Maccabi Tel Aviv tryggði sér í dag sæti í umspilsumferð Evrópudeildar UEFA en liðið vann 2-0 samanlagðan sigur á gríska liðinu Panionios.
Leik liðanna lauk með 1-0 sigri Maccabi í Grikklandi en markið var sjálfsmark heimamanna. Viðar Örn Kjartansson skoraði mark Maccabi í 1-0 sigri á heimavelli í fyrri leiknum.
Þetta var fjórði sigur Maccabi í jafn mörgum Evrópuleikjum í sumar en liðið sló KR úr leik í 2. umferð forkeppninnar. Viðar Örn var í byrjunarliði Maccabi í kvöld og spilaði fyrstu 83 mínúturnar.
Dönsku Íslendingaliðin Bröndby og Lyngby féllu úr leik í keppninni í kvöld. Hjörtur Hermansson spilaði allan leikinn í 2-0 tapi fyrir Hajduk Split í Króatíu. Fyrri leiknum lauk með markalausu jafntefli.
Hallgrímur Jónasson var ekki í liði Lyngby vegna mistaka í skráningu en liðið tapaði í kvöld fyrir rússneska liðinu Krasnodar, 3-1, og 5-2 samanlagt.
FH er eitt þeirra 44 liða sem er komið í umspilsumferð Evrópudeilarinnar en dregið verður á morgun.
Meðal þeirra liða sem FH getur mætt er Ajax, Athletic Bilbao, AC Milan og Everton.

