Pavel Ermolinskij, leikstjórnandi íslenska körfuboltalandsliðsins, er klár í slaginn á Evrópumótinu og segir að íslenska liðið eigi fyllilega skilið að keppa við þá bestu í ár.
„Þetta er gífurlega stór stund fyrir íslenskan körfubolta á morgun. Þegar afrekstur mikillar og góðrar vinnu síðustu ára. Leikmenn, þjálfarar og umgjörðin í kringum þetta hefur verið til fyrirmyndar," segir Pavel Ermolinskij.
Íslenska landsliðið komst á EM með því að ná öðru sæti í sínum riðli í fyrrahaust en liðið vann þá tvo sigra á Bretum.
„Þetta er engin heppni og við unnum ekkert lottó. Þetta afrakstur mikillar og góðrar vinnu," segir Pavel.
Það er gott andrúmsloft og mikil samhugur innan íslenska hópsins sem hitti blaðamenn í dag fyrir leikinn sögulega á morgun.
„Jú við erum flestir orðnir góðir vinir en suma kann ég ekki alltof vel. Þeir vita hverjir þeir eru," svaraði Pavel með sínum vel þekkta húmor.
„Nei, nei, þetta er mjög samheldin hópur og það er mjög mikilvægt fyrir okkur, þjóð sem hefur ekki sömu hæfilega eða líkamlega getu og þessar sterkari þjóðir sem við erum að fara að mæta. Það er alveg galið að ætla að fara að gera eitthvað á móti þeim með sundraðan hóp," segir Pavel.
„Það sem við höfum fyrst og fremst er þessi samheldni og þessi liðsandi og baráttuandi sem við deilum allir saman. Það er okkar aðalsmerki og okkar eina von í þessu. Það þarf enginn að hafa áhyggjur af því að það sé einhver rígur á milli okkar," sagði Pavel.
Leikur Íslands og Þýskalands hefst klukkan 13.00 á morgun að íslenskum tíma og það verður fylgst með leiknum hér inn á Vísi.
Pavel: Við unnum ekkert lottó til að vera hérna

Tengdar fréttir

Jón Arnór: Það er mikið af andlitum hérna sem ég þekki
Jón Arnór Stefánsson og félagar í íslenska körfuboltalandsliðinu spila sinn fyrsta leik á Eurobasket á morgun þegar íslenska liðið mætir heimamönnum í Þýskalandi.

Ljóðskáldið Axel Kárason
Ísland hefur leik á EM í körfubolta á morgun þegar liðið mætir Þýskalandi í Mercedes Benz-höllinni í Berlín.