Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari Íslands, er búin að ákveða byrjunarliðið sem mætir Frakklandi í fyrsta leiknum á EM 2017 í Hollandi.
Stelpurnar okkar eiga stórleik á móti Frakklandi í Tilburg á þriðjudaginn klukkan 18.45 að íslenskum tíma og er ljóst hvaða stelpur byrja leikinn nema eitthvað komi upp á.
„Ég er búinn að ákveða byrjunarliðið,“ sagði Freyr á blaðamannafundi íslenska liðsins í dag. „Ég hef verið með ákveðin plön síðustu daga og vikur en í gær tók ég ákvörðun.“
Stelpurnar fá að vita byrjunarliðið á fundi klukkan 17.00 á morgun en það verður svo ekki gert opinbert fyrir aðra fyrr en tæpum tveimur klukkustundum fyrir leik.
Freyr segist ekki hafa neinar áhyggjur af því að byrjunarliðið leki út en það er eitthvað sem þjálfarar hafa lítinn húmor fyrir.
„Það væri fínt ef það myndi ekki leka. Það hefur samt ekki verið vandamál. Frakkarnir vita ekki hvað við ætlum að gera þannig við getum komið þeim á óvart,“ sagði Freyr Alexandersson.
Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).
