Samkvæmt heimildum blaðsins eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins einróma í þeirri skoðun sinni að traust á milli samstarfsflokkanna sé við frostmark. Enginn vilji sé til þess að „fara í slag við þjóðina.“
Stjórnarandstaðan hefur borið fram þingsályktunartillögu um vantraust og þingrof. Tillagan kemur til umræðu á Alþingi næstu daga.

Heimdallur, félag ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík, tók af skarið í gær og lýsti því yfir að félagið myndi ekki styðja ríkisstjórn undir forsæti Sigmundar Davíðs. Þá skora bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins á Akureyri á Sigmund að segja af sér. Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að formaður Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, sé sammála því að Sigmundi sé ekki sætt í embætti. Bjarni Benediktsson vildi ekki lýsa yfir stuðningi við Sigmund í þeim viðtölum sem hann fór í, í gær.
Ein fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar fóru fram á Austurvelli í gær. Þar voru samankomin á milli tíu og tuttugu þúsund manns.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. apríl.