Dennis Rodman, fimmfaldur NBA-meistari með Detroit Pistons og Chicago Bulls, er í vondum málum.
Hinn 55 ára gamli Rodman hefur verið kærður fyrir að valda bílslysi, keyra á röngum vegarhelmingi, eignaspjöll, ljúga að lögreglunni og keyra án þess að vera með gilt ökuskírteni.
Þann 20. júní í Santa Ana í Kaliforníu keyrði Rodman á fullri ferð í áttina að fólksbíl sem neyddist til að beygja út af veginum til að forðast árekstur. Fólksbílinn lenti á vegg og skemmdist mikið.
Rodman ræddi ekki við ökumann fólksbílsins og flúði af vettvangi áður en lögreglan kom á staðinn.
Mál Rodmans verður tekið fyrir 20. janúar á næsta ári. Hann á yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsisdóm.
Hinn afar skrautlegi Rodman hefur alla tíð verið duglegur að koma sér í fréttirnar, bæði fyrir frammistöðuna inni á vellinum sem og ýmis uppátæki utan vallar.
Á síðustu árum hefur hann t.a.m. vakið athygli fyrir vinskap sinn við Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu. Hann studdi einnig Donald Trump í nýliðnum forsetakosningum í Bandaríkjunum.
