Eygló Ósk Gústafsdóttir náði inn í undanúrslit í sinni annarri grein á EM í 25 m laug í Danmörku er hún keppti í 50 m baksundi.
Eygló kom í mark á 28,27 sekúndum og varð í 21. sæti. Hún var rúmri hálfri sekúndu frá hennar besta tíma í greininni en Íslandsmet Ingibjargar Kristínar Jónsdóttur er 27,49 sekúndur.
Eygló komst alla leið í úrslit í 100 m baksundi og hafnaði þá í áttunda sæti. Hún á þó enn eftir að keppa í hennar sterkustu grein sem er 200 m baksund.
20 keppendur komast öllu jöfnu áfram í undanúrslitin en Eygló færðist upp um eitt sæti þar sem aðeins tveir keppendur frá hverri þjóð komast áfram. Þrír keppendur frá Frakklandi urðu á meðal 20 efstu í greininni.
