Starfsmönnum var tilkynnt um þetta á fundi á föstudaginn en samkvæmt heimildum Vísis hafa sumir þeirra áhyggjur af fyrirhugaðri úttekt.
Stjórn útgáfufélags DV hafði áður fallið frá þeirri ákvörðun að láta skoða sérstaklega faglega þætti ritstjórnar blaðsins en ritstjóri blaðsins segir að sú vinna sem sé að fara af stað snúi ekkert sérstaklega að ritstjórn blaðsins.
Á sínum tíma voru blaðamenn DV ósáttir við þá ákvörðun og töldu að með henni væri stjórn félagsins að gagnrýna störf blaðamanna
„Við erum að móta ákveðna stefnu innan fyrirtækisins og þau ætla að aðstoða okkur við það,“ segir Hallgrímur Thorsteinsson, ritstjóri DV, í samtali við Vísi.
„Þetta er svona eins og þegar fyrirtæki eru almennt skoðuð og gera faglega úttekt á starfseminni. Þessir aðilar munu síðan aðstoða okkur við að gera einskonar SWOT greiningu.“

Eggert Skúlason er fyrrverandi fréttamaður og var í mörg ár talsmaður knattspyrnumannsins Eiðs Smára Guðjohnsen. Eiður Smári hefur áður stefnt ritstjórum og blaðamanni DV fyrir að fjalla opinberlega um einkamálefni hans.
„Við erum einfaldlega að fara út í þá vinnu að móta nýja stefnu fyrirtækisins,“ segir Þorsteinn Guðnason, stjórnarmaður DV.
„Teymið mun ræða við alla starfsmenn fyrirtækisins í einrúmi og fara yfir það með þeim hvernig þau vilja sjá ásýnd DV og hvað þurfi að bæta.“
Þorsteinn segir að þetta sé ávallt gert þegar fyrirtæki fari út í stefnumótun.
„Ég verð ekki við í næstu viku og því mun teymið hafa aðsetur á skrifstofunni minni. Við munum einnig fá aðstoð frá þeim við að meta ritstjórnarlegt sjálfstæði miðilsins og er það einsdæmi í sögu fjölmiðla á Ísland.“