Lífið

Syndir um eins og hafmeyja í laugunum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Það er ekkert rosalega erfitt að synda með sporðinn,“ segir Sigríður Salka.
„Það er ekkert rosalega erfitt að synda með sporðinn,“ segir Sigríður Salka. Vísir/Vilhelm
Sigríður Salka sem verður átta ára eftir einn mánuð hefur vakið athygli í sundlaugunum þegar hún mætir þar með forkunnarfallegan sporð. Hvernig fékk hún hann?

Ég sá myndband á YouTube af stelpum að synda með sporð, það var ótrúlega flott og mig langaði svo í svoleiðis. Ég var búin að biðja mömmu oft um að fá hann en hún sagði að hann væri of dýr. Ég bað líka jólasveininn að gefa mér hann í skóinn en mamma sagði að jólasveinar gæfu ekki svona dýrar gjafir. En svo fékk ég hann samt í jólagjöf. Ég var ótrúlega hissa og glöð.

Er hægt að synda með hann?

Já, það er meira að segja ekki rosalega erfitt, en samt dálítið þegar maður er orðinn þreyttur í fótunum.

Hvað heitir þú fullu nafni og hversu gömul ertu?

Ég heiti Sigríður Salka Ólafsdóttir og ég er sjö ára en verð átta ára eftir mánuð.

Hvaða fög eru í uppáhaldi í skólanum?

Mér finnst skrift skemmtilegust og að læra í bókinni Ritrúnu.

Hver eru helstu áhugamálin þín utan skólans?

Ég æfi fimleika, fótbolta og körfubolta en mér finnst líka gaman að fara til Möggu frænku minnar sem er 72 ára gömul og er frænka númer eitt.

Hvernig leikir finnst þér skemmtilegastir?

Ein króna og feluleikur. Við förum oft í þá í frímínútum.

Gerir þú einhvern tíma skammarstrik?

Nei. Mig langar ekki að verða skömmuð.

En hvað langar þig að verða þegar þú verður stór?

Kannski lögregla, læknir eða blaðamaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.