57 íslenskir sjómenn sem störfuðu hjá íslenskum útgerðum í útlöndum eru grunaðir um að hafa svikið undan tekjuskatti en mál þeirra eru meira en helmingur þeirra skattalagabrota sem nú eru til rannsóknar. Flest mál sjómannanna hefur skattrannsóknarstjóri kært til héraðssaksóknara.
Greint er frá málinu í Fréttatímanum í dag og kemur þar fram að meint brot snuist um að sjómennirnir hafi ekki greitt tekjuskatt af laununum sínum þrátt fyrir að hafa verið búsettir hér á landi. Sumir þeirra störfuðu hjá útgerðinni Skjólskipum í Afríku en ekki liggur fyrir um hvaða fleiri útgerðir er að ræða.
Skattrannsóknarstjóri hefur tekið 108 mál til rannsóknar síðastliðna mánuði í tengslum við lekann í Panama-skjölunum, og þá mál sjómannanna tengist lekanum þá hafði rannsókn verið hafin í þeim flestum áður en skattrannsóknarstjóri keypti gögn um möguleg skattaundanskot Íslendinga í útlöndum og áður en umfjöllun um Panama-skjölin hófst í fjölmiðlum.
Nánar er fjallað um málið á vef Fréttatímans.
Tugir íslenskra sjómanna kærðir fyrir skattsvik
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
