Bandaríska sundkonan Katie Ledecky endurskrifaði sögu heimsmeistaramótsins í sundi í dag þegar hún tryggði sér öruggan sigur í 1500 metra skriðsundi.
Katie Ledecky varð með þessu fyrsta konan sem nær að vinna tólf gullverðlaun á HM í sundi en hún bætti met landa síns Missy Franklin.
Þetta voru þriðju gullverðlaun hennar á Heimsmeistaramótinu í Búdapest en hún hafði áður unnið 400 metra skriðsund og hjálpar bandarísku sveitinni að vinna 4 x 100 metra boðsund.
Katie Ledecky er hvergi nærri hætt á þessu móti því hún fær möguleika á því að bæta við þremur gullverðlaunum áður en heimsmeistaramótið klárast. Þá væri hún komin með fimmtán gull samtals.
Katie Ledecky hélt upp á tvítugsafmælið sitt í marsmánuði og ætti því að hafa tækifæri til að keppa á mörgum heimsmeistaramótum til viðbótar.
Hún vann einnig fimm gull og eitt silfur á Ólympíuleikunum í Ríó og er nú handhafi heimsmetanna í 400, 800 og 1500 metra skriðsundi en alls hefur Katie Ledecky sett þrettán heimsmet á ferlinum.
Heimsmeistaragull Katie Ledecky til þessa:
HM 2013 í Barcelona á Spáni - 4 gull
400 metra skriðsund
800 metra skriðsund
1500 metra skriðsund
4 x 200 metra boðsund
HM 2015 í Kazan í Rússlandi - 5 gull
200 metra skriðsund
400 metra skriðsund
800 metra skriðsund
1500 metra skriðsund
4 x 200 metra boðsund
HM 2017 í Búdapest í Ungverjalandi - 3 gull
400 metra skriðsund
1500 metra skriðsund
4 x 100 metra boðsund
