Uppruni hringjanna sem eru helsta kennileiti þessarar næststærstu reikistjörnu sólkerfisins hefur legið á huldu. Þeir eru að mestu úr nær tandurhreinum vatnsís.
Það hefur valdið vísindamönnum heilabrotum. Hefðu hringirnir myndast um svipað leyti og sólkerfið varð til ættu þeir að vera orðnir dökkir af geimryki. Séu þeir ævafornir þyrftu hringirnir að vera afar massamiklir til að geta „innbyrt“ og falið rykið sem þeir hefðu óhjákvæmilega safnað í sig á milljörðum ára og staðið af sér veðrun geimsins.

Cassini-geimfarið, sem á aðeins tvær vikur eftir af þrettán ára leiðangri við Satúrnus, er nú á svaðalegri braut um reikistjörnuna sem færir það þétt upp við lofthjúpinn og inn fyrir hringina.
Ein af mælingunum sem Cassini hefur gert frá því að þessi fífldjörfu nærflug hófust er á massa hringjanna til þess að varpa frekara ljósi á uppruna þeirra.
Fyrstu vísbendingarnar úr þessum mælingum virðast vera þær að hringirnir séu tiltölulega massalitlir og því líklega tiltölulega ungir á stjarnfræðilegan mælikvarða.
Sjá einnig:Svanasöngur Cassini við Satúrnus gæti afhjúpað leyndardóma
Reynist það rétt telja vísindamenn líklegast að hringirnir hafi orðið til úr tungli eða halastjörnu sem varð þyngdarkrafti Satúrnusar að bráð fyrir ekki svo löngum tíma. Fleiri en eitt fyrirbæri gætu jafnvel hafa myndað hringina.
„Kannski stafar munurinn sem við sjáum á hringjunum af ólíkum fyrirbærum sem rifnuðu í sundur. Ef hringirnir eru massaminni þá hefðu þeir ekki haft massa til að lifa af drífu örsmástirna sem við spáum að hafi átt sér stað frá myndun reikistjörnunnar,“ segir Linda Spilker, vísindamaður við Cassini-leiðangurinn við breska ríkisútvarpið BBC.
Rannsóknirnar eru enn á frumstigi og frekari gögn þarf áður en hægt verður að staðfesta aldur hringjanna. Séu þeir hins vegar aðeins hundrað milljón ára gamlir, eins og vísindamennirnir segja að sé mögulegt, þýðir það að þeir hafi myndast á meðan risaeðlurnar réðu ríkjum á jörðinni.

Cassini-leiðangrinum lýkur 15. september þegar geimfarinu verður steypt ofan í lofthjúp Satúrnusar. Það er gert til þess að forða þeim fjarlæga möguleika að örverur frá jörðinni sem gætu enn verið til staðar utan á Cassini endi á tunglum eins og Títan og Enkeladusi.
Vísbendingar eru um að haf fljótandi vatns sé til staðar undir ísskorpunni sem myndar yfirborð Enkeladusar.
Áður en yfir lýkur mun Cassini taka tvær dýfur til viðbótar á milli hringjanna og efri laga lofthjúps Satúrnusar. Síðustu verk Cassini verða að taka myndaröð af fyrirbærum eins og Títan og Enkeladusi, sérstæðu sexhyrndu veðrakerfi á norðurpóli Satúrnusar og smátungli inni í hringjunum sem nefnist Peggy.
Leiðangrinum lýkur formlega kl. 11:54 að íslenskum tíma föstudaginn 15. september þegar áætlað er að samband við geimfarið rofni.