„Þetta voru svekkjandi úrslit. Maður vildi allavega fá eitt stig út úr þessum leik, hvað þá þrjú. Að fá ekkert stig eftir svona frábæra frammistöðu er erfitt. En svona er þetta. Þessi leikur er búinn,“ sagði Sara Björk.
„Við spiluðum eins og við lögðum upp með. Við spiluðum frábæran varnarleik, náðum upp góðri pressu og sóttum úr skyndisóknum. Mér fannst við vera með þær í föstum leikatriðum en við hefðum getað gert betur í okkar föstu leikatriðum. Við áttum að skora.“
„Mér fannst við ekki gefa mikið af opnum færum á okkur og því er svekkjandi að fá ekkert stig út úr þessum leik,“ sagði fyrirliðinn.
Sara Björk var einnig í byrjunarliðinu sem tapaði fyrir Frakklandi í fyrsta leik á EM fyrir átta árum síðan en hún segir liðið vera komið miklu lengra en þá.
„Þetta er allt annað en fyrir átta árum. Maður var svekktur eftir lélega frammistöðu gegn Frakklandi þegar við mættum þeim í Finnlandi en nú labba ég af vellinum stolt. Ég horfði stolt upp í stúku og á leikmennina ótrúlega stolt,“ sagði Sara.
„Það er allt öðruvísi að ganga svona af velli stoltur þrátt fyri tap og það skiptir máli upp á næsta leik. Það er ótrúlega mikilvægt að fara inn í næsta leik með góða frammistöðu á bakinu.“
Hefur fyrirliðinn einhverjar áhyggjur af því að stelpurnar verði of lengi að komast yfir þessi úrslit í ljósi þess að það er mikilvægur leikur gegn Sviss á laugardaginn?
„Nei, það er of stutt á milli leikja. Þetta er búið núna. Ég er búin að jafna mig og er tilbúin í næsta leik, sagði Sara Björk Gunnarsdóttir.“