„Myndin er algjörlega sjálfstæð og án styrkja og var tekin upp allt síðastliðið ár,“ segir Sigurður en hann skrifaði sjálfur handritið, leikstýrir og framleiðir kvikmyndina.
„Sagan fjallar um stelpu sem er vídjólistamaður og lendir í því að þurfa að hýsa þrjá ræningja á flótta í einn sólarhring,“ segir leikstjórinn en hann vann að handritinu í hálft ár áður en tökur hófust á myndinni.
Sjálfur er Sigurður Anton aðeins 23 ára gamall og einbeitir sér mest að kvikmyndagerð en hann vill frekar fara óhefðbundnar leiðir í sinni vinnu. „Ég er núna að finna bestu leiðina til þess að frumsýna myndina,“ segir leikstjórinn.
„Mig langar að fara pínu öðruvísi leið en að henda henni í venjulega dreifingu og svo er salurinn kannski hálftómur á flestum sýningunum,“ segir Sigurður sem langar frekar að hafa færri sýningar og hafa þær sérstakar.

Sigurður hefur unnið sleitulaust að myndinni en hann segir hana aldrei geta orðið fullkomna.
„Nú hef ég séð hana alltof oft en mér finnst hún enn þá geðveik,“ segir ungi leikstjórinn.
„En maður er einhvern veginn aldrei fullkomlega ánægður með listina, maður þarf bara að sleppa henni frá sér þótt maður gæti gert svona þúsund hluti betur.“