið heldur við þennan og fleiri viðmælendur sem þrífast einhvers staðar á mörkum hins ólöglega við handrukkun, gengjamyndun eða súlustaðarekstur. Grobbsögurnar, grunnvitur lífsspekin, kvenfyrirlitningin og allt hitt bullið sem vellur upp úr þeim á hvorki heima á síðum skólablaðs né í alvöru fjölmiðlum.