Aðaltökum myndarinnar er löngu lokið og myndin á eftirvinnslustigi en topparnir hjá kvikmyndaveri Disney, sem gefur myndina út, fengu nýverið að sjá fyrstu útgáfuna af myndinni í fullri lengd og voru ekki ánægðir að því er fram kemur á vef Page Six. Er því búið að negla niður tökudaga yfir fjögurra vikna tímabil í júlí næstkomandi til að taka upp einhver atriði myndarinnar aftur eða í sumum tilfellum bæta nýjum við.
Page Six segir leikstjóra myndarinnar, Gareth Edwards, þurfa nú að þola að vera undir hæl afar taugaveiklaðra toppa hjá Disney sem munu væntanlega gera miklar kröfur um breytingar.
„Disney fer ekki í aftursætið og heimtar breytingar því myndin hefur ekki komið vel út í prufusýningum,“ hefur Page Six eftir heimildarmanni sínum.
Heimildarmaðurinn segir jafnframt að boginn sé hátt spenntur hjá Disney eftir gífurlega velgengni sjöundu Stjörnustríðsmyndarinnar, The Force Awakens. „Við berum ábyrgð á þessari kvikmyndaseríu og skuldum aðdáendum hennar að gera eins góða mynd og hægt er.“