
Viðar var í París í síðustu viku þar sem hópurinn hittist. Hefur hann tekið viðtöl við fjölda fólks og safnað ógrynni af upplýsingum. Er stefnt að því að kynna ályktunina um miðjan júní. „Er þetta heilsusamlegt eða hættulegt? Fólk hefur ekki samræmdar upplýsingar um stöðuna,“ segir hann. „Á þetta að vera íþrótt? Hvað er hægt að gera til að gera MMA heilsusamlegra? Innviðirnir eru ekki alltaf til staðar, varðandi reglur, þjálfaramenntun, tryggingar og fleira. Þetta er ekki alls staðar til staðar og því var ákveðið að taka stöðuna núna því MMA er orðið mjög vinsælt.“
Hann bendir á að hópurinn sé að reyna að skapa miðlæga þekkingu á MMA sem sums staðar er ekki skilgreint sem íþrótt heldur eitthvað allt annað. „Á annan bóginn er þetta hættulegt og sums staðar tengist þetta skipulagðri glæpastarfsemi en á hinn bóginn er líka verið að vinna gott og öflugt starf, sem virðist bæði vera uppbyggilegt og heilsusamlegt. MMA er mjög vinsælt í Rússlandi og Svíþjóð til dæmis en sums staðar vilja þjóðir banna MMA og helst ekkert vita af þessu. Þetta er því krefjandi og víðfeðmt verkefni.“