Skoðun

Kjör aldraðra og öryrkja skert ítrekað

Björgvin Guðmundsson skrifar
Hvað eftir annað hafa kjör aldraðra og öryrkja verið skert. Stjórnvöld hafa ítrekað hoggið í sama knérunn, látið lífeyrisþega sitja á hakanum í kjaramálum. Það er ef til vill of sterkt að segja, að níðst hafi verið á öldruðum og öryrkjum. En það vantar ekki mikið á, að svo hafi verið.

Mikill meirihluti sviptur verðlagsuppbót!

Um áramótin 2008/2009 var verðbólgan tæp 20%. Miðað við það átti lífeyrir aldraðra og öryrkja að hækka um tæp 20%. En þá gerðu stjórnvöld sér lítið fyrir og ákváðu, að aðeins 1/4 hluti lífeyrisþega fengi þessa hækkun. Hinir, 3/4 lífeyrisþega, fengju aðeins 9,6% hækkun lífeyris! Þetta var mikil kjaraskerðing. Og það er ekki farið að leiðrétta hana enn í dag.

Grunnlífeyrir afnuminn

Á árinu 2009 var enn á ný framin mikil skerðing á kjörum aldraðra og öryrkja. Það var hoggið í sama knérunn. Það var ákveðið að svipta hóp lífeyrisþega grunnlífeyri sínum, ákveðið að skerða frítekjumark vegna atvinnutekna og fjármagnstekna og aldurstengd örorkuuppbót var skert. Aðeins hluti þessara skerðinga hefur verið afturkallaður.

Laun hækka um 16% – lífeyrir 0!

Árin 2009 og 2010 hækkaði kaup láglaunafólks um 16%. Á sama tíma hækkaði lífeyrir aldraðra og öryrkja ekki um eina krónu! Stjórnvöld settu laun (lífeyri) lífeyrisþega í frost. Það var hoggið í sama knérunn. Í janúar 2011 hækkaði lífeyrir lægst launuðu eldri borgara um 2,3%! Það var langt undir verðbólgunni. Það var hoggið í sama knérunn.

Laun hækka um 10,3% – lífeyrir um 6,5%!

Árið 2011 voru gerðir nýir kjarasamningar á almennum markaði: Hækkuðu lægstu laun um 10,3% í júní 2011. En samt voru lægstu bætur aldraðra og öryrkja aðeins hækkaðar um 6,5%! Það var því haldið áfram að höggva í sama knérunn.

Um áramótin 2011/2012 hækkuðu lægstu laun um 6% en lífeyrir aldraðra og öryrkja hækkaði aðeins um 3,5%. Það var hoggið í sama knérunn.



Í janúar 2013 var lífeyrir aldraðra og öryrkja hækkaður um 3,9% en miðað við hækkun launa og verðlags átti hann að hækka um 5,4%. Það var hoggið í sama knérunn.

Í janúar 2014 var verðbólgan 4,2% og laun höfðu hækkað um 5%. En það var klipið af lífeyri aldraðra og öryrkja. Hann hækkaði aðeins um 3,6%. Það var hoggið í sama knérunn.

Lægstu laun hækka um 27% – lífeyrir 0

Árið 2015 sömdu verkalýðsfélög ófaglærðs verkafólks um að lægstu laun skyldu hækka í 300 þús. kr. á mánuði á þremur árum? Það er 27% hækkun á byrjunarlaunum. En fjármálaráðherra hafnaði því á Alþingi, að aldraðir og öryrkjar fengju hækkun á sínum lífeyri. Það var hoggið í sama knérunn og lífeyrisþegum neitað um kjarabætur, þegar allur þorri launþega var að fá kjarabætur. (Iðnaðarmenn og hjúkrunarfræðingar hafa einnig samið).

Oft hefur framkoma stjórnvalda við lífeyrisþega verið slæm en sjaldan eins neikvæð og nú, þegar nánast allir í landinu eiga að fá kjarabætur nema aldraðir og öryrkjar! Mig skortir orð til þess að lýsa þessari framkomu. Hún er óásættanleg. Það verður að hnekkja ákvörðun fjármálaráðherra.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×