„Þetta eru mikil vonbrigði, mikið svekkelsi og mikið af tilfinningnum. Það er mikið undir og búið að leggja mikið í undirbúninginn og er auðvitað sárt að fá ekkert út úr leiknum,“ sagði Freyr í samtali við Tómas Þór Þórðarson eftir leik.
„Mér fannst þetta skrítinn fótboltaleikur. Mér fannst hvorugt liðið ná einhverju tangarhaldi á leiknum. Hann var úti um allt og það er ekki það sem ég vil. Bæði lið spiluðu vel á köflum en ég held að þetta hafi ekki verið góður leikur. Svo gerum við of mikið af tæknifeilum; hornspyrnur lélegar, aukaspyrnur ekki góðar, klaufar inni á síðasta þriðjungnum.“
Freyr segir að baráttan hafi verið í lagi og íslenska liðið hafi reynt allt til síðustu mínútu.
„Það vantaði ekkert upp á andann í liðinu eftir fyrstu 15 mínúturnar sem voru mjög skrítnar. Sviss átti ekkert frábæran dag, þær voru úti um allt eins og við,“ sagði Freyr sem fannst eitt og annað vanta í leik Íslands í dag.
„Það er margt sem ég var ekki ánægður með í dag, því það var tækifæri til að gera miklu betur. Við gerðum það á köflum en ég hefði viljað hafa þá kafla lengri. Það er sárt. En þær hættu aldrei, gáfu allt í þetta og við teygðum okkur eftir þessu.
Hin rússneska Anastasia Pustovoitova dæmdi leikinn og gerði það afar illa. Til dæmis var Lara Dickenmann, sem skoraði jöfnunarmark Sviss, stálheppin að hanga inni á vellinum. Freyr var ósáttur en beit í tunguna á sér.
„Hvað eigum við að segja? Hver er línan á þessu móti? Ég þarf að passa hvað ég segi,“ sagði Freyr að lokum.