Skoðun

Sameiningar á Vesturlandi

Regína Ásvaldsdóttir skrifar
Akranes slagar upp í Vestfirði. Þessa fyrirsögn mátti lesa í Fréttablaðinu þann 25. júlí sl. þar sem borinn var saman íbúafjöldi á Akranesi og á öllum Vestfjörðum. Íbúum á Akranesi hefur fjölgað jafnt og þétt síðasta áratug enda fjölskylduvænt samfélag og atvinnuástand gott. Samkvæmt síðustu tölum frá Hagstofu Íslands eru íbúar nú um 6.750. Auk þess starfa á annað þúsund manns við stóriðjuverin á Grundartanga, sem er í næsta nágrenni. Næstfjölmennasti þéttbýliskjarninn á Vesturlandi er í Borgarnesi, en þar búa rúmlega 1.800 manns. Þrátt fyrir þessa staðreynd, að Akranes sé langfjölmennasti byggðarkjarninn á Vesturlandi – og nálægt því að vera með sama íbúafjölda og á öllum Vestfjörðum samanlagt, þá dettur stjórnvöldum í hug að flytja sýslumannsembættið á Akranesi til Stykkishólms og lögreglustjóraembættið í Borgarnes. Að vísu segist innanríkisráðherra ekki vera búinn að ákveða endanlega staðsetningu embættanna en samkvæmt umræðuskjali hans um sameiningu sýslumanns og lögreglustjóraembætta þá eru þetta tillögurnar.

Langfjölmennasta lögregluliðið á Vesturlandi er á Akranesi og hér er eina lögreglustöðin á svæðinu sem er með sólarhringsvakt, enda er málafjöldinn langmestur.

Miðlæg rannsóknardeild

Miðlæg rannsóknardeild fyrir allt Vesturland hefur verið staðsett á Akranesi frá árinu 2007 og þar hefur byggst upp mikil sérþekking, meðal annars í rannsóknum kynferðisbrotamála en deildin hefur það hlutverk að veita rannsóknaraðstoð til smærri embættanna á Vesturlandi vegna alvarlegra brota sem þar eru framin. Lögreglan á Akranesi og bæjaryfirvöld hafa einnig unnið saman í heimilisofbeldismálum og hafa í þeirri vinnu stuðst við reynslu lögreglunnar á Suðurnesjum.

Nýlega var tilkynnt um ráðningu nýrra sýslumanna og lögreglustjóra á landinu og vil ég fyrir hönd bæjaryfirvalda á Akranesi óska þeim Úlfari Lúðvíkssyni, sem tekur við embætti lögreglustjóra á Vesturlandi, og Ólafi Ólafssyni, sem tekur við embætti sýslumanns á Vesturlandi, til hamingju með ráðningarnar. Jafnframt óska bæjaryfirvöld eftir viðræðum hið fyrsta um endanlegt val á aðalstöðvum nýju embættanna enda um mikið hagsmunamál íbúanna á Akranesi að ræða.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×