Tölurnar sagði Osborne byggðar á niðurstöðum Institute for Fiscal Studies á efnahagslegum áhrifum brotthvarfs. Meðal annars vegna breytinga á milliríkjaviðskiptum. Í niðurstöðu rannsóknarinnar segir meðal annars að ef af brotthvarfi yrði þyrfti ríkið að ráðast í umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir í allt að tvö ár.

Ummæli Osbornes féllu þó í grýttan jarðveg hjá þeim samflokksmönnum hans í Íhaldsflokknum sem aðhyllast Brexit. Þingmennirnir Iain Duncan Smith, Liam Fox og Owen Paterson skrifuðu undir yfirlýsingu þar sem þeir segjast ekki geta leyft Osborne að fara gegn stefnu ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var eftir þingkosningar í fyrra. Ríkisstjórnin lofaði því meðal annars í stefnu sinni að tekjuskattur og virðisaukaskattur myndu ekki hækka á kjörtímabilinu.
„Okkur finnst ótrúlegt að fjármálaráðherra hóti að svíkja svo mörg loforð,“ stóð í yfirlýsingunni. „Það er fáránlegt að segja að ef fólk vilji taka stjórnartaumana af Evrópusambandinu muni hann refsa því með þessum hætti,“ bættu þremenningarnir við. Þá segja þeir stöðu Osbornes einkar veika yrðu ályktanir hans að veruleika.
Samkvæmt meðaltali skoðanakannana sem The Financial Times tekur saman myndu 47 prósent Breta kjósa að yfirgefa Evrópusambandið en 44 prósent áframhaldandi veru. Kosið verður 23. júní næstkomandi.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. júní.