Þetta kemur fram í fréttum Kjarnans og Reykjavík Grapevine. Síðarnefnda fréttaveitan birtir ársreikninga Moussaieff Jewellers Limited, fjölskyldufyrirtæki Dorritar, frá árunum 1999 til 2005 þar sem fram kemur að fyrirtækið ætti hlut í Lasca Finance á Bresku jómfrúaeyjum ásamt þeim „S. Moussaieff“ og „Frú Moussaieff.“ Þar er sennilega átt við foreldra Dorritar, Schlomo og Alisa Moussaieff.
Samkvæmt reikningunum seldi fyrirtækið hinum eigendunum tveimur tíu prósenta hlut sinn í Lasca árið 2005 á um 68 milljónir íslenskra króna. Kjarninn segist hafa undir höndum skjöl þar sem fram kemur að Lasca hafi á árunum sem um ræðir verið í umsjón panamísku lögfræðistofunnar Mossack Fonseca, sem sem sérhæfir sig í rekstri aflandsfélaga.
Sjá einnig: Kári vill að Ólafur Ragnar upplýsi þjóðina um fjármál hans og Dorritar
Ólafur Ragnar Grímsson hefur ítrekað neitað því, í kjölfar umfangsmikils gagnaleka frá Mossack Fonseca, að hann eða Dorrit eigi félög á aflandseyjum. Í nýlegu viðtali við CNN þvertók hann fyrir að hann eða fjölskylda hans tengdist slíkum félögum á nokkurn hátt.
Að því er segir í frétt Reykjavík Grapevine, er fréttin tilkomin vegna ábendingar frá Ástþóri Magnússyni forsetaframbjóðanda.