Einar Sæmundsen, fræðslustjóri þjóðgarðsins á Þingvöllum, segir að unnið sé að vegvísum í þjóðgarðinum sem eigi að vera tilbúnir í vor. Ferðaþjónustuaðilar þurfi þó jafnframt að skerpa á samskiptum sínum við ferðamennina annars vegar og þjóðgarðinn hins vegar. Nær daglega þurfi að leita að fólki á svæðinu.

„Það er ýmislegt sem spilar þarna inn í. Stundum eru rútur á vitlausum stað eða fólk villist. Svo hefur það gerst að ferðamenn hafa hreinlega verið skildir eftir og það gerðist í vetur. Þá fundust tveir ferðamenn við Almannagjá í hríðarbyl, en við höfum verið í samskiptum við ferðaþjónustuna vegna þessa,“ segir Einar og heldur áfram að lýsa hremmingum erlendra ferðamanna:
„Síðan er það líka það að fólk gleymir sér, misskilur leiðsögumennina eða skilur þá ekki eða jafnvel áttar sig ekki nógu vel á aðstæðum. Fer á vitlaust bílastæði, skilja ekki fyrirmæli, hafa ekki heyrt þau eða einhverjir tungumálaörðugleikar.“

Einar segir að aldrei hafi eins margir orðið vegvilltir í garðinum og nú en að það haldist í hendur við aukinn fjölda ferðamanna á svæðinu. Ákveðið verklagsferli fer af stað þegar ferðamenn týnast en að í lang flestum tilfellum leysist málin á staðnum. Hann segist þó hafa áhyggjur af öryggi gestanna og upplifun þeirra.
„Það hefur auðvitað óhagræði í för með sér fyrir ferðaþjónustuna ef þeir tefjast. En maður hefur áhyggjur af þessu í þessari vetrarferðaþjónustu. Veðrið hefur verið sérstaklega óþægilegt í vetur. Það hafa verið sólarglennur og allt í góðu og svo dregur ský fyrir sólu og þá kannski kemur éljakóf og menn sjá ekki mikið,“ segir hann að lokum.