Guðmundur Franklín var maðurinn á bak við síðuna og ákváðu þeir Frosti Logason og Máni Pétursson að heyra í honum hljóðið og spyrja hvers vegna hann ákvað að loka síðunni. Guðmundur Franklín byrjaði á að segja að hann hefði í raun aldrei verið stuðningsmaður Ólafs Ragnars. Hann hefði sett þessa síðu upp af praktískum ástæðum því það yrði ódýrara fyrir þjóðina að hafa Ólaf áfram sem forseta í stað þess að kjósa nýjan forseta og hafa Ólaf á eftirlaunum.
Guðmundur Franklín sagðist hins vegar hafa lokað síðunni vegna þess að Ólafur Ragnar hefði sýnt sitt rétta innræti.

Vísar Guðmundur Franklín þar til fundar sem Ólafur Ragnar sótti til heiðurs stjórnar Goldman Sachs bankans en síðar um kvöldið sótti hann kvöldverð sem forstjóri Arcelor Mittal, Lakshimi Mittal, boðaði til heiðurs bankanum.
Sjá einnig: Forsetinn fjarverandi á hátíð til heiðurs forseta
„Þetta finnst mér varla hægt. Hann var í London og var að sinna þeim erindagjörðum að borða með þessum mönnum sem hafa valdið Grikklandi hvað mestum þjáningum. Í framhaldi af því hefur ekki heyrst bofs frá honum í sambandi við Grikkland.“
Guðmundur Franklín sagði Ólaf Ragnar einnig fá of mikið lof varðandi Icesave-deiluna. Sagði hann þjóðina hafa stöðvað samninginn með atkvæðagreiðslunni. Ólafur Ragnar hefði ekki haft neitt val um hana, hann gat ekki annað en boðað til hennar að mati Guðmundar. „Hann þurfti ekki þessar undirskriftir, hann átti bara að gera það sjálfur út frá eigin visku.“

Sjá einnig: Dorrit gerði ráð fyrir að Ólafur yrði ekki forseti
Hann sagði auk þess enga spennu fyrir síðunni. Rétt rúmlega þúsund manns hefðu „lækað“ hana. „Svo var fólk að ónáða mig og spyrja mig hvernig mér dytti þetta til hugar og benda mér á allskonar hluti. Þannig að ég nennti ekki að taka þátt í þessu. Það verður að vera einhver annar.“