Fólk af yngri kynslóðinni kannast ekkert við manninn en foreldrar okkar gerðu það – þetta var nefnilega þjóðþekktur lífskúnstner að vestan sem var allt í senn refaskytta, sægarpur og náttúruverndarsinni. Þetta var maður sem átti ekkert smá ævintýralegt líf en myndin gerir því skil á einfaldan og skemmtilegan hátt.
Myndin er byggð upp úr viðtölum í hljóði og mynd ásamt gömlum upptökum af Þórði sem glæða myndina miklu lífi. Fjallað er um skipbrotið sem hann lenti í ungur að aldri og hvernig hann varð aldrei samur eftir að hafa náð að svindla á dauðanum.

Saga Þórðar veitir mikinn innblástur og viðhorf hans til náttúrunnar og lífsins sjálf er gríðarlega fallegt, enda segir einn viðmælandinn að Þórður hafi eiginlega verið „taóið“ holdi klætt án þess að gera sér einu sinni grein fyrir því.
Viðhorf hans til íslensku náttúrunnar gerði það að verkum að leikstjórinn lýsti honum „eins og Björk síns tíma“ en á þessum tíma stóriðju og jarðhlýnunar á vísa Þórðar enn betur við en hún gerði á sínum tíma:
„Eitrað haf og eins til heiða/eitrið sígur niðrí svörð/þeir sem stjórna, þeir eru að eyða/öllu lífi hér á jörð.“
Niðurstaða: Einföld, hugljúf og falleg mynd sem ætti að veita bóhemum og náttúrubörnum mikinn innblástur.