Dagný var ekki alltof sátt með Amandine Henry þegar sú franska var örlagavaldur íslenska landsliðsins enda kom það á daginn að hún hafi verið að svindla á íslensku stelpunum.
Amandine Henry fiskaði víti þegar aðeins fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma í leik Íslands og Frakklands á EM í Hollandi en þetta var fyrsti leikur íslensku stelpnanna á mótinu.
Henry féll auðveldlega í teignum eftir samskipti við Elínu Mettu Jensen og úr vítinu skoraði Eugenie Le Sommer sigurmark Frakka.
Dagný sagðist í viðtali við Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson á RÚV hafa gengið á Amandine Henry þegar þær hittust aftur eftir EM og spurt hana út í meintan leikaraskap.
„Það fyrsta sem ég spurði hana af var hvort hún hafi verið að dýfa sér í teignum og hún viðurkenndi það. Þá var ég ánægð því þá var ég ekki að bulla í viðtölum eftir leikinn. Ég vissi það alveg annars hefði ég ekki sagt þetta. Hún viðurkenndi þetta sem ég var ánægð með,“ sagði Dagný í viðtalsbrotinu sem sjá má hér fyrir neðan.
Upp komast svik um síðir! Amandine Henry hin franska viðurkennir að hafa dýft sér gegn Íslandi á EM í sumar. https://t.co/oeEMgnH6pHpic.twitter.com/hlL92GaOdK
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) October 18, 2017
„Við ræddum leikinn þegar við hittumst aftur og föðmuðumst þá og þökkuðum hvorri annarri fyrir leikinn. Þetta sat í manni á meðan á EM stóð en svo kom ég út og hitti hana og þá er þetta bara búið. Svona er fótboltaleikurinn,“ sagði Dagný í viðtalinu við Þorkel Gunnar sem má sjá allt hér.
Íslenska kvennalandsliðið er nú statt út í Þýskalandi þar sem liðið mætir Þýskalandi í undankeppni HM á morgun.