Marcus Rashford skoraði eina mark leiksins þegar Manchester United bar sigurorð af Celta Vigo í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í gær.
Þrátt fyrir að hafa fengið nokkur góð færi þurfti United að bíða fram á 67. mínútu eftir marki.
Það gerði Rashford með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu. Markið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Þetta var fjórða mark þessa 19 ára gamla framherja í síðustu átta leikjum United. Þetta var jafnframt fyrsta markið sem Rashford skorar beint úr aukaspyrnu fyrir United.
Seinni leikur liðanna fer fram á Old Trafford á fimmtudaginn.
