„Mér var bent á að hann væri með einhverja stæla við mig á netmiðlum og mér fannst tilvalið að svara honum,“ segir Fjallið í samtali við Vísi. Og bætir við: „Hann er helvíti djarfur kallinn.“
Click here for an English version

Hulk Hogan er goðsögn í lifanda lífi
Hafþór áréttar nú þessa áskorun. „Já, ég skora á hann í hringinn. Ég fer svellkaldur í það, hika hvergi. Sjálfsagt yrði það að vera í Wrestling, sem hann þekkir, og dómarar svo hann þori. Ég trúi ekki öðru en hann treysti sér í Fjallið. Að hann láti vaða. Eða, það verður gaman að sjá hvort hann þori. Hann hefur náttúrlega farið í marga kappa í gegnum tíðina,“ segir Hafþór Júlíus.
Og, til þess ber að líta að þó Hulk Hogan sé vígalegur og kjaftfor, er hann kominn til ára sinna. „Jájá, hann er goðsögn í sínum heimi og hefur verið einhver tuttugu ár í Wrestling,“ segir Fjallið – sem veit ekki hvort það sé ósmekklegt að skora svona á gamalmennið. „Neinei, hann hefur náttúrlega farið í marga kappa í gegnum tíðina, svellkaldur.“
Vinsæll í Arabíu og meðal tölvunörda
Ýmislegt er á dagskrá hjá Hafþóri Júlíusi. Hann er á leið til Katar þar sem hann mun verða á tölvuhátíð. „Ég hef farið á nokkrar slíkar áður, er að hitta aðdáendur; fólk spyr mig spurninga og fær myndir af sér með mér. Ég er voðalega vinsæll í Arabíu. Þeir vilja fá mig þangað,“ segir Fjallið sem enn hefur ekki verið í tölvuleik, en vonar að það komi að því. Það er miklu stærri heimur en fólk almennt áttar sig á.
Svo er Hafþór í fullum undirbúningi fyrir tvö mjög stór mót, annað er fyrstu helgina í mars; Arnold Classic Festival í Ohio í Bandaríkjunum. Þar er keppt í fjölda íþróttagreina og svo er það Sterkasti maður heims sem verður í apríl. Það mót er haldið í Malasíu, Kuala Lumpur og byrjar 19. apríl.
„Ef Hulk Hogan verður ekki búinn að svara mér þá, sendi ég honum línu aftur og ítreka áskorunina,“ segir Fjallið sem gefur sig ekki tommu með það.