Ísland hefur leik á EM í Hollandi 18. júlí. Íslensku stelpurnar fá afar verðugt verkefni strax í fyrsta leik þegar þær mæta ógnarsterku liði Frakka sem er í 3. sæti á heimslista FIFA.
En hefði Freyr valið að spila á móti öðru liði en því franska í fyrsta leiknum á EM?

„Ef við hugsum þetta þannig: síðasti leikur í riðli og það er allt undir, þá viltu ekki mæta Frökkum þá. Er ekki bara fínt að byrja á Frökkum? Við vitum öll að Frakkarnir eru mögulega með besta lið í heimi, ætla sér og eiga mögulega að vinna mótið. Við höfum engu að tapa,“ sagði Freyr.
„Ef við fáum stig á móti Frökkum erum við búin að setja okkur í mjög góða stöðu upp á hina tvo leikina. Þrjú stig setja okkur í lykilstöðu. Ég er ótrúlega spenntur. Við fáum besta lið í heimi í fyrsta leik, á stóru sviði og með fullt af Íslendingum. Þetta getur ekki byrjað betur.“
Freyr var einnig spurður út í markmið Íslands á EM.
„Tilfinningin fyrir ári síðan, þegar við vorum búin að vinna Skotana og gera frábæra hluti á Algarve og vorum á fljúgandi leið upp, þá var ég bara: við erum að fara að vinna þetta mót. Það er ekkert sem getur stoppað okkur,“ sagði Freyr.
En hafa markmið íslenska liðsins breyst í ljósi þeirra miklu meiðslaáfalla sem það hefur orðið fyrir?

„Við þurfum aðeins að jarðtengja okkur sem er kannski bara gott. Hitt hefði getað farið með okkur í vonbrigði og vesen. Markmiðin eru ennþá þau sömu og við ætlum okkur upp úr riðlinum,“ sagði Freyr.
„Þú verður að vera með einhver markmið þegar þú ertu komin upp úr riðlinum, annars geturðu lent á þessum vegg að vera sáttur. Ef við förum í útsláttarkeppnina er svo stutt í baráttu um medalíur. Þá erum við bara að fara að keppa um að vinna mótið. Annað væri galið, þetta eru bara þrír leikir. Við vitum af þessu. Við köllum þetta drauminn.“
Allt innslagið úr Ísland í sumar má sjá í spilaranum hér að ofan.