Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er nú með fullskipaðan hóp í Falkirk eftir að Dagný Brynjarsdóttir kom til móts við stelpurnar í Skotlandi í gær.
Íslenska kvennalandsliðið mætir Skotlandi á föstudaginn í uppgjöri efstu liða riðilsins í undankeppni EM og liða sem hafa enn ekki tapað stigi í undankeppninni. Liðin berjast um efsta sætið sem gefur beint sæti á Evrópumótinu í Hollandi á næsta ári.
Dagný Brynjarsdóttir var upptekin með félagi sínu Portland Thorns í Bandaríkjunum á sunnudagskvöldið og ferðalagið hennar frá vesturströnd Bandaríkjanna tók sinn tíma. Knattspyrnusambandið segir frá komu hennar á heimasíðu sinni.
Tveir leikmenn úr skoska hópnum voru samferða íslensku landsliðskonunni frá Bandaríkjunum en Dagný mætti þeim einmitt á sunnudagskvöldið þegar Portland Thorns og Seattle Reign gerðu markalaust jafntefli í NWSL deildinni.
Þetta voru miðvörðurinn Rachel Corsie og miðjumaðurinn Kim Little. Dagný átti þó nokkuð í höggi við Rachel í leiknum en sú sunnlenska lék sem framherji í þessum leik.
Dagný hefur samt sem áður enn enn náð að æfa með íslenska liðinu því hún náði þó ekki æfingu dagsins. Dagný verður þó klár í slaginn í dag þegar liðið æfir tvisvar sinnum.
Aðstæður eru hinar ákjósanlegustu í Falkirk, veðrið leikur við heimamenn og gesti þeirra. Sólin lætur mikið fyrir sér fara og hitinn er um 18 stig. Allar æfingarnar fara fram á gervigrasi enda verður leikið á gervigraslögðum Falkirk velli á föstudaginn.
Dagný loksins komin til íslensku stelpnanna í Skotlandi
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið


„Hvað eru menn búnir að láta fífla sig út í?“
Íslenski boltinn


Trans konum bannað að spila í kvennaflokki á Bretlandi
Enski boltinn





