Enskir fjölmiðlar fóru hörðum orðum um frammistöðu enska liðsins sem vann aðeins einn leik af fjórum á EM. Strax eftir leikinn gegn Íslandi sagði landsliðsþjálfarinn Roy Hodgson upp störfum.
Englendingar unnu alla 10 leiki sína í undankeppni EM 2016 og gekk vel í aðdraganda mótsins.
Sú tölfræði sem svíður hvað sárast fyrir stuðningsmenn enska landsliðsins er að England hefur unnið öll fjögur liðin sem eru komin í undanúrslit á EM á undanförnum 12 mánuðum.
4 - England have beaten all four of the #Euro2016 semi-finalists in the last 12 months. Champions.Englendingar unnu 2-0 sigur á Frökkum í vináttulandsleik á Wembley 17. nóvember 2015 með mörkum frá Dele Alli og Wayne Rooney.
— OptaJoe (@OptaJoe) July 4, 2016
Í næsta vináttulandsleik Englands, 26. mars 2016, vann liðið frábæran 2-3 sigur á Þýskalandi á Ólympíuleikvanginum í Berlín. Englendingar lentu 2-0 undir í seinni hálfleik en sneru dæminu sér í vil. Harry Kane, Jamie Vardy og Eric Dier skoruðu mörk enska liðsins í þessum endurkomusigri.
Í síðasta vináttulandsleiknum fyrir EM, 2. júní 2016, vann England svo 1-0 sigur á Portúgal á Wembley. Chris Smalling skoraði eina mark leiksins á 86. mínútu.
Loks unnu Englendingar 2-1 sigur á Wales í annarri umferð riðlakeppninnar á EM. Leikurinn fór fram á Stade Bollaert-Delelis í Lens.
Gareth Bale kom Wales yfir með marki beint úr aukaspyrnu á 42. mínútu en Vardy jafnaði metin eftir 11 mínútna leik í seinni hálfleik. Það var svo Daniel Sturridge sem tryggði Englandi sigurinn þegar hann skoraði í uppbótartíma.
Þrátt fyrir þessa góðu sigra þurfa ensku leikmennirnir að horfa á liðin sem þeir unnu spila í undanúrslitum á meðan þeir þurfa að horfa á leikina í sjónvarpinu í stað þess að spila sjálfir.