Kristín Soffía skrifaði þá færslu á Facebook, við frétt DV, að rússneska Réttatrúnaðarkirkjan mætti „fokka sér“ og að það væri „ömurlegt“ að Reykjavík væri búin að „útdeila lóð til þessa skítasafnaðar“.
Kristín Soffía er nú varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar og er í fjórða sæti á lista flokksins í borgarstjórnarkosningunum.

Auglýsingin birtist sama dag og Gleðiganga samkynhneigðra fór fram í Reykjavík og hljóðaði svo:
„Ef kristið fólk þegir þá talar Biblían.... Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadyrkendu, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælni, drykkjumenn, lastmálir né ræningar Guðs ríki erfa. (Fyrra bréf Páls til Korin 6:9-10)“.
Ekkert nafn var undir auglýsingunni og baðst Fréttablaðið afsökunar á því á sínum tíma.
Kristín Soffía segir tímasetninguna á birtingu auglýsingarinnar hafa haft áhrif á viðbrögð sín. Hún segist samt sjá eftir ummælunum. „Auðvitað er orðalagið ekki gott,“ segir Kristín, um það sem hún skrifaði á Facebook.
Um lóðarúthlutnina til safnaðarins segir Kristín Soffía:
„Úthlutunin var samkvæmt lögum. Ég tel að Reykjavíkurborg eigi að fara að lögum og samkvæmt lögum er borginni skylt að veita söfnuðum ókeypis lóðir undir bænahús, kirkjur eða aðrar sambærilegar byggingar,“ segir Kristín og heldur áfram:
„Að sama skapi á hatursfull umræða aldrei rétt á sér. Þau lög verður að virða líka.“
Hlynnt trúfrelsi
Hún segist sjá eftir ummælunum: „Já, ég sé eftir þessum ummælum og það er gott að fá tækifæri til að biðjast afsökunar á þeim. Andúð mín til þessarar auglýsingarinnar er óbreytt engu að síður.“
Kristín segist vera hlynnt trúfrelsi. „Já, ég er hlynnt trúfrelsi, kynfrelsi og baráttu hinsegin fólks um allan heim. Það er mikilvægt að virða mannréttindi fólks.“
Hún segir að trú og trúfélög eigi ekki að skjóta skálkaskjóli yfir þá sem stunda hatursfulla umræðu.
Vekja athygli í ljósi umræðunnar
Ummæli Kristínar Soffíu hafa vakið athygli og verið í umferð á samfélagsmiðlum, sér í lagi vegna umræðunnar um ummæli Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknar og flugvallarvina, um afturköllun lóðar til Félags múslima, á föstudaginn.
Ummæli Sveinbjargar hafa verið mikið rædd undanfarna daga og voru meðal annars fordæmd af Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar.