Skoðun

Hálfsannleikur Landsnets

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
Landsnet hf. hélt fjölmennan kynningarfund í síðustu viku þar sem margt áhugavert kom fram. Þar ber hæst forneskjuleg viðhorf stjórnarformanns fyrirtækisins sem birtast í þeirri skoðun hans að úrskurðir og ákvarðanir stjórnvalds eigi að vera endanleg og verði ekki borin undir dómstóla. Almenningur skal ekki komast upp með neinn derring.

Hitt sem vakti ekki síður athygli mína var framsetning fyrirtækisins á kostnaðarauka vegna mögulegrar jarðstrengjavæðingar hérlendis. Fyrirtækið setti fram nokkrar mismunandi leiðir við jarðstrengjavæðingu, m.a. blandaða leið jarðstrengja (10-20%) og loftlína (80-90%) og það sem Landsnet kallar „dönsku leiðina“ og var hún sú langkostnaðarmesta.

Engir útreikningar eða forsendur voru gefin upp á fundinum, en það er látið liggja á milli hluta hér. Þess má geta að Danir hafa markað sér stefnu um leggja allar raflínur undir 400kV í jörð, bæði gamlar og nýjar, en á Íslandi snýst umræðan um 220kV raflínur. Á fundinum kom fram að ef þessi leið yrði valin hérlendis, myndi það hækka gjaldskrá Landsnets til dreifiveitna um 74%. Þetta hefur svo verið blásið upp í fjölmiðlum þannig að þetta ylli 74% hækkun á gjaldskrá til almennings. Það er fjarri sanni, og það veit Landsnet en þegir þunnu hljóði.

Staðreyndin er sú að einungis 10% af raforkureikningi heimila og fyrirtækja eru vegna flutnings raforkunnar. Það þýðir að 10% af hækkun Landsnets til dreifiveitna kemur fram á reikningi almennings. Kostnaðarsamasta leiðin sem Landsnet kynnti („danska leiðin“) myndi því valda um 7,4% hækkun á rafmagnsreikningnum, ekki 74%. Blandaðar leiðir jarðstrengja og loftlína myndu hins vegar leiða til einungis um 0,5-1% hækkunar til almennings. Þetta þýðir að rafmagnsreikningur sem er 10 þúsund krónur á mánuði myndi hækka vegna jarðstrengjavæðingar um 50 til 100 krónur á mánuði.

Fagurgali Landsnets um að fyrirtækið hafi ekkert á móti jarðstrengjavæðingu stenst ekki skoðun. Fjölmiðlar eru leiddir í gildru og túlka hálfsannleiksframsetningu Landsnets eins og til var sáð. Þetta er Landsneti ekki sæmandi og algerlega óboðlegt almenningi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×