Á morgun verða forsetakosningar endurteknar í Austurríki. Áður höfðu forsetakosningarnar verið haldnar í maí á þessu ári en hæstiréttur landsins ógilti niðurstöður kosninganna þar sem honum þótti að sýnt hafi verið fram á að kosningalög hafi verið brotin.
Skoðanakannanir sýna að afar mjótt er á munum á milli þeirra tveggja frambjóðenda sem etja kappi, þeirra Norbert Hofer, frambjóðanda Frelsisflokksins og Alexander Van der Bellen, frambjóðanda Græningja.
Kosningarnar á morgun eru af mörgum talinn vera prófsteinn á fylgi þjóðernissinnaðra flokka yst á hægri væng stjórnmála í Evrópu í kjölfar Brexit atkvæðagreiðslunnar. Þær geti gefið til kynna hvernig úrslit verði í komandi kosningum í Hollandi, Frakklandi og Þýskalandi á næsta ári.
Hofer hefur byggt kosningabaráttu sína á loforðum um að færa venjulegum Austurríkismönnum land sitt aftur og á þar við úr greipum innflytjenda sem búa í landinu.
Fari svo að Hofer verði kosinn, verður hann fyrsti þjóðarleiðtogi Evrópu frá seinna stríði sem er þjóðernissinni af ysta hægri væng stjórnmálanna.
