Skoðun

Ekki er allt sem sýnist

Halldór Halldórsson skrifar
Það er hlutverk okkar sem erum í stjórnmálum að benda á sem flestar hliðar mála svo íbúar hafi sem bestar upplýsingar til að draga sínar ályktanir.

Rekstur í öllum bæjarfélögum er grunnurinn undir þann möguleika að veita góða þjónustu og fara vel með skattfé borgaranna.

Ekki fyrir löngu var ársreikningur Reykjavíkurborgar kynntur. Grundvallaratriði við lestur ársreiknings eins og Reykjavíkurborgar er að finna hverju reksturinn skilar í peningum þegar upp er staðið. Það er gert í gegnum hugtakið veltufé frá rekstri en ekki rekstrarreikning. Af hverju? Vegna þess að í rekstrarreikningi eru margar svokallaðar reiknaðar stærðir eins og afskriftir, reiknaðar lífeyrisskuldbindingar o.fl. sem annaðhvort ekki þarf að borga með peningum strax eða búa ekki til peninga strax.

Það er staðreynd að veltufé frá rekstri minnkar í tíð núverandi meirihluta. Á þetta er bent í endurskoðunarskýrslu. Þrátt fyrir rekstrarafgang 2013 koma færri krónur út úr rekstrinum en árið 2012 þegar borgarsjóður er rekinn með halla. Er það ekki skrýtið? Hagnaður af rekstri en samt minna fjármagn en í hallarekstri hljómar undarlega en þannig er það. Sjálfstæðisflokkurinn hefur birt súlurit yfir þessa þróun sem sýnir að peningar frá rekstri eru 8,6% árið 2013 en voru 9,8% árið 2012. Reksturinn versnar.

Reyndar hefur aðalgagnrýni okkar í Sjálfstæðisflokknum verið á reksturinn og að hann skili minna fjármagni þrátt fyrir rekstrarafgang. En skoðum aðeins ársreikning vegna niðurgreiðslu skulda upp á 35 milljarða árið 2013. Þá kemur í ljós að 18,5 milljarðar eru vegna gengishagnaðar erlendra lána. Höfuðstöðvar Orkuveitunnar voru seldar fyrir 5,1 milljarð. Hvert flutti Orkuveitan aftur? Jú alveg rétt hún leigir húsnæðið af kaupanda. Þegar við tökum þessar tölur frá er skuldalækkun 11,4 milljarðar. Gengið getur breyst aftur og skuldir geta hækkað rétt eins og lækkað og þess vegna rétt að halda til haga þeim tölum sem skuldir hafa raunverulega lækkað um. Svo má nefna að Perlan var seld í árslok 2012 fyrir einn milljarð. Kaupandi var Reykjavíkurborg. Hver á Orkuveituna? Reykjavíkurborg.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×