Þetta var fyrsta Evrópumark Viðars Arnar sem skoraði með flottum skalla eftir fyrirgjöf frá hægri á 50. mínútu leiksins.
Selfyssingurinn kom Maccabi í 2-0 en heimamenn náðu svo 3-0 forystu á 70. mínútu og stefndi allt í glæsilegan heimasigur gegn sterku liði Rússanna.
„Ég er í losti,“ sagði Viðar Örn við ísraelskan blaðamann eftir leikinn en þetta var annar leikur Selfyssingsins fyrir Maccabi. Hann fiskaði vítaspyrnu í jafntefli í deildinni um helgina.
„Ég spilaði vel og þetta er aðeins annar leikur minn fyrir félagið. Mér leið vel og ég skoraði gott mark gegn stóru liði.“
„Við vorum með 3-0 forystu þegar mér var skipt af velli og þá datt mér ekki í hug að við myndum tapa. Ég er í losti. Við verðum að ræða það á milli okkar hvað fór úrskeiðis,“ sagði Viðar Örn Kjartansson.