Upptökurnar hafa verið umfangsmiklar hér á landi og hefur tökuliðið, sem telur hundruði manna, verið á faraldsfæti um landið síðustu daga ásamt starfsmönnum True North. Helgina 22. og 23. ágúst var mannfjöldinn við tökur á Akranesi þar sem þeir lögðu undir sig fyrrum ellideild sjúkrahússins í bænum. Voru þar á ferðinni „45-50 tökubílar af öllum stærðum og gerðum sem var lagt í kringum sjúkrahúsið og á Heiðarbrautinni og var varla hægt að sjá á milli þeirra,“ eins og segir í frétt Skessuhorns af heimsókninni.

Þá má einnig búast við því að kennileiti borgarinnar á borð við Perluna og Hallgrímskirkju verða í lykilhlutverki í þáttaröðinni.
Þrátt fyrir að óvíst sé hvaða leikarar fara með hlutverk í þáttunum sem eru teknir upp á Íslandi má teljast líklegt að þeirra á meðal séu Daryl Hannah og Naveen Andrews, en þau sáust spóka sig í miðbæ Reykjavíkur. Hannah hefur leikið í fjölmörgum þekktum myndum á ferli sínum, svo sem Blade Runner, Splash og Kill Bill. Andrews er þekktastur fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttaröðinni Lost, sem sýnd var á RÚV fyrir nokkrum árum.
Tökur á þáttaröðinni fara einnig fram í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi, Suður-Kóreu, Mexíkó og Keníu. Sense8 er framleidd fyrir Netflix og áætlað er að hún komi út árið 2015.