„Vonbrigði að sjálfsögðu að vinna ekki leikinn, bara gríðaleg vonbrigði,“ sagði Guðbjörg í samtali við Tómas Þór Þórðarson, fréttamann Vísis, eftir leikinn í kvöld.
Leikmenn Íslands settu pressu á sig sjálfa fyrir leikinn en þær höfðu gefið það út að þær ætluðu sér að vinna hann. Það var hinsvegar ekki að sjá það á vellinum í dag en það virtist sem að leikmenn Íslands hafi verið stressaðir og ekki liðið vel inni á vellinum í kvöld.
„Við förum í alla leiki til þess að vinna. Stolt okkar var í húfi. Ég get ekki útskýrt afhverju það var svona mikið stress, við vorum búnar að tala um að reyna að spila betur. Við erum kannski ekki lengra komnar í uppspilinu en þetta, þá að við þurfum ekki að halda boltanum og létum okkur leiðast í einhverja gildru hjá þeim,“ sagði Guðbjörg.
Aðspurð um hvort að henni þyki Ísland eiga langt í land með að komast upp úr riðli á stórmóti segir hún svo ekki vera.
„Mér finnst við miklu betri en við sýndum á þessu móti. Það er rosalega erfitt að finna ástæðuna akkúrat núna, við vorum ótrúlega vel undirbúnar. Freysi er sennilega besti þjálfari sem ég hef nokkurn tímann haft, ég hef komið víða við á löngum ferli og hann gerði virkilega allt til þess að við værum eins vel undirbúnar og mögulegt var og hann átti miklu meira skilið úr þessu móti. Maður fær hálf illt í hjartað að hafa ekki getað gefið honum það sem hann átti skilið,“ sagði Guðbjörg svekkt.
Austurríska liðið hefur verið á eftir því íslenska í töluverðan tíma en hafa verið á góðri siglingu undanfarin ár. Þær voru mun betri en íslenska liðið í kvöld en er það áhyggjuefni fyrir íslenska liðið?
„Jú, kannski. Það er samt ekki bara Austurríki sem hefur verið á siglingu seinustu ár heldur mörg lið. Ekki samt að það sé nein afsökun en auðvitað er erfiðara að fara inn í leik þegar maður er að ströggla með „andlegan-balance“ eftir síðasta leik, við vorum náttúrulega dottnar út og þær að berjast um að komast áfram. Það er erfiðara að gíra sig upp í þennan leik þótt að mér fannst við virkilega stíga upp og reyna að sýna okkar innri íþróttamann og gera þetta almennilega. Við ætluðum svo sannarlega að sýna betri leik en við gerðum hér í kvöld,“ sagði Guðbjörg að lokum við Tómas.
