Tjaldið fellur: Konur úr sviðslistum og kvikmyndagerð segja frá ofbeldi og kynferðislegri áreitni Birgir Olgeirsson og Tryggvi Páll Tryggvason skrifa 27. nóvember 2017 20:01 548 konur hafa deilt reynslusögum af kynferðisofbeldi, áreitni og mismunum innan leiklistarstéttarinnar á Íslandi. Konur sem starfa eða hafa starfað innan sviðslista og kvikmyndagerðar á Íslandi hafa á síðustu dögum deilt nafnlausum reynslusögum um kynferðisofbeldi, áreitni og mismunun innan stéttarinnar á lokuðum Facebook-hóp. RÚV greinir frá. Hafa þær gert 62 sögur opinberar sent fjölmiðlum undir yfirskriftinni: Tjaldið fellur. Fylgja þær fordæmi íslenskra stjórnmálakvenna sem í síðustu viku stigu fram og greindu frá kynferðisofbeldi, áreitni og mismunun á sama hátt. Alls skrifa 548 konur innan stéttarinnar undir yfirlýsingu þar sem segir að konur í þessum bransa séu „í raun mjög berskjaldaðar, bæði vegna smæðar samfélagsins og hversu fá tækifæri er um að ræða, og líka vegna frægðar og áhrifa gerendanna sem gerir þeim mjög erfitt um vik og þaggar ennfremur niður í þeim.“ Konur séu oft miklum minnihluta á tökustað og „þurfa þá að þola mjög karllægt andrúmsloft með miklu áreiti, bæði munnlegu og líkamlegu, og jafnvel gerðar kröfur til þeirra um að vera kynferðislega aðgengilegar fyrir stjörnuna eða stjörnuleikstjórann.“ Krefjast konurnar sem skrifa undir að þær fái að vinna vinnu sína án áreitni, ofbeldis eða mismunar. Þá krefjast þær að yfirvöld, leikhús og framleiðsufyrirtæki taki af festu á málinu og komi sér upp viðbragðsáætlun og verkferlum. Hér má sjá þær konur sem hafa skrifað undir þessa áskorun um að karlkyns samverkamenn þeirra taki ábyrgð; að yfirvöld, leikhús og framleiðslufyrirtæki taki af festu á málinu og komi sér upp verkferlum og viðbragðsáætlun. Hér fyrir neðan má lesa sögurnar sem hafa verið sendar fjölmiðlum. FRÁSAGNIR KVENNA Í SVIÐSLISTUM 1. Einu sinni þegar ég var leikkona í sýningu greip einn sviðsmaðurinn í píkuna á mér þegar ég var rétt að stíga á svið í stórt atriði þar sem ég var aðal. Ég tilkynnti þetta og hann bað mig afsökunar en það sem sjokkeraði mig mest og situr mikið í mér eru viðbrögð stjórnenda. Ég var spurð hvað ég vildi eiginlega að gert yrði í málinu, eins og það væri á mína ábyrgð. Ég spurði hvort það væru ekki til einhverjir verkferlar? Þá var mér sagt að viðkomandi yrði tekinn úr sýningunni „fyrir mig”. Ábyrgðin öll á mér semsagt. Þegar ég og stjórnandinn vorum búin að tala saman og ég var að kveðja, þá fannst mér eins og hann væri að opna faðminn, sem mér fannst undarlegt en ókei… svo ég faðmaði hann. Þá sagði hann (á meðan ég var í fanginu á honum) “er þetta kannski óviðeigandi?”. 2. Karlkyns leikstjórinn grínast með að ég sé lauslát drusla fyrir framan allan leikhópinn og kallar mig almannagjá, þótt ég sé í föstu sambandi og að kærastinn minn sé hluti af leikhópnum. Enginn þorir að gera annað en að hlæja með djókinu. Kærastinn minn líka. Mig langar að hverfa ofan í gólfið. Fannst ég algerlega svipt sjálfsvirðingunni fyrir framan vinnufélagana. 3. Ég var 14 ára þegar ég lék í minni fyrstu kvikmynd, og ég lék stelpu á aldrinum 12-17 ára í myndinni. Ég var fullorðinsleg eftir aldri án búnings. Nokkrir í crewinu voru alveg með það á heilanum hvort ég væri hrein mey eða ekki. Og það er ekki fyrr en núna að ég skil hvað þetta var lasið - ég í alvöru leit á þetta sem jákvæða athygli, að kannski þætti þeim ég sæt. 4. Ég var að leika í sýningu og varð hrifin af ljósamanninum. Við byrjuðum að hittast og ég vildi fara rólega og bíða með kynlíf þangað til við þekktumst betur. Kvöld eitt missti hann þolinmæðina og nauðgaði mér. Ég mætti ósofin og í áfalli á æfingu daginn eftir. Ég skalf og titraði við tilhugsunina um að hann vofði hátt yfir höfðinu á mér, að elta mig með eltiljósi. Mér fannst ég fangelsuð. Í hádeginu gat ég ekkert borðað, og þá sagði aðalleikarinn hátt og hæðnislega yfir borðið, svo allir heyrðu: Æ æ, mölvaði ljósamaðurinn í þér hjartað? Svo fór hann að hlæja. 5. Ég er við tökur á íslenskri sjónvarpsþáttaröð, er í litlu hlutverki en samt með nokkrar línur. Einn af aðalleikurunum byrjar að reyna við mig. Ég hef ekki áhuga á honum en reyni samt að vera kurteis og “næs”, til að skemma ekki móralinn í tökum. Þegar ég fer út í bíl eftir að tökurnar eru búnar sé ég að hann er búinn að senda mér sms. Með mynd af typpinu á sér. 6. Ég var í litlu hlutverki í söngleik. Í frumsýningar partíinu var ég inni á kvennaklósetti að þvo mér hendurnar þegar hurðinni á einum klefanum er allt í einu hrundið upp og einn af stjórnendum sýningarinnar birtist sauðdrukkinn, grípur í mig og dregur mig inn, lokar og fer að kyssa mig og snerta. Maður sem ég bar virðingu fyrir og fannst sjarmerandi en hann er giftur og og ég sagði honum sem var að það er turn off fyrir mig, eins og reyndar bæði fylleríið og kvennaklósettið. Hann hélt áfram að nauða í mér þangað til ég reif mig lausa og hljóp út. Nokkrum dögum seinna komu upp veikindi hjá leikkonu í aðalhlutverki og ég hefði getað hlaupið í skarðið. Ég mannaði mig upp og fór og ræddi um það við hann og það voru mjög einföld samskipti: hann gerði mér alveg ljóst að ég myndi ekki fá vinnu í verkefni hjá honum aftur. Og það hefur staðist. 7. “Þú verður að passa þig að verða ekki aftur feit, það þykir ekki flott í þessum bransa að vera feit.” 8. Eitt fyrsta djobbið mitt í bransanum var við gerð bíómyndar, þetta var fjölþjóðleg framleiðsla og í aðalhlutverki var rísandi Hollywood stjarna með egó í samræmi við það. Eitt kvöldið bað yfirmaður minn mig að sækja eitthvað á sitt heimili sem leikarann vantaði og ég gerði það, það var vinnan mín. Svo kem ég aftur á hótelið þar sem allt crewið var, leikarar, leikstjóri og læt leikarann hafa þetta sem ég man ekki hvað var. Þá króar hann mig af úti í horni, þakkar mér fyrir eins og ég hafi verið að gera honum persónulegan greiða en ekki vinna vinnuna mína og grípur um mig og kyssir mig rembingskossi og reynir að troða tungunni upp í mig. Ég náði að slíta mig lausa og leikarinn fór og klagaði mig í yfirmann minn. 9. Á barnum eftir tökur á fyrsta verkefninu sem ég framleiddi. “Þú veist að X réði þig bara vegna þess að hann vill komast í nærbuxurnar hjá þér.” 10. Ég er eiginlega orðlaus, veit og man að það var margt sagt og klipið og kreist en hún sem ég var þá ákvað hún að láta sem ekkert væri og að það væri eðlilegasti hlutur í heimi þegar einhver kæmi til að setjast í stólinn (smink) gripi um bæði brjóstin á mér, eða segði eitthvað óviðeigandi um líkama minn og eða hvort ég hefði fengið það nýlega. Ég þá ákvað að vera gæs, þið vitið eins og að skvetta vatni á gæs, smám saman hætti ég að taka eftir þessu sem er auðvitað alls ekki í lagi. Takk fyrir að minna mig á að þetta var og er ekki í lagi. Minni í leiðinni á að við verðum að passa syni okkar svo þeir detti ekki í þessa gryfju kvenfyrirlitningar. #höfumhátt #metoo 11. Hér er ein saga sem flokkast kannski ekki undir kynferðislega áreitni heldur viðhorf sem sumir framleiðendur virðast hafa til leikkvenna. Hollywood-mynd, heimsfrægur leikari að leikstýra sjálfum sér. Íslenskur framleiðandi hefur samband og býður mér vinnu á setti. Ég mæti í viðtal og hitti þar kvenkyns meðlim úr framleiðslu teyminu. Þar var mér sagt að starfið fælist í að passa monitor leikstjórans. Standa hjá honum og passa monitorinn. Ég afþakkaði þar sem ég taldi tíma mínum betur varið. Skömmu síðar fæ ég símtal frá sama framleiðanda sem er þá staddur í þyrlu með fyrrnefndum leikstjóra. Framleiðandinn býður mér í partý um kvöldið og segir mér að taka tvær vinkonur mínar með. Hann réttir leikstjóranum símann og ég spjalla stuttlega við hann. Ég segist ætla að hugsa málið. Framleiðandinn hringir nokkrum sinnum aftur, segir að þetta gæti nú greitt götur mínar í Hollywood. Þá segi ég honum að ég skuli nú mæta, með kærastanum mínum. Hann segir mér að það gangi ekki upp. Ég afþakka því gott boð og heyri svo af því að önnur leikkona hafi þegið þetta fína boð. Can't make this shit up, allavega ekki þetta með monitorinn og þyrluna. Mér var ekki ofboðið heldur fannst mér þetta fyndið og absúrd en á heldur lágu plani. Og ég fíla alveg þennan framleiðanda. 12. Hversu hræðilegt er það að þurfa að telja sig heppna að hafa aldrei orðið fyrir kynferðislegu áreiti eða þaðan af verra! En síðustu vikur hef ég áttað mig á að ég er greinilega heppin að hafa sloppið. Hræðilegt að heyra allar þessar sögur og óskiljanlegt hvernig mannfólk leyfir sér að haga sér gagnvart öðrum. Algjört virðingarleysi fyrir tilfinningum og líkama annara er greinilega algengt á litla “saklausa” Íslandi! Ég er fegin að þessi bylting og vitundarvakning sé í gangi svo að dóttir mín læri að engin/n hefur rétt á að fara inn fyrir þau mörk sem hún setur! #metoo 13. Ég var mjög ung þegar ég ákvað að þetta væri minn framtíðar starfsvettvangur og lagði mikinn metnað í mína leiklist. Þegar ég var 15 ára var ungur leikari sem ég kannaðist ágætalega við að leysa af frábæra leiklistarkennarann minn, konu sem ég treysti afar vel. Í eitt skipti eftir leiklistartíma fékk ég far hjá honum heim, ég man ekki hvernig það kom til samt. Hann spurði mig hvort ég ætti kærasta. Ég sagði nei og fannst spurningin óþægileg frá fullorðnum manni sem ég þekkti ekki mikið. Hann sagðist hafa haldið það þar sem ég væri svo fullorðinsleg. Svo lýsti hann því hvað strákar ættu eftir að verða sjúkir í mig og væru það örugglega nú þegar af því ég væri svo ,,þroskuð” og ,,alvarleg” og ,,erfið” og væri ,,playing hard to get”. Það skiptir auðvitað engu máli en gerir aðstæður mögulega verri að þegar ég var 15 ára leit ég úti fyrir að vera max 12. 14. Þetta er ekki saga sem gerist þar sem ég er starfandi leikkona. En valdamisbeitingin þar sem ég var verðandi leikkona og hinir leikarar segir mér að hún eigi heima hér. Svo er ég líka handviss um að þetta séu þrjú andlit sem aðrir hafa verið að tala um og allir vita af. Þetta er saga sem hefði getað endað illa. Ég var unglingur að passa hjá þjóðþekktum leikara sem ég hafði kynnst þegar við lékum í ólíkum verkefnum í sama húsi, ég treysti honum og leit upp til hans. Hann hafði oft gefið mér góð ráð hvað varðaði leiklistina og gaukað að mér hugmyndum að efni fyrir leiklistarskóla prufurnar. Eitt kvöldið kom hann heim og tveir kollegar hans með honum, allir mjög drukknir. Ég, að vanda, hóf að pakka saman tölvunni minni og skóladótinu. Einn þeirra spurði þá ,,Hva, þarftu að fara strax?” Ég sagðist þurfa að vakna snemma í skólann daginn eftir og að ég ætlaði bara að drífa mig. Á meðan ég pakkaði saman fylgdust þeir allir með mér, löbbuðu á eftir mér og suðuðu um að ég myndi stoppa lengur, nóttin væri nú ung. Ég held það hafi orðið mér til happs hvað þeir voru drukknir og því svifaseinir og ég var farin áður en þeir gátu tekið hlutina lengra. En ég hef aldrei andað léttar en þegar ég komst út úr húsinu og út í bíl. Þar sat ég svo í dágóða stund og reyndi að gera upp við mig hvort ég þorði aftur inn að sækja krakkana, ég treysti þeim ekki til að hugsa um þau. 15. “Ætlið þið að láta einu konuna á setti starta keðjusöginni?” sagði maðurinn í propsdeildinni. Ég var í frábæru crew'i sem samanstóð einungis af körlum fyrir utan leikkonur og sminkur sem voru samt ekki hluti af day to day operations. Við vorum basically fjögur eða fimm, leikstjóri, handritshöfundur og leikari og tökumaður. Algjört dream team þar sem mikil virðing réði ríkjum. Svo þurftum við að nota keðjusög en hún stóð á sér. Hafandi unnið í garðyrkju frá 14 ára aldri og meðhöndlað alls kyns tryllitæki þá bauð ég mig fram til að skoða málið. Enginn kommentaði á það og ég fann að mér fannst æði að þetta væri loksins orðið að sjálfsögðum hlut. Að ég konan stæði þarna og athugaði með innsogið á vélinni í friði. En svo kom propsarinn/leikmyndahönnuðurinn, gamall (og virtur) maður og eyðilagði allt. Ég kýldi hann í öxlina. 16. Þegar ég byrjaði að vinna í kvikmyndum var mér bókstaflega hent út í djúpu laugina með því að gerast aðstoðarleikstjóri hjá gamalreyndum leikstjóra sem hafði orð á sér fyrir að manupulera og niðurlægja fólk af báðum kynjum. Ég fékk oft athugasemdir frá karlkyns starfsfélögum sem höfðu áhyggjur af því að hann myndi algerlega brjóta mig niður vegna þess að ég væri ung og reynslulítil kona. Ég hef oft hugsað um það- en þessi leikstjóri kom í raun fram við mig af miklu meiri virðingu en þessir samstarfsmenn sem gerðu ráð fyrir að ég myndi brotna vegna þessa leikstjóra. Þeir treystu mér ekki vegna þess að ég var stelpa. En það breytir því ekki að ég - í styrkleika mínum og því að standa mig vel - tók þátt í því að hjálpa þessum leikstjóra við að ná fram vilja sínum- og niðurlægja og fara yfir mörk annarra. Ég vann með honum í fleiri verkefnum- og gagnrýndi oftar sem á leið og setti spurningamerki við aðferðir hans. Hann hætti þá allt í einu að muna hvað ég hét og kallaði mig ýmist “X” eða “hvað þú nú heitir aftur”. Þetta notaði hann óspart á fólk til að setja það niður. Fyrsta verkefni mitt með honum að aðstoða við ljósmyndaverkefni fyrir tískutímarit sem átti að sýna ungar stelpur á leið í sund. Sixtís stemmning. Ég átti að finna módel - en ljósmyndarinn var með nokkrar þegar valdar og bæði hann og leikstjórinn vildu hafa þær yngri og yngri og yngri. Hreinar meyjar. Lofað var að ekkert ætti að sýna. Ljósmyndarinn var líka hugmyndasmiður og mér varð flökurt þegar þeir félagarnir göntuðust með verkefnið- og hvað mætti og mætti ekki. Mitt hlutverk var að fá stelpurnar til að treysta þessu verkefni og stjórna framkvæmdinni. Þegar á hólminn var komið vildi leikstjórinn að þær sýndu meira. Og olli þeim vanlíðan og óöryggi. Ég reyndi að stoppa hann en hann var í ham. Sminkan, búningamanneskjan reyndu líka að stoppa hann. Ljósmyndarinn tók þátt í þessu með leikstjóranum. Seinna komu upp deilur milli ljósmyndarans og leikstjórans um réttindamál varðandi hugmyndina - og ég var kölluð í réttarsal til að bera vitni. Þá kom í ljós að ljósmyndarinn var orðinn sjálfskipaður vörður stelpnanna- sem höfðu upplifað sig áreittar. Seinna hitti ég þá þar sem þeir voru orðnir bestu vinir aftur - saman hlæjandi á kennderíi. Ég hef svo oft hugsað um þetta - hvað maður var magnvana í þessum aðstæðum og hvers vegna ég tók yfirhöfuð þátt í þessu verkefni. Jú, leikstjórinn setti þetta upp sem próf fyrir mig í hvort ég hefði nógu sterk bein til að vinna með honum í komandi stóru kvikmyndaverkefni. Ég hugsa mjög oft til stelpnanna sem nú eru fullorðnar konur og hvernig þær hafa unnið úr þessu. Hvort það sé mitt að biðjast fyrirgefningar. Mig langar það- en er ég þá ekki að taka að mér skömmina? Hvar liggur ábyrgðin? Hver á að bera skömmina? Eina þessara kvenna hef ég hitt og við ræddum þetta og hún upplifði þetta sannarlega sem grófa áreitni og það var erfitt yfir hana að vinna úr þessari upplifun. 17. Þegar ég var 21 árs lenti ég á spjalli við frægan leikara sem er rúmlega 20 árum eldri en ég. Á þessum tíma var hann að vinna fyrir pabba minn. Ég rakst á hann á bar og á skömmum tíma fór hann að reyna að fá mig með sér á skrifstofu út í bæ til að stunda kynlíf, ég skil ekki alveg hvers vegna samtalið fór á þessa braut þar sem ég leit á þennan mann sem vinnufélaga pabba míns. Ég afþakkaði ósmekklegt boðið og þá gargaði hann á mig að það væri fullt af smápíkum sem biðu í röðum eftir honum. Ég pældi stundum í því hvernig það væri að vera kona og leika á móti honum því svona atvik eru oftast ekkert einsdæmi fyrir svona týpur. 18. Mér finnst þetta erfitt. Treysti mér ekki enn til þess að deila því alvarlegasta en hér kemur ein lítil til að byrja á. Líklegast kynferðislegt áreiti en má líka taka til greina að ég var bara 16-17 ára. Ég var 16 ára að leika í barnasýningu í Þjóðleikhúsinu þegar ég fór að fá persónuleg skilaboð frá leikara (c.a. 20 árum eldri en ég) sem innihéldu spurningar á borð við “hvað ég væri að gera?” “Að hann væri í baði að hugsa til mín” og “hvort kærastinn minn kynni ekki örugglega að vera góður við mig”. Fékk líka að heyra að við værum svo sexí í búningunum okkar og fleira. Ég lét engan sem skipti máli vita af þessu. #meetoo 19. Veturinn 2010 var ég að aðstoða bekkjarsystur mína við tökur á stuttmynd eftir hana. Ég var á setti alla tökudagana, aðstoðaði við catering og lék í einni senu. Sú sena var þess eðlis að ég lék móður sem grét við leiði sonar síns. Ég gaf mig alla í senuna, you name it það var tilfiningaundirbúningur aldarinnar fyrir þessa litlu senu! Leikstjóri myndarinar var einn þekktasti leikari landsins, svokallað óskabarn þjóðarinnar. Bekkjasystir mín skrifaði og lék aðalhlutverkið í stuttmyndinni og var mótleikari hennar annar mjög þekktur leikari. Ég talaði lítið við mótleikara bekkjarsystur minnar. Ég var mjög feimin við hann og leikstjórann og lét lítið fyrir mér fara. Í eitt skipti missti bekkjarsystir mín stjórn á skapi sínu og lét mig heyra það fyrir framan crewið. Hún átti erfitt með að sjá eitthvað og ég var fyrir. Þótti mótleikara hennar þetta hinn argasti dónaskapur og bað hann hana vinsamlegast um að koma ekki svona fram við mig. Ég þakkaði honum fyrir þetta og voru samskipti okkar ekki meiri í tökunum. Eftir þetta var ég viss um að hann væri ágætis manneskja. Nokkrum dögum eftir að tökum lauk addaði hann mér á fb. Ég var mjög hissa en samþykkti vinabeiðnina. Sama kvöld hringdi hann í mig, sem hann átti eftir að gera næstu kvöld í þeim tilgangi að klæmast við mig. Ég þorði ekki að vera dónaleg við hann, hann var nú frægur leikari og gæti tekið ferilinn minn í bakaríið…. Hann sagði við mig hluti eins og ,,ég tek eftir því að á myndinni frá 2009 á fb ertu með miklu stærri brjóst en núna. Af hverju er það?‘‘ sem og að tjá mér um það að hann vildi panta fyrir mig leigubíl svo að við gætum sofið saman. Hann kom með grófar lýsingar á því hvernig hann ætlaði að fullnægja mér og sagði í sífellu að hann sæi það alveg að ég væri mikið fyrir kynlíf. Ég bjó til allar afsakanir í bókinni þar sem ég þorði ekki að neita honum blákalt. Eina nótt rétt fyrir jól vaknaði ég við símhringingu frá honum þar sem hann sagði mér að hann væri að fara að senda leigubíl eftir mér. Hann hætti ekki að suða fyrr enn ég náði að koma honum í skilning um það að ég væri ekki að fara að skilja dóttur mína eina heima um miðja nótt. Þá loks komst hann loks í skilning um að ég hefði ekki áhuga á því að sofa hjá honum og voru símhringingarnar ekki fleiri eftir það. 20. Ég hef verið heppin og tekist að halda ýmsu frá mér, meira af glópaláni en kænsku, en öll þessi umræða hefur fengið mig til að hugsa um eitt og annað atvik frá unglingsárunum sem ekki olli sárum á sálinni en var samt, eftir á að hyggja bara alls ekki í lagi. Stundum er maður bara svo hissa á því sem aðrir virðast líta á sem sjálfsagða hegðun að maður veit varla hvað maður á að hugsa. Að því sögðu er ég þó svo óendanlega þakklát yfir því að þetta átak fer nú í gegnum alla þjóðfélagshópa (er í nettu áfalli yfir því sem konur segja hér inni og ekki síst þingkonurnar, nógu erfitt og vanþakklátt starf er það nú). Ef hugarfarið er virkilega svona hjá þessum meirihluta karla þá þarf að uppræta það og endurmennta í anda kínversku menningarbyltingarinnar (nei kannski ekki alveg ;) ) Ég sjálf sigldi og sigli enn blessunarlega örugg í gegnum atvinnumennsku á sviði í tónlist aðallega. EN, þegar farið var yfir mín mörk, sem gestsöngvara á fyrsta ári í húsi sem var valið besta óperuhús Þýskaland í mörg ár í röð, þá sagði ég frá því. Atvikin voru í sjálfu sér saklaus, en þetta var heit sena í upphafi Rigoletto, flett af mér kjólnum og allt það, í mjög fínu korsetti undir, ekkert mál. Mjög glæsileg sena út af fyrir sig. En í lokin á mótsöngvarinn að þrífa mig til sín og kyssa mig á hálsinn, svona bakvið eyrað bara. Hann var með ámálað skegg og eftir hverja sýningu var það komið á nýjan stað, niður á brjóst og kinn og leitaði á munn. Ég sagði honum á endanum í miðri senu að ef hann hætti þessu ekki myndi ég slá hann utanundir. Þegar samningum lauk fór ég upp á skrifstofu, sagðist ekki vilja að neitt yrði gert, en ef aðrar kvartanir bærust þá væri gott að hafa minn vitnsiburð. Auðvitað var svo söngkona í öðru hlutverki komin með hendur hans upp eftir pilsinu og tunguna ofan í kok nokkru síðar og þá var hægt að gera eitthvað í málunum og það var gert. 21. Ég var að leika í íslenskri bíómynd úti á landi. Ég fór á þeim forsendum að þetta væri sena þar sem ég væri “stelpa á bar” sem aðalleikarinn (kk) átti að flörta við mig og aðra stelpu og senan átti svo að enda uppi á hótelherbergi hjá honum. Það stóð ekkert um neitt kynferðislegt nema það að ég átti að byrja að klæða mig úr fötunum og svo átti bara að cutta. En þegar við vorum komin upp á hótelherbergið, stakk aðalleikarinn uppá því að við værum með alvöru kampavín í senunni og leikstjórinn sagði bara já, og crewið (sem er fólk sem er búið að vinna í bransanum lengi) stoppaði þetta ekki. Ég drekk ekki þannig ég fékk mér ekkert en leikarinn og stelpan sem var með okkur voru orðin full. Mér leið eins og ég væri að leika í klámmynd. Þetta fór frá því að vera sena þar sem við áttum að byrja að klæða okkur úr fötunum, yfir í það að vera sena þar sem við vorum í sleik við þennan mann (sem lyktaði eins og spíri) og senan var orðin að kynlífsenu sem var ekki einusinni leikin. Ég var svo varnarlaus, þar sem leikstjórinn (kk) samþykkti þetta allt. Ég vildi ekki vera stelpan sem öskraði stopp því ég hélt að þetta væri kannski bara eðlilegt. Ég sá samt nokkrum dögum seinna þegar ég talaði við foreldra mína að það er ekkert eðlilegt við þetta. 22. „Ég ræð aldrei stelpur. Þær fara alltaf að grenja“ sagði fyrrverandi kennari minn úr Kvikmyndaskólanum við mig þegar ég var 25 ára, nýútskrifuð að sækja um vinnu. Mig langar bara ađ segja það hér að eftir ad hafa lesið allt hér fór ég ad rifja upp atburði sem hentu mig þar sem 3 leikarar komu vid sögu á einn eða annan hátt, saga af áreitni, valdbeitingu og útskúfun. Ég fylltist fyrst kjarki en svo lamandi ótta eftir að hafa skrifađ söguna því ég óttaðist ađ hún yrði rakin til mín, og ég óttaðist að styggja vinsælu strákana. Að ég myndi upplifa meira diss og skömm fyrir ađ segja frá. Ég hætti viđ ađ deila. Ótti eins og minn er ástæðan fyrir því ađ þetta hefur viðgengist allt of lengi. Kjarkur eins og ykkar er hinsvegar ástæðan fyrir að ég þarf ekki að óttast mikið lengur. 23. Leikhús. Generalprufa. Ég er enn í búning og þýðandi sýningar kemur til mín, faðmar mig, hrósar mér hversu vel ég hafi staðið mig og fari fallega með texta. Segir mér svo hversu falleg ég sé. Endar á að halda við hnakkann á mér og troða tungunni á sér upp í mig og taka þar nokkra hringi áður en ég get ýtt honum frá mér. Ég segi engum í uppsetningunni frá. Nokkrum árum seinna minnist ég á þetta við samleikkonu og þá segir hún: Ó, gerði hann þetta líka við þig? Við hlæjum að þessu þá. Í dag vildi ég óska að ég hefði heyrt í „litlu Mér“ innra með mér sem sagði mér að öskra á manninn: „Stopp! Hættu þessu! Þetta er rangt!“ En ég „stóra Ég“ var að reyna að vera fullorðin eins og mér hafði verið kennt; halda kjafti og vera sæt. Takk elsku ungu hugrökku stelpur fyrir að hafa haft hátt og hjálpað mér þannig að leyfa kjarna mínum að tala. 24. Það sem ég tel mig heppna að hafa “bara” lent í kynferðislegu áreiti innan bransans, aldrei ofbeldi. Ég virðist vera ein af fáum sem er einhverskonar brengluð undartekning frá ofbeldi. Ein saga, sem mig rámar í að hafað heyrt oftar en einu sinni, situr sérstaklega föst í mér: Leikstjóri leikstýrir senu sem gerist inní svefnherbergi, uppi í rúmi. Tvær stelpur eru naktar/hálfnaktar í rúminu að fara með einhvern díalóg og leikstjórinn, sem er karlmaður, ákveður að afklæða sig sjálfur og vippa sér uppí til þeirra. Þetta var skólaverkefni og stingur það mig að einhversstaðar lærist þessi hegðun, ekki endilega frá kennara en mögulega úr kennsluefni. (stelpur, ef þið eruð hér inni, endalaus styrkur og ást ❤) Ein minning frá mínum eigin skólaárum situr einnig fast í mér því hún var eiginlega upphafið af því að èg skynjaði valdastöður í bransanum; ég var kona og ekkert meir: Kennari að kenna bekknum einhver basic handritaskrif og framleiðslutrikk og endar á að segja “svo selja brjóst. Alltaf skrifa inn brjóst.” 25. Ég ætla að leyfa mér að láta flakka eina sögu. Ég var í löngu tökuferli sem krafðist þess að við vorum lengi að heiman. Við gistum öll saman á hóteli eins og gerist svo oft. Einn daginn er einn af aðalleikurunum (kk) með óvenju mikið smink sem svo þurfti að þvo af fyrir næstu senu. En það var svo heppilegt að við vorum að skjóta nánast í innkeyrslu hótelsins og þar aðauki að bíða eftir sólsetri svo ég hafði nægan tíma. Svo ég ákvað að senda hann bara inn á sitt herbergi í sturtu. Sömuleiðis tók hann búninginn sinn með sem hann átti að fara í og koma svo til mín í rútuna að fá nýtt smink. En svo mætir hann ekki, svo ég fæ upplýsingar um að hann vilji að ég komi og græji hann uppá herbergi. Kanski ágætt að bæta við að þessi ágæti maður var búinn að vera frekar mislyndur allt ferlið og fljótur að láta það bitna á mér og búningum ef illa stóð á honum. Svo ég var alveg sannfærð um að hann væri í vandræðum með að ná af sér sminkinu og ég bjó mig því undir að hann tæki trylling á mig. Með það í huga bað ég aðstoðarleikstjórann að koma með mér og gaf líka í skyn að mér þætti frekar skrítið að fara upp á herbergi til fólks ef ég hefði fullbúna aðstöðu tilbúna fyrir utan. Þegar upp kom var kappinn ekki í búning eða í neinum vandræðum með sminkið. Hann var aftur á móti á nærbuxunum einum klæða, búinn að dimma ljósin, draga fyrir og kveikja á tónlist. ...varð svo augljóslega mjög vandræðalegur þegar hann sá aðstoðarleikstjórann. Fyrst hljó ég að þessu og reyndi að dusta af mér. En mikið djöfull fannst mér brotið á mér jafnvel þótt ekkert hafi gerst. Það sem eftir var af tökutímabilinu “feikaði” ég mig hressa í kringum hann og þurfti augljóslega að halda áfram að vera svo gott sem ofan í honum, svona einsog starf sminku er. Sömuleiðis að passa alltaf a halda öllum hressum. Ég hef líka upplifað franskan leikstjóra sem ég þurfti að flýa á setti (og gat þarafleiðandi ekki sinnt starfi mínu almennilega) vegna þess hversu óviðeigandi hann var í orðum og þukli. Ég hef líka fengið að heyra að ég sé crew hóra ...og það frá manni sem ég var að hitta. Þetta eru bara pínu brot úr bransanum. Ég upplifði alvarleg brot sem barn og unglingur sem gerir mig kanski viðkvæmari, ég veit það ekki. 26. Ég var átján ára í inntökuprófi leiklistarskólans og komin í 16 manna úrtakið, rosalega glöð og stolt yfir að vera komin svona langt. Ég er sett í setningaspuna með einum af strákunum sem var mun eldri en ég, og er í dag mikilsvirtur í bransanum. Við fengum tíma til að undirbúa okkur svo við setjum senuna og æfðum þetta í einhver skipti. Svo þegar á hólminn er komið, sýnum við. Nema að hann breytir öllu og gerist klámfenginn og káfar á mér og kyssir mig. Mér fannst þetta ógeðslegt og hálf fraus en stoppaði þetta ekki og sagði ekki frá, “varð” að halda andliti því þetta voru jú inntökuprófin og kannski væri ég bara tepra og fengi bágt fyrir að kjafta frá. Ég fór alveg í rusl við þetta. Hann komst auðvitað inn í skólann en ekki ég. 27. Ég verð að viðurkenna það að mér hefur fundist ofboðslega erfitt að vera ung kona. Kannski er ég bara voðalega áhrifagjörn og verri í að fylgja eigin sannfæringu en ég vildi trúa. Þetta er ekki bein áreitni en ég vildi bara aðeins tala um upplifun mína að því að vera ung kona í bransanum af því ég hef haft gott af því að heyra frá öðrum. Ég man á mínu fyrsta leiklistarnámskeiði í LAMDA áður en BA námið mitt byrjaði þá ödduðum við krakkarnir hvor öðru á facebook til að geta hist og hangið saman í kringum tíma. Svo mæti ég næsta dag og þá voru krakkarnir að tala um myndir úr myndatökum sem ég hafði gert á síðunni minni og meintu voða vel, en það var fyrir framan kennarann. Svo byrjar tímann og við erum að gera einhverjar hryggæfingar og þá aðar kennarinn upp að mér og hreytir út úr sér að ef ég hætti ekki þessu presentationalism þá verði aldrei neitt varið í mig sem leikkonu. Ég skildi ekkert hvaðan þetta kom því ég var bara að einbeita mér að mænunni minni, en mér brá svo við þetta og ofboðslega áhrifagjörn 18 ára ég sem var nú mætt í minn fyrsta tíma að reyna að verða góð í því sem ég vildi vera góð í, grafalvarleg að vera nú tekin alvara, kaupi ég bara laus föt fyrir námið, hætti að mála mig, borða meira en ég vil svo ég virðist ekki eitthvað fyrirsætuleg og tek bara að mér KK hlutverk í hvert sinn sem við megum velja eigin persónur. Samt koma samnemendur upp að mér og segja við mig “Allt sem þú gerir er svo kynferðislegt. Röddin þín, hreyfingar, það skiptir ekki máli hvað þú tekur að þér, allt verður um kynlíf!” Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið og þetta hefur gert mig svo meðvitaða og látið mér líða voðalega fangelsuð út af því hvernig konur eru túlkaðar og skynjaðar á sviði. Einnig margir kennarar sem hafa haft mjög neikvæð áhrif, allt of mikið af einmitt þessum hræðsluaðferðum sem herpir leikarann, og túlkar allt sem stelpurnar gera á sviði sem kynferðislegt eða boring, sofa hjá nemendum í ofanábót. Þannig hér var ég að reyna að sanna fyrir einhverjum kennurum og samnemendum að ég væri alvöru leikkona með því að reyna að hafna eigin rödd og líkama út af endalausum kommentum, en svo útskrifast maður inn í heim typecasting þar sem einu hlutverkin fyrir ungar konur eru sæta stelpan, krúttlega stelpan og kynbomban, og ef maður vill leika og hafa umboðsmann verður maður að fylgja reglunum. Helmingurinn af prufunum sem ég mæti í þó ég hafni mörgu er ég beðin um að vera meira sexí töku frá töku, eða prufan er óvænt stefnumót og varla rætt um verkefnið, eða meðleikarar grípa í píkuna í eftirpartíinu sekúndum eftir að þeir voru að segja þér frá brúðkaupsundirbúningnum þeirra. Ég get svo svarið það, ef það væri ekki fyrir listakonur sem ég dáist að og oft heppin að vinna með að skapa sér sín eigin tækifæri væri ég orðin geðbiluð. 28. Ég hef lent í því hjá tveimur kollegum mínum að þeir vildu ríða mér að mér forspurðri. Skiptin voru þrjú. Fyrsta sinni var það þegar ég vann sem skrifta hjá sjónvarpinu undir stjórn annars þeirra og var það á fyrsta vinnudegi mínum í vinnunni, og farið var norður á land. Hann var þó svo fullur að ég gat varist. Svo var einnig um seinna skiptið. Síðan fór sá að býsnast um að biðja ætti JBH afsökunar, hér á bókinni, þá minnti ég hann á að hann sjálfur hefði aldrei beðið mig afsökunar. Hann setti mig á blokk, eins og hann hefur gert við flesta aðra. Síðan er það annar kollegi sem óð inn á herbergið mitt á hóteli árið 2000, augafullur og ég sjálf vel við skál. Hann linnti ekki látum þótt ég berðist á móti og sagði illskufullt glaðhlakkandi þegar hann kom typpinu inn í píkuna: „Nú er ég búin að ríða þér“. En ég hélt áfram að berjast á móti og að endingu hætti hann. Þá lét hann út úr sér setningu sem mér fannst meinfyndin: „Af hverju læturðu svona? Þær standa í röðum í Reykjavík til að fá að sjúga hann á mér“. Honum til afbötunar hló hann við sjálfur þegar ég benti honum á hvað hann léti út úr sér. Þessi náungi baðst aldrei afsökunar og er enn reiður út í mig. 29. Mig langar til að koma hér að einni sögu sem varðar launamál okkar kvenna. Í þeim efnum þurfa kvenlistamenn að vera á varðbergi ekki síður en konur í öðrum starfsstéttum. Venjan er nefnilega sú eða allavegana þykir það nokkuð eðlilegt í því karlaþjóðfélagi sem við lifum í að körlum finnist þeir hafi tilkall til hærri launa og fríðinda en kvenmenn,- fyrir sömu störf. Það heitir ofbeldi þegar misbeiting valds er viðhaft, á hvorn veginn sem er. Þegar misnotkun valdaójafnvægis er viðhaft og nýtt sér í hag heitir það ofbeldi, andlegt ofbeldi. Að strákar hygli að strákum, karlar hygla að körlum þarf að benda á og tala um, HÁTT! Jæja, stutt dæmisaga. Ég taldi mig alltaf afskaplega heppna að starfa innan stéttar þar sem sömu laun voru fyrir sömu vinnu, innan leikhúsanna. Þar var viðhöfð sú regla að sýningarlaun fóru eftir stærð hlutverks. Stórt, meðal eða lítið hlutverk og laun eftir því. Ekki var teljandi munur á milli en þó nokkur. Þessi regla þótti eðlieg og sjálfsögð innan stofnana og í leikhópum áður fyrr. Svo var eitt sinn að ég var beðin um að taka að mér tvö meðalstór-stór hlutverk í sýningu þar sem strákahópur hafði tekið sig saman og höfðu stofnað leikhóp fyrir tæpum 20 árum síðan. Ég var það ómeðvituð gagnvart hættum kynjahrokans að mér datt ekki annað í hug en að ég fengi þau laun sem mér bar samkvæmt venju. En nei sú var ekki raunin þegar strákarnir fengu að leika sér fyrir utan settan rammann. Við undirskrift samnings sátum við þrjú í búingaherbergi framkvæmdarstjóri, ég og annar leikari, karlleikari. Sá var með hlutverk í sýningunni sem taldist til lítils hlutverks. Framkvæmdastóri nefnir við mig upphæðina sem ég fengi fyrir sýningu og spyr hvort ég sé ekki sátt...leikhópurinn sé nú ekki svo stöndugur o.sv.fr. Ég spyr hann og samleikara minn hvort þetta séu ekki þau laun sem séu í gangi í sýningunni og báðir fullvissa mig um að svo sé. Nú þá undirrita ég samninginn og lék mín hlutverk glöð og sátt við mitt hlutskipti. Svo gerist það mörgum árum síðar að þessi sami karlleikari sem hafði stutt framkvæmdastórann í því að fullvissa mig um að mín laun væru samkvæmt því sem gengi innan sýningar hittir mig á skemmtun. Hann var vel við skál og vill endilega tala við mig um mál sem hafði legið honum á hjarta og angrað hann í meira en áratug. Hann sá svo hræðilega mikið eftir því að hafa logið að mér! Hann táraðist og sagðist hafa tekið þátt í leiknum strákanna að borga stelpunum helmingi lægri laun en þeim sjálfum!!! Mér krossbrá og varð illt. Mér varð flökurt. Hann bað mig um að fyrirgefa sér að hafa tekið þátt í þessu. Ég hef alla tíð þurft að stóla á mínar kvenmannstekjur fyrir mig og börnin mín þar sem ég var einstæð móðir. Líf einstæðrar móður á Íslandi sem hefur ekkert öryggisnet í kringum sig er vægast sagt hart… Í rauninni ekkert annað en lífróður alla daga. Ég sagðist fyrirgefa en ekki gleyma. Gert er gert og ég var beitt órétti í erfiðri lífsbáráttu minni. Þannig er með marga. Rétt skal vera rétt! Höfum hátt og látum misrétti ekki líðast á nokkurn hátt. Ofbeldi er ofbeldi og höfum hátt! 30. 25 ára og nýútskrifuð. Samstarfsmaður sem er eldri en foreldrar hennar. Óviðeigandi athugsemdir um útlit og einstaka líkamhluta hennar. Augnaráð, strokur og nautnahljóð. Heldur áfram allan samstarfstímann. Nokkrum árum síðar liggja leiðir saman á frumsýningu í öðru leikhúsi og frumsýningarpartý þar á eftir. Ballið byrjar að nýju. Áfengi haft um hönd og ákefð mannsins mikil. Athugasemdum um útlit konunnar rignir yfir hana og maðurinn bókstaflega hangir í henni og hann grátbiður hana um að sofa hjá sér. Eltir hana heim og hún þarf í orðsins fyllstu merkingu að hrista hann af sér með aðstoð vinkonu sinnar. Fékk vinkonu sína til að gista hjá sér því hún þorði ekki að vera ein. 41. Mér líður eins og ég sé búin að halda niðrí mér andanum í allt of mörg ár. Er við það að springa vegna þess varnaleysis, niðurlægingu og óréttlætis sem ég upplifði við nám í Kvikmyndaskóla Íslands. Mig langar að öskra á óréttlætið en þess í stað er ég þakklát fyrir að fá tækifæri og hafa fundið vettvang #metoo til þess að leyfa gremjunni að hamra á lyklaborðinu. Ég stundaði nám við leiklist. Einn af okkar aðalkennurum þar var sjarmerandi giftur fjölskyldufaðir með skemmtilega nærveru, þ.a.e ef þú varst í ,,hans liði’’ og hampaði hann þér þá við nemendur annara deilda svo að skólahlutverkin streymdu að. EN ef þú varst ekki ,,í hans liði’’ þá talaði hann opinskárt um það við aðra og bekkjarfélaga þína hversu lélegur leikari þú værir. Fyrstu þrjár annirnar var ég á hvorugri hlið hans. Ég neitaði því að sleikja upp kennara til þess að fá hlutverk, þau gat ég fengið sjálf út frá vinnusemi. Það merkilega var að allir aðrir kennarar en X voru ánægðir með mína vinnu og voru einkunnir mínar og hlutverk í verkefnum voru eftir því. X var þannig kennari að hann braut niður leikara til þess að byggja þá upp og ,,móta‘‘ þá. Hann mætti í nokkur skólaparty og var þá besti vinur allra, sem var undarlegt þar sem nemendur höfðu grátið og skulfið undan honum fyrr um daginn. Í partýum mútaði hinum og þessum til að gera kynferðislega hluti á kostnað annarra og ætíð á þann hátt að það átti að koma þeim sem varð fyrir áreitninni að óvöru. Hversu brenglað? Enginn þorði að segja nei við hann þar sem allir unnu að því að vera í náðinni hjá X. Síðar varð mér ljóst að X væri að misnota vald sitt með kynferðislegum hætti gagnvart fleiri en einum kvenkyns nemanda skólans og ég sagði bekkjarsystrum mínum frá því. Eftir að hafa liðið illa í tímum hjá honum svo vikum skipti fór ein af bekkjarsystrum mínum sem ég trúði fyrir þessu á fund með deildarforseta leiklistadeildar til að segja frá hvað væri búið að vera í gangi. Deildarforsetinn meðhöndlaði málið mjög ófagmannlega. Hún gekk á kennarann, sem var einnig vinur hennar, í hvelli. Hann reyndi að koma sér út úr þessu, en var þó alveg miður sín og málinu því sópað undir teppið. Skólinn gerði ekkert og efa ég að deildarforsetinn hafi farið með málið á borð skólastjóra, deildaforsetinn tjáði vinkonu minni samt að X hefði verið miður sín og farið að gráta.... Það var ekki fundað með nemendum, ekkert. Kennarinn mætir í vinnu næsta dag eins og ekkert hafi í skorist. Hann hins vegar tók málið í sínar hendur og setti sér það markmið að gera líf mitt óbærilegt, hann var viss um að það hefði verið ég sem klagaði hann. Í heila önn rakkaði hann mig niður fyrir framan bekkinn. Lét hann mig sitja út í horni í tímum og sagði við mig fyrir framan samnemendur að ég kynni ekki að leika og ætti að fara að vinna í Bónus. Daginn áður en þekktur leikari átti að koma og leika á móti bekknum sendi hann mér skilaboð á facebook þar sem hann tjáði mér að ég væri ekki nógu góð til að taka þátt því ég hefði mætt svo illa í tíma. Ástæðan fyrir því var sú að mér fannst orðið óbærilegt að sitja tímana hans auk þess sem ég þurfti að leggjast inn á spítala vegna veikinda. En endingin var sú að ég mætti ekki leika á móti þekkta leikaranum. Hann sagði einnig í bréfinu að þeir sem ég teldi að væru vinir mínir í bekknum vildu ekkert með mig hafa, sem reyndist rangt. Nemendurnir upp til hópa vissu af kynferðislegu valdmisbeitingunni sem hann hafði gerst sekur um gagnvart ákveðnum kvenkyns nemendum skólans en enginn vildi gera neitt, margir reyndu að réttlæta þetta, vildu hafa hlutina góða og gera ekki neitt drama úr þessu. Bæði vegna þess hve vel hann væri liðinn, sökum fjölskyldu hans og vegna þess að fólk hafði áhyggjur af því að það gæti hugsanlega skemmt fyrir þeim ferilinn því bransinn væri svo lítill. Eftir að hafa grátið, ekkað og legið á gólfinu, viss um að allt sem hann segði væri satt sagði móðir mín mér að ég væri mun meiri jaxl en þetta! Ákvað ég í framhaldinu að áframsenda bréfið til deildarforseta leiklistar sem sá strax að þetta væri nú ekki alveg í lagi og sá til þess að ég fengi að leika á móti þekkta leikaranum eins og samnemendur mínir. Hann X sá samt til þess að ég myndi finna fyrir því að hafa talað við deildarforsetann og var með mjög ógnandi í hegðun við mig. Ég reyndi samt sem áður að fá hann til þess að samþykkja mig. Því í þessum bransa snúast öll framasporin út á að pota sér áfram, þó svo að virðingin sé skilin eftir heima. Ég verð svo reið út í sjálfa mig þegar ég horfi til baka, ég fór t.d og keypti pizzur fyrir allt crewið sem ég hafði engan vegin efni á, því hann hafði jú líka fengið mig til að halda að allir hötuðu mig... þvílíka valdataflið. Hann X lét mig missa trúna á sjálfri mér og alltaf rembdist ég eins og rjúpan við staurinn að fá hann til þess að samþykja mig. Það var ekki fyrr en að það kom inn kennari, leikari, elskaður og dáður, sem byggði mig aftur upp að ég fór að trúa því að ég væri einstaklingur sem ætti skilið að fá að taka pláss, því X þaggaði alltaf niður í mér. Ég elska þennan bransa jafn mikið og ég hata hann. Þessi risastóri fíll í okkar listræna glerhúsi brýtur hjörtu og bramlar. Loftum út og búum til betri bransa. Takk konur ❤ 42. Vorum tvö ný í sjónvarpsþætti. Leikstjórinn hrósar nýja stráknum í bak og fyrir “það er svo geggjað að hafa fengið þig inn í þáttinn, þú ert svo sjúklega fyndinn” og segir við mig “þú ert algjör hóra”. Það var í gríni og ég veit alveg að hann meinti ekkert með þessu en þetta er bara svo mikil skekkja að sjá ekki neitt athugavert við það meira að segja þegar ég benti honum á það seinna 43. Í einum listaskólanna starfar kennari sem sofið hefur hjá nemanda deildarinnar. Þó hann hafi verið amk 20 árum eldri en hún, og að augljóst valdamisvægi sé þarna þá var þetta einhvern vegin bara skemmtisaga sem flestir sögðu “oj!” við og hlógu bara. Það lýsir því kannski hversu samdauna maður verður ákveðinni menningu. En vandamálið er ekki beint að þetta hafi gerst heldur þessi skrítna og kynæsta stemning sem hefur oft á tíðum einkennt kennslu kk kennara deildarinnar. Það er erfitt að setja puttann á það en þegar kvenleikaranemar eru í sífellu á nærfötum eða fáklæddar í nánast hverri sýningu/opnum tímum, kk kennarar halda uppi þeirri mýtu að kynorka sé ORKAN sem eigi að vinna með- óháð því hvort kvk nemum finnist sú orka henta sinni persónusköpun, fituforómar og líkamssmánun á sér stað í inntökuprófum og í kennslu, þá er farið að safnast ansi vel í sarpinn. Þetta er ömurlegt andrúmsloft og hefur haft svo djúp áhrif á ótal marga kvk nemendur sem þarna stunda nám. Þetta brýtur niður sjálfstraust og kennir okkur að það eina sem skiptir máli í þessu starfi sé að vera kynþokkafull og falleg- til þess að kk áhorfendur njóti þess að horfa! 44. Þegar ég var að setja mína fyrstu sýningu á svið á Íslandi þurfti ég að klæðast búningi sem gerði mig stóra á alla kanta. Starfsmaður leikhússins sem ég bar mikla virðingu fyrir og líkaði vel við var búinn að vera ofboðslega almennilegur og hjálpsamur. Á einni æfingunni þegar búningurinn var fullunninn og ég gat æft mig í honum, gekk hann framhjá mér, kleip í rassinn á mér (þannig að ég fann höndina hans í gegnum búninginn sem var mjög þéttur) og sagði: Mig hefur aldrei langað eins mikið í þig eins og núna. Síðan gekk hann í burtu. Ég geri mér grein fyrir að þetta var bara grín af hans hálfu en ég varð svo óörugg eftir á og fannst ég niðurlægð. Ég get illa greint á milli þess hvað er létt og skemmtilegt grín og hvenær er farið yfir mörkin. Því við vorum ekki að vinna saman í þessari sýningu, hann var hátt settur hjá leikhúsinu sjálfu. Mér fannst ég alls ekki geta sagt við hann hey ekki gera svona því þá væri ég að rugga bátnum (þannig leið mér þá) en ég óttaðist að hann teldi sig mega koma svona fram við mig. Ég ræddi við mótleikonur mínar því mér var svo brugðið og átti ekki von á þessu frá honum en þær sögðu allar, æi þetta er bara búningurinn og hann er bara að grínast, hafðu ekki áhyggjur. Ég geri mér grein fyrir því að við erum oft að gantast og grínast á æfingum og stundum fer grínið í eitthvað kynferðislegt en þetta var bara ekki þannig móment. Þarna leið mér illa. 45. Þegar ég var í leiklistarnámi vorum ég og bekkjarbróðir minn að gera skipulagða spunasenu (við vorum búin að skapa og þróa persónurnar okkar og vissum hverjar kringumstæðurnar í senunni yrðu.) Senan snerist um par sem var að hittast eftir langan tíma án hvers annars. Í miðri senunni erum við einhvernvegin ofan á rúmi og ég er með teppi ofan á mér. Hann kemur undir teppið og byrjar að strjúka mér og snerta á mér nærbuxurnar. Mér fannst þetta alveg ótrúlega skrýtið og mjög óeðlilegt svo ég lét bæði hann og kennarann vita. Kennarinn og samnemendur mínir urðu vandræðalegir og málið varð ekki tekið lengra. Bekkjarbróðir minn sagði að honum “þætti leitt að mér hefði fundist þetta leiðinlegt” og sagði að hann hefði bara “verið svo mikið í karakter” og “karakterinn hans hefði viljað þetta”. Ég spurði hann til baka hvort hann myndi einhverntíman drepa samleikara sína ef hann þyrfti að leika morðingja. Eða hvort hann myndi í alvöru ræna banka ef hann væri að leika bankaræningja. Fannst þetta alveg jafn ruglað. 46. Ég byrjaði að vinna hjá Þjóðleikhúsinu þegar ég var 16 ára, þá við móttöku gesta. Þetta var á þeim tíma mjög verndaður hópur (af okkar yfirmanni fyrst og fremst.) Næstu ár fórum við stelpurnar að sækja frumsýningarpartý og aðrar skemmtanir sem hafði þá ekki tíðkast áður. Það var þó fyrst þegar ég upplifði mátt karlleikara að komast upp með hvað sem er, var þegar eitt leikrit var sett upp hjá Þjóðleikhúsinu á smíðaverkstæðinu. Ég persónulega varð ekki fyrir neinu áreiti, en heyrði karlleikara tala saman, bjór eftir vinnu í “vina” hópi og einn af þeim nefndi að helsta ósk væri hjá viðkomandi að geta tekið kvennmann viljandi eða með valdi í vissum myrkum rýmum í húsinu, sem framkallaði hlátur hjá hinum sem sátu. Eftir það fór ég að heyra af því að stelpurnar hefðu upplifað í gegnum tíðina annað hvort snertingar eða “baktal”. Seinna, tíminn leið, og ég hafði umsjón með starfsmönnum. Ég sá um stelpurnar mínar sem voru að vinna hjá mér. Af eigin reynslu vissi ég um 1, 2 eða 3 aðila sem þurfti að varast, ég lagði þeim línurnar. En þegar ég fékk vott af því að einn hefði gripið hana í rassinn eða brjóst, hvað þá að bjóða henni að koma upp í herbergi – hikaði ég ekki við að fara framan og vísaði honum út, og fyrir framan kollega sína, og fékk ég ekki mótmæli frá þeim, sem gerðist of oft að mínu mati, sem var ekkert rætt frekar. (Svo best ég veit). 47. Ég gegni ábyrgðarstöðu innan kvikmyndabransans og hef hvorki tölur né yfirlit um öll þau skipti sem mér hefur verið mismunað vegna kynferðis míns gegnum tíðina. Ég hef setið á fundum þar sem hugmyndir mínar hafa verið þaggaðar og svo endurteknar af karlmanni skömmu síðar og þá á þær hlustað. Ég hef barist í óteljandi skipti fyrir því að jafnhæf kona sé ráðin frekar en karl og sjaldan á það hlustað. Ég hef endalaust reynt að hafa áhrif á að konur hafi ásýnd til jafns við karla í þeim verkefnum sem ég hef tengst og baráttan oft verið erfið og engu skilað, eins og að berja höfðinu við stein. Í kringum mig hefur launaleynd viðgengist lengi og þegar ég hef samið við karlkyns yfirmenn hef ég alltaf verið beðin um trúnað um þær tölur og ef ég hef brotið hann, hef ég komist að því að það var vegna þess að ég var með lægri laun en karl í áþekku starfi. Ég hef rekið mig á það að karlkynskollegar mínir hafa mun meira svigrúm til orða, athafna og mistaka án þess að vera hengdir fyrir það en konur. Ég hef ekki enga yfirsýn yfir hversu oft karlkyns yfirmaður í kringum mig hefur misbeitt valdi sínu. Ég man ekkert hversu oft ég hef fengið óviðeigandi, kynferðislegar og niðurlægjandi athugasemdir, sem eru augljóslega bara til þess að slá mig út af laginu og halda mér á mínum stað, í óörygginu. Magnið af þessu rugli er slíkt að ég hef enga yfirsýn lengur, en ég lít samt á mig sem “heppna” því mér hefur ekki verið nauðgað eða ráðist á mig líkamlega. En ansi oft andlega. Og það hefur áhrif til lengri tíma. En ég hef líka átt marga, marga, samstarfsmenn sem hafa komið fram af sjálfsagðri virðingu og réttlæti. Þeir eru bara ekki til umræðu akkúrat núna, þó þeir séu nauðsynlegur hluti af umræðunni til framtíðar. 48. Áður en ég frumsýndi útskriftarverkið mitt fékk ég virtan leikstjóra sem ég leit upp til, til að koma á rennsli. Hann talaði um að af því að verkið snerist um ást og þráhyggju vantaði meiri alvöru í verkið. Hann stakk upp á að ein leikkonan (sem er dansari) myndi niðurlægja sig gjörsamlega á sviðinu og fara úr öllum fötunum. Þetta kom mér mjög á óvart, ég svaraði að ég teldi að það myndi fara yfir hennar mörk, og hann sagði að hún myndi aldrei eiga séns í dansheiminum ef hún gæti ekki verið nakin. Þetta sýnir hans viðhorf gagnvart konum á sviði og konum í dansheiminum, þó það sé ekki hægt að útiloka að hann hefði sagt það sama ef vinkona mín væri karlkyns. Hann var í valdastöðu og þetta varð til þess að ég óttaðist að verkið mitt yrði ömurlegt. Ég hinsvegar fylgdi innsæinu og breytti engu í verkinu. Ég fattaði ekki alveg á þessum tíma að hans hugmynd kemur úr rótgrónum úreltum hugmyndum í sviðslistum um hvernig á að framsetja konu á sviði. Ég hugsa að þetta viðhorf hans sem ég lýsi hér á undan sé eitthvað sem mjög margir karlkynsleikstjórar hafa að sé bara í lagi að krefjast af konum. En svona viðhorf þarf að uppræta, og því er mikilvægt að segja frá þessari sögu þó hún sé ekki um kynferðislegt ofbeldi eða áreiti. Ég vildi að þessi umræða hefði verið tekin á meðan ég var í LHÍ. Ég meika ekki lengur þessa kallamenningu og sjomlaorku sem útilokar konur og lætur kvenkyns leikara/dansara í hlutverk og stöður sem eru ekki í lagi. Vinkona mín hafði samband við mig útaf allri umræðunni hér og þakkaði mér fyrir að hafa staðið við hennar mörk við mann sem er virtur í sviðslistaheiminum. Það var í rauninni ekki fyrr en í fyrradag sem ég fattaði hvað þetta var ekki í lagi að koma með svona hugmynd við mig, sem augljóslega leit mikið upp til hans, og tala eins og þetta væri eina leiðin til að bjarga útskriftarverkinu mínu. Vinkona mín setti þetta vel niður og hér kemur hennar hlið á málinu, en við ákváðum saman að birta þetta: “Það sem var ætlast til af mér var einhverskonar kvenlegt vitstol í sviðslistum/samtímadansi þar sem kvenlíkaminn er endanlega búin að missa vitið sem er sýnt með því að fara úr öllum fötunum í einhverju brjáluðu hormóna/tilfinningakasti. Á þessum tíma hafði ég ónot fyrir að falla inní þetta hlutverk, en vissi ekki alveg hvers vegna. Í dag hef ég mótað mér skoðun á því hvers vegna ég vil ekki að horft sé á líkamann minn í þessu samhengi á sviði. Í þessu samhengi missi ég vald yfir því hvernig áhorfendur horfa á líkamann minn og sú gjörð að afklæðast í tilfinningaofsa er ódýr lausn á málum þar sem líkaminn verður niðurlægður í þeim ásetningi að reyna að fá athygli stráks. Nei takk. Í dag hefði staðan verið önnur, sérstaklega þar sem ég hef séð þessu hlutverki verið snúið meðvitað við. En til þess að breyta þessu hlutverki innan sviðslistaheimsins þurfum við þessa umræðu og valið til þess að segja nei, og ef ekki, valið til þess að segja já og ef við viljum segja já, þá kæmi sér vel að vera með einhverskonar vitneskju um það hvernig við getum haldið í valið, að vera naktar, með tilfinningar, en samt sem áður með stjórn og vald. Bara til þess að vita að það er líka val…Það sem sló mig mest út af laginu var að viðbrögðin hans við því þegar þú sagðir honum að þú værir hrædd um að þetta færi yfir mín mörk, var að þá ætti ég ekki séns í samtímadansheiminn. Ef það er óumflýjanlegt að þurfa að vera nakin á sviði í dansheiminum, og ef dansarinn kemst ekkert áfram vegna þess að hann áttar sig á því að hann hefur val til þess að segja nei við því að koma nakin fram á sviði, þá þarf eitthvað að endurskoða gildi þessarar senu.” 49. Ég hafði unnið í leikhúsinu í 5 ár þegar bekkjarbróðir minn fékk þar samning (hann er ári yngri en ég). Framkvæmdastjórinn bauð honum strax að fara á launataxta ofar en ég, af því hann væri FYRIRVINNA, sjálf var ég einstæð móðir á þessum tíma. Þarna fattaði ég einhvernvegin svona alveg að ég sat ekki við sama borð og samferðamenn mínir. 50. Einn kollegi fór óþægilega yfir mín mörk í teiti hjá sameiginlegum vini á sama tíma og við vorum í æfingarferli þar sem traust skipti miklu máli. Mánudaginn eftir atvikið segi ég við hann að hann hafi farið algjörlega yfir línuna, hann segir sorry sorry ég var bara svo fullur, ég segist svo hafa sagt manninum mínum frá þessu, þá kom á hann hik, svo sagði ég að svona framkoma væru nú ástæða þess að ég hefði ítrekað reynt að komast hjá því að vinna með honum, að yfirmaður okkar væri inni í málinu og nú væri grunur minn um markaleysi hans staðfestur... þá panikeraði hann. Hringdi m.a. í manninn minn og bað hann afsökunar... what? Það sem ég fattaði þarna var að honum var nákvæmlega sama hvernig hann hafði farið yfir mín mörk, honum fannst óþægilegt að maðurinn minn vissi þetta, en verst fannst honum ef hann gæti misst vinnuna útaf þessu. Þá uppgötvaði ég að það eina sem svona fávitar skilja er að missa vinnuna. 51. Ég var að semja fyrir mig fyrir kvikmynd, og vildi ná mér uppí eitthvað “eðlilegt”. Þeir buðu mér hlægilega lágan taxta... Ég sagðist ætla að hringja í karlmótleikara minn til að bera saman bækur okkar... þá allt í einu var ekkert mál að semja við mig og ég fékk nær því sem ég bað um. ÆJhhh, ætli hann hafi ekki verið með helmingi meira en ég. Ég hef aldrei viljað spyrja hann, ég held ég yrði svo sár. 52. Ég var 28 ára. Við bjuggjum í sama húsi ásamt fleirum því þetta var sýning úti á landi. Eitt kvöldið þegar ég er að fara í háttinn, kemur einn samstarfsfélagi til mín, sem mér fannst alveg mjög fínn náungi. Ég sá nýtt blik í augunum hans, stingandi. Hann vildi fá mig með sér í sturtu. Suðaði og suðaði, komdu, gerðu það komdu með mér í sturtu. Verum saman allsber í sturtu. Hann var töluvert eldri. Ég átti erfitt með svefn þessa nótt og fleiri. Læsti alltaf mínu herbergi vel og vandlega því ég var hrædd um að hann kæmi inn. Í þessu sömu sýningu varð ég líka fyrir ömurlegu einelti af hálfu leikara. Ég var svooo reið að ég fór til sálfræðings á milli sýninga og gerði m.a. reiðivinnu sem hjálpaði mér að komast í gegnum þetta tímabil. 53. Ég var 21 árs að vinna í Þjóðleikhúsinu sem dresser við mína fyrstu uppfærslu. Mér fannst þessu heimur svo spennandi og skemmtilegur. Þetta var barnaleikrit og í því var maður sem var svona 40 árum eldri en ég að leika afa. Það var oft sem ég og þessi maður þurftum að bíða á milli sena í myrkrinu í þröngum ranghalanum. Mér fannst hann alltaf standa aðeins of nálægt mér en hugsaði ekki mikið meira út í það til að byrja með. Þegar lengra leið á leikárið byrjaði hann að segja mér hvað ég væri falleg og hvað hann hefði verið skotinn í mér á sínum yngri árum. Þetta fór að verða hans setning í hvert skipti sem að sýningin var sýnd. Eftir smá tíma byrjaði hann að segja mér að hann væri sko ekkert að reyna við mig að hann væri nú allt of gamall fyrir mig. Ég var byrjuð að nefna þetta við samstarfsfólk mitt, að hann væri orðinn ansi ágengur en allir hlógu bara og sögðu að hann væri svo gamall að hann mundi aldrei reyna neitt. Eitt kvöldið eftir vinnu í leikhúsinu fórum við samstarfsfólkið á Næsta bar eins og svo oft áður. Þar var hann fullur. Ég bað fólkið sem ég var með að passa upp á mig og þau flissuðu bara og sögðu að ég hefði ekki neitt til að hafa áhyggjur af. Sá gamli kom nokkru sinnum yfir kvöldið til að tala við mig og segja mér aftur hvað ég væri falleg og hvað hann væri skotinn í mér. En hann væri sko ekkert að reyna við mig . Ég sagði skýrt að ég hefði ekki nokkurn áhuga en þakkaði hrósið. Ég bað samstarfsfólk mitt aftur um að hafa auga með honum og þau sögðust ætla gera það en trúðu mér varla. En svo kom að því að hann kom til mín og rak tunguna rakleiðis upp í mig og strauk mér um mjaðmirnar. Þarna fattaði fólkið sem ég var með fyrst að mér mér var alvara og stóð ógn af. Ég einhvern veginn náði að koma mér undan og segja honum að fara og þetta væri svo sannarlega ekki í boði og fólkið í kringum mig hafði augun opin fyrir honum það sem eftir var. En eftir þetta þurfti ég samt að vinna með honum hverja helgi báða dagana í myrku þröngu göngunum í Þjóðleikhúsinu 54. Ég hef setið hér triggeruð, hljóð og lömuð af hræðslu að lesa innleggin sem hingað hafa streymt síðustu sólahringa og sveiflast á milli þess að ákveða hvort ég grafi þetta enn og aftur í óminni mínu eins og ekkert hafi gerst eða hvort ég þori og þá hvort það sé yfirhöfuð einhver tilgangur með því að stiga fram. Mun eitthvað breytast? Mun einhver trúa mér núna og vilja hlusta? Karlmenn í valdastöðum í KVÍ fóru yfir öll leyfileg mörk í samskiptum við mig. Ég hef kennt mér mikið um og tekið alla ábyrgðina og skömmina af þeim í huga mínum því ég spilaði jú oft með. Ég sá það ekki þá en sé það í dag að það var sjálfsbjargarviðleitni en með því að taka þátt einstaka sinnum keypti ég mér pásu frá niðurrifsstarfsemi í tíma hjá ykkur, uppskar jafnvel mikið hrós, velvild og hjálpsemi í einhvern tíma eftir það. Það brást ekki að þegar ég var “erfið” og með uppreisn og neitaði að taka þátt eða setti einhver mörk sjálfrar mín vegna eða reyndi að stoppa þetta þá varð allt námið svo miklu erfiðara. Í ykkar augum var ég kynlífsleikfang, ljóskan sem káfa mátti á, þessi sem senda mátti klúr skilaboð í tíma og ótíma innan sem utan skóla til að þið gætuð svalað ykkar eigin fýsnum. Þið lituð á frelsið til að níðast á mér sem sjálfsagðan hlut og vissuð upp á hár hvernig þið gætuð misnotað valdastöðu ykkar gagnvart mér. Þið tókuð allt sem ég átti af sjálfsvirðingu í leiklistarnámi mínu. Á aðeins tveimur árum breyttist ég úr því að vera sjálfstæð, glöð og orkumikil félagsvera í þunglyndan triggeraðan geðsjúkling sem enga stjórn hafði á skapi sínu í fullkomlega eðlilegum aðstæðum. Það sem mér þótti sýnu verra var að þegar kjaftasaga um reynslu mína var afbökuð og ég reyndi að koma í orð því sem ég hafði orðið fyrir þá snerust margir samnemendur mínir gegn mér og sögðu mig vera að sofa mér leið á toppinn. Þá var ég baktöluð af samnemendum mínum og litin hornauga sem crazy bitch og einangraðist bara enn meir. Suma daga var einu velvildina og hlýjuna að finna frá ykkur, eins sorglegt og það hljómar þá er ég oft reiðari við þá sem hefðu átt að vera stuðningur og hjálp heldur en við ykkur sem brutuð mig markvisst niður.Undir lok námsins fann ég ekki til neinnar lífsgleði og eftir útskrift fór ég ekki framúr rúminu í sex mánuði. Enn í dag á ég erfitt með að treysta. En skömminni ætla ég að skila, hún er ekki mín, hún er alfarið ykkar. #metoo #tjaldiðfellur #höfumhátt 55. Hæst launuðu verkefnin í mínu fagi fara til karlmanna, ráðið í af karlmönnum. Það hefur ekkert með hæfni að gera. 56. Þegar ég er ráðin af konum, hef ég aldrei orðið vör við mismunun. 57. Ég hef fengið 30-40% lægri laun en karlmaður fyrir sömu stöðu. 58. Ég hef enga tölu á því hversu oft hefur ekki verið hlustað á mínar hugmyndir, en þegar karlmaður ber þær upp stuttu seinna, er á þær hlustað. 59. Ég hef margoft talað um mismunun vegna kyns míns, og man eftir misalvarlegum jákvæðum og neikvæðum viðbrögðum, tvö skipti sem ég man eftir brugðust karlmennirnir við með ógnandi framkomu, öskruðu á mig og hentu húsgögnum í veggi. 60. Ég hef oft verið tekin sem ein af strákunum og hlustað á hvernig þessari og hinni ætti að vera flengriðið, hvernig konur eru lélegar í samningum, hvernig konur notfæra sér að vera kynverur, hvernig kærustunum er leyft að gera þetta eða hitt. Samansafn af kommentum sem gera það mjög flókið fyrir mig, ein af strákunum en samt kona, að vera hluti af hópnum sem ég er að vinna með. Þá er sjaldnast vegið að mér beint, persónulega sem konu. Ég hef heyrt valdamikla karlrembukarla hlæja að #metoo og segja að þessi umræða sé komin langt yfir “eðlileg” mörk, þeir líta á sig sem feminista. 61. Var í tökum. Í fyrstu senunni sem við tökum vill leikstjórinn að ég sé á brjóstahaldaranum (sem ég hafði spurt sérstaklega um áður hvort ég þyrfti að gera og var svarað neitandi). Ég stend bara föst á því að það skipti ekki máli fyrir innihald og framvindu þótt ég sé í bol frekar, hann hlær og gerir athugasemd um hvað það sé skrýtið að finnast þetta vera issue en gúdderar þetta loks. Næst er sena þar sem ég á að dansa við strák nema þegar við erum að taka upp segir leikstjórinn mér að ég eigi að grænda strákinn (beygja mig fram og dansa með rassinn í hann). Þetta strýkur mér öfugt því það stóð ekki í handritinu og mér fannst það niðurlægjandi í þessum aðstæðum sem við vorum að vinna með. Aftur sagði ég hey nei þetta er óþarfi fyrir framvinduna, ég dansa bara venjulega. Ég fékk það í gegn en allir á tökustað urðu svo innilega pirraðir á mér því ramminn var þá ekki jafn flottur. Ramminn skiptir sem sagt meira máli heldur en hvernig konur eru málaðar upp í kvikmyndum og sjónvarpi. 62. Annarskonar ofbeldi – kynbundið og niðurlægjandi. Fyrstu ríflega 4 árin í starfi mínu hjá leikhúsinu gengu samskipti mín og yfirmannsins almennt mjög vel og ég áleit okkur félaga, treysti honum og leitaði gjarnan til hans. Hann gerði samt oft lítið úr mér og var ósanngjarn við mig, stal hugmyndum mínum og lét mig sitja uppi með sumar af sínum vondu hugmyndum– en ég bara sætti mig við það, vildi velja orrusturnar og á þessum tíma var hann ekki hæstráðandi. Oft varð ég líka vitni að mjög ljótum samskiptum hans við aðra og þá var ég gjarnan fegin að vera réttu megin við hann. Ég varð vör við hvernig hann tók fólk fyrir og fylgdist beinlínis með honum hrekja fólk úr starfi. Eins tók ég stundum þátt í ákveðnum hlutum án þess að vilja það – en bara einhvernvegin gerði því að það var bara einhvernvegin einfaldara en að reyna að leiðrétta hann. Hann átti (á?) það til að hreinlega hagræða atburðarrás og samtölum sér í hag – og ég held að oftar en ekki hafi hann trúað sjálfur að hann væri í raun og sann fórnarlamb í mikið af sínum samskiptum. Eftir að hafa unnið í leikhúsinu í tæplega 5 ár þá reyndi ég aðeins að spyrna við óhóflegri vinnu og þegar hann kallar mig fyrirvaralaust inn úr sumarfríi án nokkurs aðdraganda þá svara ég í gríni hvort að ég þurfi að mjaðmagrindarbrotna til að fá að vera í friði í fríinu. Við þetta svar mitt umturnuðust samskipti okkar. Tveimur dögum síðar sátum við saman fund útí bæ sem var verulega vandræðalegur fyrir alla viðstadda. Hann gerði sér far um að láta eins og ég væri ekki á staðnum. Heilsaði mér ekki, snéri sjálfur mjög óeðlilega við fundarborðið til að geta bókstaflega snúið í mig bakinu og mér fannst hann raunverulega ekki heyra í mér. Eftir fundin var ég spurð hvort ekki væri allt í lagi og ég bara réttlætti hegðun hans og ákvað að láta þetta ekki á mig fá. Nema þetta var bara byrjunin. Næstu mánuðir voru eiginlega óbærilegir í vinnu. Hann lét eins og ég væri ekki til – og þess á milli var hann óvæginn og ómerkilegur við mig. Ég jafnvel heyrði hann tala illa um mig og ég held að ég hafi átt að heyra það. Hann horfði í gegnum mig, heilsaði mér ekki og gerði mér alveg ljóst að hann vildi ekki vinna með mér. Hann tók mig reglulega fyrir á fundum með miklum æsingi, ranghvolfdi augunum í hvert sinn er við mættumst á þröngum göngum hússins og varð almennt mjög óútreiknanlegur í allri umgengni. Eðlilega tók ég framkomu hans nærri mér. Ég var farin að draga mig verulega í hlé þegar leið á haustið og sporin í vinnuna urðu sífellt þyngri. Ég var farin að efast um alla hluti og ekki síst sjálfa mig og þegar leið á október var ég bara skugginn af sjálfri mér. Þá lendi ég í slysi – og kemst ekki til vinnu í nokkrar vikur. Hann varð fyrst og fremst pirraður, en hafði síðan ekki samband. Ég var að drepast úr samviskubiti yfir því að komast ekki til vinnu og ég bara skildi ekki hvað var í gangi. Nokkrum dögum eftir að ég sný aftur til vinnu kallar hann mig á fund til sín og segir að ég sé orðin mjög áhugalaus. Hann var þá næstum ljúfur – þannig að ég þori að segja honum að það sé ekki síst vegna þess að ég hreinlega væri farin að óttast hann og mér fyndist hann vera mjög fjandsamlegur í minn garð. Hann viðurkennir að hann hafi kannski mögulega verið aðeins ósanngjarn einhvertíma og lofar að það lagist. Framkoma hans batnaði í nokkra daga - en versnaði svo aftur verulega. Í byrjun febrúar var ég aftur komin á sama stað, ekki yrt á mig svo dögum skiptir og öll samskipti mjög fjandsamleg - og mín viðbrögð eins og áður. Kvíði, vanlíðan, þunglyndi og einbeitingaskortur og ég fór að gera klaufaleg mistök og eiga erfitt með að klára verkefni. Ég sendi honum línu þar sem ég segi að mér líði illa þegar svona sé komið fram við mig. Enn versnaði viðmótið og viku síðar, sendi ég honum póst og afrit á skrifstofustjórann þar sem ég segist bara ekki geta mætt til vinnu í þessu ástandi, og biðla jafnframt til hans að samskipti okkar lagist svo við getum unnið saman. Eins leita ég til stéttarfélagsins sem talar um gróft einelti og virtust kannast vel við það frá þessum manni. Tveimur dögum síðar leggur hann niður starfið mitt. Lítið stjórnsýslutrikk sem ég var svo vitlaus að segja honum frá. Nokkrum dögum síðar ræður hann karl í starfið sem hann hafði lengi haft augastað á og viljað í deildina mína. Líf mitt breyttist við þetta, sjálfsmynd mín öll og mér líður eins og hann hafi rænt mig ærunni – svona fyrir utan starfsferill minn er sennilega bara ónýtur. Ég skammast mín eða fæ kvíðahnút í magann þegar ég hitti fyrrum vinnufélaga úr leikhúsinu. Ég veit alveg að það er ekki endilega rökrétt – en hvað veit ég. Hann hefur öll völdin, allt tengslanetið og getur hagað sögunni eins og hann vill. Ég veit líka að hann gerir það, ég varð svo oft vitni að því. Ég veit líka að hann trúir sjálfur að hann hafi ekki gert neitt rangt – það var ég sem bara varð allt í einu – eftir fimm ár - að einverjum aumingja sem réði ekki við vinnuna sína. MeToo Kynferðisofbeldi Leikhús Kvikmyndagerð á Íslandi Tengdar fréttir Segir rannsókn innan leiklistarinnar í forgangi: „Grafalvarlegir hlutir sem að þarna eru á ferðinni“ Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra segir mikilvægt að taka alvarlega ábendingar um áreitni og valdaójafnvægi í leiklistarheiminum hér á landi. 17. nóvember 2017 10:00 Snjóskafl sem þarf að bræða: Valdaójafnvægi og áreitni innan leiklistar á Íslandi Formaður félags íslenskra leikara vill að rannsókn fari fram á áreitni, kynferðislegu ofbeldi og misbeitingu valds innan leiklistar hér á landi. Hundruð hafa stigið fram og sagt frá slíku á síðustu vikum í Svíþjóð auk Bandaríkjanna og víðar. 15. nóvember 2017 09:00 Mest lesið Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent „RÚV er sá fjölmiðill sem er líklega einna lengst til vinstri á Íslandi“ Innlent Ætla að opna Bláa lónið 29. nóvember Innlent Rafmagnsmastur í hættu vegna hraunflæðis Innlent Hörð viðbrögð við vaxtahækkunum Innlent Tilbúin að aflýsa verkföllum í fjórum leikskólum Innlent Segist svikin af Viðreisn og segir sig úr flokknum Innlent Eldri maður á gamalli Corollu ógnaði ekki lífi hjóna á nýjum Ram Innlent Vaktin: Totur farnar að teygja sig til norðurs Innlent Atburðarás gærdagsins í myndum Innlent Fleiri fréttir „RÚV er sá fjölmiðill sem er líklega einna lengst til vinstri á Íslandi“ Ætla að opna Bláa lónið 29. nóvember Rafmagnsmastur í hættu vegna hraunflæðis Segist svikin af Viðreisn og segir sig úr flokknum Tilbúin að aflýsa verkföllum í fjórum leikskólum Hörð viðbrögð við vaxtahækkunum Boða verkföll í tíu leikskólum í desember Í beinni frá gosstöðvum, undrun á vegferð seðlabankans og lokasprettur Atburðarás gærdagsins í myndum Eldri maður á gamalli Corollu ógnaði ekki lífi hjóna á nýjum Ram Virkni í þremur gígum og mest í miðjunni Mikill meirihluti vill ekki sjá sjókvíaeldi í Seyðisfirði Segir íbúafundinn ekki hafa verið nægilega upplýsandi FA klagar Willum Þór til umboðsmanns Með hundruð kílóa af þýfi heima hjá sér Bílar og byggingariðnaður losar mest í Reykjavík „Allt athafnasvæði Bláa lónsins er innan varnargarða“ Rokk og ról í Rockville holunni frestast fram í janúar Framsókn með þriggja prósenta fylgi í borginni Gist í um tuttugu húsum í Grindavík Njarðvíkuræðin heldur sem stendur og vaxtakjörin útskýrð á mannamáli Útkall vegna reyks við Borgarholtsbraut Ekki þörf enn á að stækka varnargarða við Bláa lónið Bein útsending: Heilbrigðisstarfsfólk grillar frambjóðendur Meirihluti styður verkfallsaðgerðir kennara Jafnast ekki út að vera með annan fótinn í hrauni og hinn í ís Stöðug virkni í nótt og og litlar breytingar Hótaði heimilismönnum með skærum Sigmundur hafi viljað í kennslustund með nemendum Gætu kosið strategískt þegar svo margir flokkar eru á mörkunum Sjá meira
Konur sem starfa eða hafa starfað innan sviðslista og kvikmyndagerðar á Íslandi hafa á síðustu dögum deilt nafnlausum reynslusögum um kynferðisofbeldi, áreitni og mismunun innan stéttarinnar á lokuðum Facebook-hóp. RÚV greinir frá. Hafa þær gert 62 sögur opinberar sent fjölmiðlum undir yfirskriftinni: Tjaldið fellur. Fylgja þær fordæmi íslenskra stjórnmálakvenna sem í síðustu viku stigu fram og greindu frá kynferðisofbeldi, áreitni og mismunun á sama hátt. Alls skrifa 548 konur innan stéttarinnar undir yfirlýsingu þar sem segir að konur í þessum bransa séu „í raun mjög berskjaldaðar, bæði vegna smæðar samfélagsins og hversu fá tækifæri er um að ræða, og líka vegna frægðar og áhrifa gerendanna sem gerir þeim mjög erfitt um vik og þaggar ennfremur niður í þeim.“ Konur séu oft miklum minnihluta á tökustað og „þurfa þá að þola mjög karllægt andrúmsloft með miklu áreiti, bæði munnlegu og líkamlegu, og jafnvel gerðar kröfur til þeirra um að vera kynferðislega aðgengilegar fyrir stjörnuna eða stjörnuleikstjórann.“ Krefjast konurnar sem skrifa undir að þær fái að vinna vinnu sína án áreitni, ofbeldis eða mismunar. Þá krefjast þær að yfirvöld, leikhús og framleiðsufyrirtæki taki af festu á málinu og komi sér upp viðbragðsáætlun og verkferlum. Hér má sjá þær konur sem hafa skrifað undir þessa áskorun um að karlkyns samverkamenn þeirra taki ábyrgð; að yfirvöld, leikhús og framleiðslufyrirtæki taki af festu á málinu og komi sér upp verkferlum og viðbragðsáætlun. Hér fyrir neðan má lesa sögurnar sem hafa verið sendar fjölmiðlum. FRÁSAGNIR KVENNA Í SVIÐSLISTUM 1. Einu sinni þegar ég var leikkona í sýningu greip einn sviðsmaðurinn í píkuna á mér þegar ég var rétt að stíga á svið í stórt atriði þar sem ég var aðal. Ég tilkynnti þetta og hann bað mig afsökunar en það sem sjokkeraði mig mest og situr mikið í mér eru viðbrögð stjórnenda. Ég var spurð hvað ég vildi eiginlega að gert yrði í málinu, eins og það væri á mína ábyrgð. Ég spurði hvort það væru ekki til einhverjir verkferlar? Þá var mér sagt að viðkomandi yrði tekinn úr sýningunni „fyrir mig”. Ábyrgðin öll á mér semsagt. Þegar ég og stjórnandinn vorum búin að tala saman og ég var að kveðja, þá fannst mér eins og hann væri að opna faðminn, sem mér fannst undarlegt en ókei… svo ég faðmaði hann. Þá sagði hann (á meðan ég var í fanginu á honum) “er þetta kannski óviðeigandi?”. 2. Karlkyns leikstjórinn grínast með að ég sé lauslát drusla fyrir framan allan leikhópinn og kallar mig almannagjá, þótt ég sé í föstu sambandi og að kærastinn minn sé hluti af leikhópnum. Enginn þorir að gera annað en að hlæja með djókinu. Kærastinn minn líka. Mig langar að hverfa ofan í gólfið. Fannst ég algerlega svipt sjálfsvirðingunni fyrir framan vinnufélagana. 3. Ég var 14 ára þegar ég lék í minni fyrstu kvikmynd, og ég lék stelpu á aldrinum 12-17 ára í myndinni. Ég var fullorðinsleg eftir aldri án búnings. Nokkrir í crewinu voru alveg með það á heilanum hvort ég væri hrein mey eða ekki. Og það er ekki fyrr en núna að ég skil hvað þetta var lasið - ég í alvöru leit á þetta sem jákvæða athygli, að kannski þætti þeim ég sæt. 4. Ég var að leika í sýningu og varð hrifin af ljósamanninum. Við byrjuðum að hittast og ég vildi fara rólega og bíða með kynlíf þangað til við þekktumst betur. Kvöld eitt missti hann þolinmæðina og nauðgaði mér. Ég mætti ósofin og í áfalli á æfingu daginn eftir. Ég skalf og titraði við tilhugsunina um að hann vofði hátt yfir höfðinu á mér, að elta mig með eltiljósi. Mér fannst ég fangelsuð. Í hádeginu gat ég ekkert borðað, og þá sagði aðalleikarinn hátt og hæðnislega yfir borðið, svo allir heyrðu: Æ æ, mölvaði ljósamaðurinn í þér hjartað? Svo fór hann að hlæja. 5. Ég er við tökur á íslenskri sjónvarpsþáttaröð, er í litlu hlutverki en samt með nokkrar línur. Einn af aðalleikurunum byrjar að reyna við mig. Ég hef ekki áhuga á honum en reyni samt að vera kurteis og “næs”, til að skemma ekki móralinn í tökum. Þegar ég fer út í bíl eftir að tökurnar eru búnar sé ég að hann er búinn að senda mér sms. Með mynd af typpinu á sér. 6. Ég var í litlu hlutverki í söngleik. Í frumsýningar partíinu var ég inni á kvennaklósetti að þvo mér hendurnar þegar hurðinni á einum klefanum er allt í einu hrundið upp og einn af stjórnendum sýningarinnar birtist sauðdrukkinn, grípur í mig og dregur mig inn, lokar og fer að kyssa mig og snerta. Maður sem ég bar virðingu fyrir og fannst sjarmerandi en hann er giftur og og ég sagði honum sem var að það er turn off fyrir mig, eins og reyndar bæði fylleríið og kvennaklósettið. Hann hélt áfram að nauða í mér þangað til ég reif mig lausa og hljóp út. Nokkrum dögum seinna komu upp veikindi hjá leikkonu í aðalhlutverki og ég hefði getað hlaupið í skarðið. Ég mannaði mig upp og fór og ræddi um það við hann og það voru mjög einföld samskipti: hann gerði mér alveg ljóst að ég myndi ekki fá vinnu í verkefni hjá honum aftur. Og það hefur staðist. 7. “Þú verður að passa þig að verða ekki aftur feit, það þykir ekki flott í þessum bransa að vera feit.” 8. Eitt fyrsta djobbið mitt í bransanum var við gerð bíómyndar, þetta var fjölþjóðleg framleiðsla og í aðalhlutverki var rísandi Hollywood stjarna með egó í samræmi við það. Eitt kvöldið bað yfirmaður minn mig að sækja eitthvað á sitt heimili sem leikarann vantaði og ég gerði það, það var vinnan mín. Svo kem ég aftur á hótelið þar sem allt crewið var, leikarar, leikstjóri og læt leikarann hafa þetta sem ég man ekki hvað var. Þá króar hann mig af úti í horni, þakkar mér fyrir eins og ég hafi verið að gera honum persónulegan greiða en ekki vinna vinnuna mína og grípur um mig og kyssir mig rembingskossi og reynir að troða tungunni upp í mig. Ég náði að slíta mig lausa og leikarinn fór og klagaði mig í yfirmann minn. 9. Á barnum eftir tökur á fyrsta verkefninu sem ég framleiddi. “Þú veist að X réði þig bara vegna þess að hann vill komast í nærbuxurnar hjá þér.” 10. Ég er eiginlega orðlaus, veit og man að það var margt sagt og klipið og kreist en hún sem ég var þá ákvað hún að láta sem ekkert væri og að það væri eðlilegasti hlutur í heimi þegar einhver kæmi til að setjast í stólinn (smink) gripi um bæði brjóstin á mér, eða segði eitthvað óviðeigandi um líkama minn og eða hvort ég hefði fengið það nýlega. Ég þá ákvað að vera gæs, þið vitið eins og að skvetta vatni á gæs, smám saman hætti ég að taka eftir þessu sem er auðvitað alls ekki í lagi. Takk fyrir að minna mig á að þetta var og er ekki í lagi. Minni í leiðinni á að við verðum að passa syni okkar svo þeir detti ekki í þessa gryfju kvenfyrirlitningar. #höfumhátt #metoo 11. Hér er ein saga sem flokkast kannski ekki undir kynferðislega áreitni heldur viðhorf sem sumir framleiðendur virðast hafa til leikkvenna. Hollywood-mynd, heimsfrægur leikari að leikstýra sjálfum sér. Íslenskur framleiðandi hefur samband og býður mér vinnu á setti. Ég mæti í viðtal og hitti þar kvenkyns meðlim úr framleiðslu teyminu. Þar var mér sagt að starfið fælist í að passa monitor leikstjórans. Standa hjá honum og passa monitorinn. Ég afþakkaði þar sem ég taldi tíma mínum betur varið. Skömmu síðar fæ ég símtal frá sama framleiðanda sem er þá staddur í þyrlu með fyrrnefndum leikstjóra. Framleiðandinn býður mér í partý um kvöldið og segir mér að taka tvær vinkonur mínar með. Hann réttir leikstjóranum símann og ég spjalla stuttlega við hann. Ég segist ætla að hugsa málið. Framleiðandinn hringir nokkrum sinnum aftur, segir að þetta gæti nú greitt götur mínar í Hollywood. Þá segi ég honum að ég skuli nú mæta, með kærastanum mínum. Hann segir mér að það gangi ekki upp. Ég afþakka því gott boð og heyri svo af því að önnur leikkona hafi þegið þetta fína boð. Can't make this shit up, allavega ekki þetta með monitorinn og þyrluna. Mér var ekki ofboðið heldur fannst mér þetta fyndið og absúrd en á heldur lágu plani. Og ég fíla alveg þennan framleiðanda. 12. Hversu hræðilegt er það að þurfa að telja sig heppna að hafa aldrei orðið fyrir kynferðislegu áreiti eða þaðan af verra! En síðustu vikur hef ég áttað mig á að ég er greinilega heppin að hafa sloppið. Hræðilegt að heyra allar þessar sögur og óskiljanlegt hvernig mannfólk leyfir sér að haga sér gagnvart öðrum. Algjört virðingarleysi fyrir tilfinningum og líkama annara er greinilega algengt á litla “saklausa” Íslandi! Ég er fegin að þessi bylting og vitundarvakning sé í gangi svo að dóttir mín læri að engin/n hefur rétt á að fara inn fyrir þau mörk sem hún setur! #metoo 13. Ég var mjög ung þegar ég ákvað að þetta væri minn framtíðar starfsvettvangur og lagði mikinn metnað í mína leiklist. Þegar ég var 15 ára var ungur leikari sem ég kannaðist ágætalega við að leysa af frábæra leiklistarkennarann minn, konu sem ég treysti afar vel. Í eitt skipti eftir leiklistartíma fékk ég far hjá honum heim, ég man ekki hvernig það kom til samt. Hann spurði mig hvort ég ætti kærasta. Ég sagði nei og fannst spurningin óþægileg frá fullorðnum manni sem ég þekkti ekki mikið. Hann sagðist hafa haldið það þar sem ég væri svo fullorðinsleg. Svo lýsti hann því hvað strákar ættu eftir að verða sjúkir í mig og væru það örugglega nú þegar af því ég væri svo ,,þroskuð” og ,,alvarleg” og ,,erfið” og væri ,,playing hard to get”. Það skiptir auðvitað engu máli en gerir aðstæður mögulega verri að þegar ég var 15 ára leit ég úti fyrir að vera max 12. 14. Þetta er ekki saga sem gerist þar sem ég er starfandi leikkona. En valdamisbeitingin þar sem ég var verðandi leikkona og hinir leikarar segir mér að hún eigi heima hér. Svo er ég líka handviss um að þetta séu þrjú andlit sem aðrir hafa verið að tala um og allir vita af. Þetta er saga sem hefði getað endað illa. Ég var unglingur að passa hjá þjóðþekktum leikara sem ég hafði kynnst þegar við lékum í ólíkum verkefnum í sama húsi, ég treysti honum og leit upp til hans. Hann hafði oft gefið mér góð ráð hvað varðaði leiklistina og gaukað að mér hugmyndum að efni fyrir leiklistarskóla prufurnar. Eitt kvöldið kom hann heim og tveir kollegar hans með honum, allir mjög drukknir. Ég, að vanda, hóf að pakka saman tölvunni minni og skóladótinu. Einn þeirra spurði þá ,,Hva, þarftu að fara strax?” Ég sagðist þurfa að vakna snemma í skólann daginn eftir og að ég ætlaði bara að drífa mig. Á meðan ég pakkaði saman fylgdust þeir allir með mér, löbbuðu á eftir mér og suðuðu um að ég myndi stoppa lengur, nóttin væri nú ung. Ég held það hafi orðið mér til happs hvað þeir voru drukknir og því svifaseinir og ég var farin áður en þeir gátu tekið hlutina lengra. En ég hef aldrei andað léttar en þegar ég komst út úr húsinu og út í bíl. Þar sat ég svo í dágóða stund og reyndi að gera upp við mig hvort ég þorði aftur inn að sækja krakkana, ég treysti þeim ekki til að hugsa um þau. 15. “Ætlið þið að láta einu konuna á setti starta keðjusöginni?” sagði maðurinn í propsdeildinni. Ég var í frábæru crew'i sem samanstóð einungis af körlum fyrir utan leikkonur og sminkur sem voru samt ekki hluti af day to day operations. Við vorum basically fjögur eða fimm, leikstjóri, handritshöfundur og leikari og tökumaður. Algjört dream team þar sem mikil virðing réði ríkjum. Svo þurftum við að nota keðjusög en hún stóð á sér. Hafandi unnið í garðyrkju frá 14 ára aldri og meðhöndlað alls kyns tryllitæki þá bauð ég mig fram til að skoða málið. Enginn kommentaði á það og ég fann að mér fannst æði að þetta væri loksins orðið að sjálfsögðum hlut. Að ég konan stæði þarna og athugaði með innsogið á vélinni í friði. En svo kom propsarinn/leikmyndahönnuðurinn, gamall (og virtur) maður og eyðilagði allt. Ég kýldi hann í öxlina. 16. Þegar ég byrjaði að vinna í kvikmyndum var mér bókstaflega hent út í djúpu laugina með því að gerast aðstoðarleikstjóri hjá gamalreyndum leikstjóra sem hafði orð á sér fyrir að manupulera og niðurlægja fólk af báðum kynjum. Ég fékk oft athugasemdir frá karlkyns starfsfélögum sem höfðu áhyggjur af því að hann myndi algerlega brjóta mig niður vegna þess að ég væri ung og reynslulítil kona. Ég hef oft hugsað um það- en þessi leikstjóri kom í raun fram við mig af miklu meiri virðingu en þessir samstarfsmenn sem gerðu ráð fyrir að ég myndi brotna vegna þessa leikstjóra. Þeir treystu mér ekki vegna þess að ég var stelpa. En það breytir því ekki að ég - í styrkleika mínum og því að standa mig vel - tók þátt í því að hjálpa þessum leikstjóra við að ná fram vilja sínum- og niðurlægja og fara yfir mörk annarra. Ég vann með honum í fleiri verkefnum- og gagnrýndi oftar sem á leið og setti spurningamerki við aðferðir hans. Hann hætti þá allt í einu að muna hvað ég hét og kallaði mig ýmist “X” eða “hvað þú nú heitir aftur”. Þetta notaði hann óspart á fólk til að setja það niður. Fyrsta verkefni mitt með honum að aðstoða við ljósmyndaverkefni fyrir tískutímarit sem átti að sýna ungar stelpur á leið í sund. Sixtís stemmning. Ég átti að finna módel - en ljósmyndarinn var með nokkrar þegar valdar og bæði hann og leikstjórinn vildu hafa þær yngri og yngri og yngri. Hreinar meyjar. Lofað var að ekkert ætti að sýna. Ljósmyndarinn var líka hugmyndasmiður og mér varð flökurt þegar þeir félagarnir göntuðust með verkefnið- og hvað mætti og mætti ekki. Mitt hlutverk var að fá stelpurnar til að treysta þessu verkefni og stjórna framkvæmdinni. Þegar á hólminn var komið vildi leikstjórinn að þær sýndu meira. Og olli þeim vanlíðan og óöryggi. Ég reyndi að stoppa hann en hann var í ham. Sminkan, búningamanneskjan reyndu líka að stoppa hann. Ljósmyndarinn tók þátt í þessu með leikstjóranum. Seinna komu upp deilur milli ljósmyndarans og leikstjórans um réttindamál varðandi hugmyndina - og ég var kölluð í réttarsal til að bera vitni. Þá kom í ljós að ljósmyndarinn var orðinn sjálfskipaður vörður stelpnanna- sem höfðu upplifað sig áreittar. Seinna hitti ég þá þar sem þeir voru orðnir bestu vinir aftur - saman hlæjandi á kennderíi. Ég hef svo oft hugsað um þetta - hvað maður var magnvana í þessum aðstæðum og hvers vegna ég tók yfirhöfuð þátt í þessu verkefni. Jú, leikstjórinn setti þetta upp sem próf fyrir mig í hvort ég hefði nógu sterk bein til að vinna með honum í komandi stóru kvikmyndaverkefni. Ég hugsa mjög oft til stelpnanna sem nú eru fullorðnar konur og hvernig þær hafa unnið úr þessu. Hvort það sé mitt að biðjast fyrirgefningar. Mig langar það- en er ég þá ekki að taka að mér skömmina? Hvar liggur ábyrgðin? Hver á að bera skömmina? Eina þessara kvenna hef ég hitt og við ræddum þetta og hún upplifði þetta sannarlega sem grófa áreitni og það var erfitt yfir hana að vinna úr þessari upplifun. 17. Þegar ég var 21 árs lenti ég á spjalli við frægan leikara sem er rúmlega 20 árum eldri en ég. Á þessum tíma var hann að vinna fyrir pabba minn. Ég rakst á hann á bar og á skömmum tíma fór hann að reyna að fá mig með sér á skrifstofu út í bæ til að stunda kynlíf, ég skil ekki alveg hvers vegna samtalið fór á þessa braut þar sem ég leit á þennan mann sem vinnufélaga pabba míns. Ég afþakkaði ósmekklegt boðið og þá gargaði hann á mig að það væri fullt af smápíkum sem biðu í röðum eftir honum. Ég pældi stundum í því hvernig það væri að vera kona og leika á móti honum því svona atvik eru oftast ekkert einsdæmi fyrir svona týpur. 18. Mér finnst þetta erfitt. Treysti mér ekki enn til þess að deila því alvarlegasta en hér kemur ein lítil til að byrja á. Líklegast kynferðislegt áreiti en má líka taka til greina að ég var bara 16-17 ára. Ég var 16 ára að leika í barnasýningu í Þjóðleikhúsinu þegar ég fór að fá persónuleg skilaboð frá leikara (c.a. 20 árum eldri en ég) sem innihéldu spurningar á borð við “hvað ég væri að gera?” “Að hann væri í baði að hugsa til mín” og “hvort kærastinn minn kynni ekki örugglega að vera góður við mig”. Fékk líka að heyra að við værum svo sexí í búningunum okkar og fleira. Ég lét engan sem skipti máli vita af þessu. #meetoo 19. Veturinn 2010 var ég að aðstoða bekkjarsystur mína við tökur á stuttmynd eftir hana. Ég var á setti alla tökudagana, aðstoðaði við catering og lék í einni senu. Sú sena var þess eðlis að ég lék móður sem grét við leiði sonar síns. Ég gaf mig alla í senuna, you name it það var tilfiningaundirbúningur aldarinnar fyrir þessa litlu senu! Leikstjóri myndarinar var einn þekktasti leikari landsins, svokallað óskabarn þjóðarinnar. Bekkjasystir mín skrifaði og lék aðalhlutverkið í stuttmyndinni og var mótleikari hennar annar mjög þekktur leikari. Ég talaði lítið við mótleikara bekkjarsystur minnar. Ég var mjög feimin við hann og leikstjórann og lét lítið fyrir mér fara. Í eitt skipti missti bekkjarsystir mín stjórn á skapi sínu og lét mig heyra það fyrir framan crewið. Hún átti erfitt með að sjá eitthvað og ég var fyrir. Þótti mótleikara hennar þetta hinn argasti dónaskapur og bað hann hana vinsamlegast um að koma ekki svona fram við mig. Ég þakkaði honum fyrir þetta og voru samskipti okkar ekki meiri í tökunum. Eftir þetta var ég viss um að hann væri ágætis manneskja. Nokkrum dögum eftir að tökum lauk addaði hann mér á fb. Ég var mjög hissa en samþykkti vinabeiðnina. Sama kvöld hringdi hann í mig, sem hann átti eftir að gera næstu kvöld í þeim tilgangi að klæmast við mig. Ég þorði ekki að vera dónaleg við hann, hann var nú frægur leikari og gæti tekið ferilinn minn í bakaríið…. Hann sagði við mig hluti eins og ,,ég tek eftir því að á myndinni frá 2009 á fb ertu með miklu stærri brjóst en núna. Af hverju er það?‘‘ sem og að tjá mér um það að hann vildi panta fyrir mig leigubíl svo að við gætum sofið saman. Hann kom með grófar lýsingar á því hvernig hann ætlaði að fullnægja mér og sagði í sífellu að hann sæi það alveg að ég væri mikið fyrir kynlíf. Ég bjó til allar afsakanir í bókinni þar sem ég þorði ekki að neita honum blákalt. Eina nótt rétt fyrir jól vaknaði ég við símhringingu frá honum þar sem hann sagði mér að hann væri að fara að senda leigubíl eftir mér. Hann hætti ekki að suða fyrr enn ég náði að koma honum í skilning um það að ég væri ekki að fara að skilja dóttur mína eina heima um miðja nótt. Þá loks komst hann loks í skilning um að ég hefði ekki áhuga á því að sofa hjá honum og voru símhringingarnar ekki fleiri eftir það. 20. Ég hef verið heppin og tekist að halda ýmsu frá mér, meira af glópaláni en kænsku, en öll þessi umræða hefur fengið mig til að hugsa um eitt og annað atvik frá unglingsárunum sem ekki olli sárum á sálinni en var samt, eftir á að hyggja bara alls ekki í lagi. Stundum er maður bara svo hissa á því sem aðrir virðast líta á sem sjálfsagða hegðun að maður veit varla hvað maður á að hugsa. Að því sögðu er ég þó svo óendanlega þakklát yfir því að þetta átak fer nú í gegnum alla þjóðfélagshópa (er í nettu áfalli yfir því sem konur segja hér inni og ekki síst þingkonurnar, nógu erfitt og vanþakklátt starf er það nú). Ef hugarfarið er virkilega svona hjá þessum meirihluta karla þá þarf að uppræta það og endurmennta í anda kínversku menningarbyltingarinnar (nei kannski ekki alveg ;) ) Ég sjálf sigldi og sigli enn blessunarlega örugg í gegnum atvinnumennsku á sviði í tónlist aðallega. EN, þegar farið var yfir mín mörk, sem gestsöngvara á fyrsta ári í húsi sem var valið besta óperuhús Þýskaland í mörg ár í röð, þá sagði ég frá því. Atvikin voru í sjálfu sér saklaus, en þetta var heit sena í upphafi Rigoletto, flett af mér kjólnum og allt það, í mjög fínu korsetti undir, ekkert mál. Mjög glæsileg sena út af fyrir sig. En í lokin á mótsöngvarinn að þrífa mig til sín og kyssa mig á hálsinn, svona bakvið eyrað bara. Hann var með ámálað skegg og eftir hverja sýningu var það komið á nýjan stað, niður á brjóst og kinn og leitaði á munn. Ég sagði honum á endanum í miðri senu að ef hann hætti þessu ekki myndi ég slá hann utanundir. Þegar samningum lauk fór ég upp á skrifstofu, sagðist ekki vilja að neitt yrði gert, en ef aðrar kvartanir bærust þá væri gott að hafa minn vitnsiburð. Auðvitað var svo söngkona í öðru hlutverki komin með hendur hans upp eftir pilsinu og tunguna ofan í kok nokkru síðar og þá var hægt að gera eitthvað í málunum og það var gert. 21. Ég var að leika í íslenskri bíómynd úti á landi. Ég fór á þeim forsendum að þetta væri sena þar sem ég væri “stelpa á bar” sem aðalleikarinn (kk) átti að flörta við mig og aðra stelpu og senan átti svo að enda uppi á hótelherbergi hjá honum. Það stóð ekkert um neitt kynferðislegt nema það að ég átti að byrja að klæða mig úr fötunum og svo átti bara að cutta. En þegar við vorum komin upp á hótelherbergið, stakk aðalleikarinn uppá því að við værum með alvöru kampavín í senunni og leikstjórinn sagði bara já, og crewið (sem er fólk sem er búið að vinna í bransanum lengi) stoppaði þetta ekki. Ég drekk ekki þannig ég fékk mér ekkert en leikarinn og stelpan sem var með okkur voru orðin full. Mér leið eins og ég væri að leika í klámmynd. Þetta fór frá því að vera sena þar sem við áttum að byrja að klæða okkur úr fötunum, yfir í það að vera sena þar sem við vorum í sleik við þennan mann (sem lyktaði eins og spíri) og senan var orðin að kynlífsenu sem var ekki einusinni leikin. Ég var svo varnarlaus, þar sem leikstjórinn (kk) samþykkti þetta allt. Ég vildi ekki vera stelpan sem öskraði stopp því ég hélt að þetta væri kannski bara eðlilegt. Ég sá samt nokkrum dögum seinna þegar ég talaði við foreldra mína að það er ekkert eðlilegt við þetta. 22. „Ég ræð aldrei stelpur. Þær fara alltaf að grenja“ sagði fyrrverandi kennari minn úr Kvikmyndaskólanum við mig þegar ég var 25 ára, nýútskrifuð að sækja um vinnu. Mig langar bara ađ segja það hér að eftir ad hafa lesið allt hér fór ég ad rifja upp atburði sem hentu mig þar sem 3 leikarar komu vid sögu á einn eða annan hátt, saga af áreitni, valdbeitingu og útskúfun. Ég fylltist fyrst kjarki en svo lamandi ótta eftir að hafa skrifađ söguna því ég óttaðist ađ hún yrði rakin til mín, og ég óttaðist að styggja vinsælu strákana. Að ég myndi upplifa meira diss og skömm fyrir ađ segja frá. Ég hætti viđ ađ deila. Ótti eins og minn er ástæðan fyrir því ađ þetta hefur viðgengist allt of lengi. Kjarkur eins og ykkar er hinsvegar ástæðan fyrir að ég þarf ekki að óttast mikið lengur. 23. Leikhús. Generalprufa. Ég er enn í búning og þýðandi sýningar kemur til mín, faðmar mig, hrósar mér hversu vel ég hafi staðið mig og fari fallega með texta. Segir mér svo hversu falleg ég sé. Endar á að halda við hnakkann á mér og troða tungunni á sér upp í mig og taka þar nokkra hringi áður en ég get ýtt honum frá mér. Ég segi engum í uppsetningunni frá. Nokkrum árum seinna minnist ég á þetta við samleikkonu og þá segir hún: Ó, gerði hann þetta líka við þig? Við hlæjum að þessu þá. Í dag vildi ég óska að ég hefði heyrt í „litlu Mér“ innra með mér sem sagði mér að öskra á manninn: „Stopp! Hættu þessu! Þetta er rangt!“ En ég „stóra Ég“ var að reyna að vera fullorðin eins og mér hafði verið kennt; halda kjafti og vera sæt. Takk elsku ungu hugrökku stelpur fyrir að hafa haft hátt og hjálpað mér þannig að leyfa kjarna mínum að tala. 24. Það sem ég tel mig heppna að hafa “bara” lent í kynferðislegu áreiti innan bransans, aldrei ofbeldi. Ég virðist vera ein af fáum sem er einhverskonar brengluð undartekning frá ofbeldi. Ein saga, sem mig rámar í að hafað heyrt oftar en einu sinni, situr sérstaklega föst í mér: Leikstjóri leikstýrir senu sem gerist inní svefnherbergi, uppi í rúmi. Tvær stelpur eru naktar/hálfnaktar í rúminu að fara með einhvern díalóg og leikstjórinn, sem er karlmaður, ákveður að afklæða sig sjálfur og vippa sér uppí til þeirra. Þetta var skólaverkefni og stingur það mig að einhversstaðar lærist þessi hegðun, ekki endilega frá kennara en mögulega úr kennsluefni. (stelpur, ef þið eruð hér inni, endalaus styrkur og ást ❤) Ein minning frá mínum eigin skólaárum situr einnig fast í mér því hún var eiginlega upphafið af því að èg skynjaði valdastöður í bransanum; ég var kona og ekkert meir: Kennari að kenna bekknum einhver basic handritaskrif og framleiðslutrikk og endar á að segja “svo selja brjóst. Alltaf skrifa inn brjóst.” 25. Ég ætla að leyfa mér að láta flakka eina sögu. Ég var í löngu tökuferli sem krafðist þess að við vorum lengi að heiman. Við gistum öll saman á hóteli eins og gerist svo oft. Einn daginn er einn af aðalleikurunum (kk) með óvenju mikið smink sem svo þurfti að þvo af fyrir næstu senu. En það var svo heppilegt að við vorum að skjóta nánast í innkeyrslu hótelsins og þar aðauki að bíða eftir sólsetri svo ég hafði nægan tíma. Svo ég ákvað að senda hann bara inn á sitt herbergi í sturtu. Sömuleiðis tók hann búninginn sinn með sem hann átti að fara í og koma svo til mín í rútuna að fá nýtt smink. En svo mætir hann ekki, svo ég fæ upplýsingar um að hann vilji að ég komi og græji hann uppá herbergi. Kanski ágætt að bæta við að þessi ágæti maður var búinn að vera frekar mislyndur allt ferlið og fljótur að láta það bitna á mér og búningum ef illa stóð á honum. Svo ég var alveg sannfærð um að hann væri í vandræðum með að ná af sér sminkinu og ég bjó mig því undir að hann tæki trylling á mig. Með það í huga bað ég aðstoðarleikstjórann að koma með mér og gaf líka í skyn að mér þætti frekar skrítið að fara upp á herbergi til fólks ef ég hefði fullbúna aðstöðu tilbúna fyrir utan. Þegar upp kom var kappinn ekki í búning eða í neinum vandræðum með sminkið. Hann var aftur á móti á nærbuxunum einum klæða, búinn að dimma ljósin, draga fyrir og kveikja á tónlist. ...varð svo augljóslega mjög vandræðalegur þegar hann sá aðstoðarleikstjórann. Fyrst hljó ég að þessu og reyndi að dusta af mér. En mikið djöfull fannst mér brotið á mér jafnvel þótt ekkert hafi gerst. Það sem eftir var af tökutímabilinu “feikaði” ég mig hressa í kringum hann og þurfti augljóslega að halda áfram að vera svo gott sem ofan í honum, svona einsog starf sminku er. Sömuleiðis að passa alltaf a halda öllum hressum. Ég hef líka upplifað franskan leikstjóra sem ég þurfti að flýa á setti (og gat þarafleiðandi ekki sinnt starfi mínu almennilega) vegna þess hversu óviðeigandi hann var í orðum og þukli. Ég hef líka fengið að heyra að ég sé crew hóra ...og það frá manni sem ég var að hitta. Þetta eru bara pínu brot úr bransanum. Ég upplifði alvarleg brot sem barn og unglingur sem gerir mig kanski viðkvæmari, ég veit það ekki. 26. Ég var átján ára í inntökuprófi leiklistarskólans og komin í 16 manna úrtakið, rosalega glöð og stolt yfir að vera komin svona langt. Ég er sett í setningaspuna með einum af strákunum sem var mun eldri en ég, og er í dag mikilsvirtur í bransanum. Við fengum tíma til að undirbúa okkur svo við setjum senuna og æfðum þetta í einhver skipti. Svo þegar á hólminn er komið, sýnum við. Nema að hann breytir öllu og gerist klámfenginn og káfar á mér og kyssir mig. Mér fannst þetta ógeðslegt og hálf fraus en stoppaði þetta ekki og sagði ekki frá, “varð” að halda andliti því þetta voru jú inntökuprófin og kannski væri ég bara tepra og fengi bágt fyrir að kjafta frá. Ég fór alveg í rusl við þetta. Hann komst auðvitað inn í skólann en ekki ég. 27. Ég verð að viðurkenna það að mér hefur fundist ofboðslega erfitt að vera ung kona. Kannski er ég bara voðalega áhrifagjörn og verri í að fylgja eigin sannfæringu en ég vildi trúa. Þetta er ekki bein áreitni en ég vildi bara aðeins tala um upplifun mína að því að vera ung kona í bransanum af því ég hef haft gott af því að heyra frá öðrum. Ég man á mínu fyrsta leiklistarnámskeiði í LAMDA áður en BA námið mitt byrjaði þá ödduðum við krakkarnir hvor öðru á facebook til að geta hist og hangið saman í kringum tíma. Svo mæti ég næsta dag og þá voru krakkarnir að tala um myndir úr myndatökum sem ég hafði gert á síðunni minni og meintu voða vel, en það var fyrir framan kennarann. Svo byrjar tímann og við erum að gera einhverjar hryggæfingar og þá aðar kennarinn upp að mér og hreytir út úr sér að ef ég hætti ekki þessu presentationalism þá verði aldrei neitt varið í mig sem leikkonu. Ég skildi ekkert hvaðan þetta kom því ég var bara að einbeita mér að mænunni minni, en mér brá svo við þetta og ofboðslega áhrifagjörn 18 ára ég sem var nú mætt í minn fyrsta tíma að reyna að verða góð í því sem ég vildi vera góð í, grafalvarleg að vera nú tekin alvara, kaupi ég bara laus föt fyrir námið, hætti að mála mig, borða meira en ég vil svo ég virðist ekki eitthvað fyrirsætuleg og tek bara að mér KK hlutverk í hvert sinn sem við megum velja eigin persónur. Samt koma samnemendur upp að mér og segja við mig “Allt sem þú gerir er svo kynferðislegt. Röddin þín, hreyfingar, það skiptir ekki máli hvað þú tekur að þér, allt verður um kynlíf!” Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið og þetta hefur gert mig svo meðvitaða og látið mér líða voðalega fangelsuð út af því hvernig konur eru túlkaðar og skynjaðar á sviði. Einnig margir kennarar sem hafa haft mjög neikvæð áhrif, allt of mikið af einmitt þessum hræðsluaðferðum sem herpir leikarann, og túlkar allt sem stelpurnar gera á sviði sem kynferðislegt eða boring, sofa hjá nemendum í ofanábót. Þannig hér var ég að reyna að sanna fyrir einhverjum kennurum og samnemendum að ég væri alvöru leikkona með því að reyna að hafna eigin rödd og líkama út af endalausum kommentum, en svo útskrifast maður inn í heim typecasting þar sem einu hlutverkin fyrir ungar konur eru sæta stelpan, krúttlega stelpan og kynbomban, og ef maður vill leika og hafa umboðsmann verður maður að fylgja reglunum. Helmingurinn af prufunum sem ég mæti í þó ég hafni mörgu er ég beðin um að vera meira sexí töku frá töku, eða prufan er óvænt stefnumót og varla rætt um verkefnið, eða meðleikarar grípa í píkuna í eftirpartíinu sekúndum eftir að þeir voru að segja þér frá brúðkaupsundirbúningnum þeirra. Ég get svo svarið það, ef það væri ekki fyrir listakonur sem ég dáist að og oft heppin að vinna með að skapa sér sín eigin tækifæri væri ég orðin geðbiluð. 28. Ég hef lent í því hjá tveimur kollegum mínum að þeir vildu ríða mér að mér forspurðri. Skiptin voru þrjú. Fyrsta sinni var það þegar ég vann sem skrifta hjá sjónvarpinu undir stjórn annars þeirra og var það á fyrsta vinnudegi mínum í vinnunni, og farið var norður á land. Hann var þó svo fullur að ég gat varist. Svo var einnig um seinna skiptið. Síðan fór sá að býsnast um að biðja ætti JBH afsökunar, hér á bókinni, þá minnti ég hann á að hann sjálfur hefði aldrei beðið mig afsökunar. Hann setti mig á blokk, eins og hann hefur gert við flesta aðra. Síðan er það annar kollegi sem óð inn á herbergið mitt á hóteli árið 2000, augafullur og ég sjálf vel við skál. Hann linnti ekki látum þótt ég berðist á móti og sagði illskufullt glaðhlakkandi þegar hann kom typpinu inn í píkuna: „Nú er ég búin að ríða þér“. En ég hélt áfram að berjast á móti og að endingu hætti hann. Þá lét hann út úr sér setningu sem mér fannst meinfyndin: „Af hverju læturðu svona? Þær standa í röðum í Reykjavík til að fá að sjúga hann á mér“. Honum til afbötunar hló hann við sjálfur þegar ég benti honum á hvað hann léti út úr sér. Þessi náungi baðst aldrei afsökunar og er enn reiður út í mig. 29. Mig langar til að koma hér að einni sögu sem varðar launamál okkar kvenna. Í þeim efnum þurfa kvenlistamenn að vera á varðbergi ekki síður en konur í öðrum starfsstéttum. Venjan er nefnilega sú eða allavegana þykir það nokkuð eðlilegt í því karlaþjóðfélagi sem við lifum í að körlum finnist þeir hafi tilkall til hærri launa og fríðinda en kvenmenn,- fyrir sömu störf. Það heitir ofbeldi þegar misbeiting valds er viðhaft, á hvorn veginn sem er. Þegar misnotkun valdaójafnvægis er viðhaft og nýtt sér í hag heitir það ofbeldi, andlegt ofbeldi. Að strákar hygli að strákum, karlar hygla að körlum þarf að benda á og tala um, HÁTT! Jæja, stutt dæmisaga. Ég taldi mig alltaf afskaplega heppna að starfa innan stéttar þar sem sömu laun voru fyrir sömu vinnu, innan leikhúsanna. Þar var viðhöfð sú regla að sýningarlaun fóru eftir stærð hlutverks. Stórt, meðal eða lítið hlutverk og laun eftir því. Ekki var teljandi munur á milli en þó nokkur. Þessi regla þótti eðlieg og sjálfsögð innan stofnana og í leikhópum áður fyrr. Svo var eitt sinn að ég var beðin um að taka að mér tvö meðalstór-stór hlutverk í sýningu þar sem strákahópur hafði tekið sig saman og höfðu stofnað leikhóp fyrir tæpum 20 árum síðan. Ég var það ómeðvituð gagnvart hættum kynjahrokans að mér datt ekki annað í hug en að ég fengi þau laun sem mér bar samkvæmt venju. En nei sú var ekki raunin þegar strákarnir fengu að leika sér fyrir utan settan rammann. Við undirskrift samnings sátum við þrjú í búingaherbergi framkvæmdarstjóri, ég og annar leikari, karlleikari. Sá var með hlutverk í sýningunni sem taldist til lítils hlutverks. Framkvæmdastóri nefnir við mig upphæðina sem ég fengi fyrir sýningu og spyr hvort ég sé ekki sátt...leikhópurinn sé nú ekki svo stöndugur o.sv.fr. Ég spyr hann og samleikara minn hvort þetta séu ekki þau laun sem séu í gangi í sýningunni og báðir fullvissa mig um að svo sé. Nú þá undirrita ég samninginn og lék mín hlutverk glöð og sátt við mitt hlutskipti. Svo gerist það mörgum árum síðar að þessi sami karlleikari sem hafði stutt framkvæmdastórann í því að fullvissa mig um að mín laun væru samkvæmt því sem gengi innan sýningar hittir mig á skemmtun. Hann var vel við skál og vill endilega tala við mig um mál sem hafði legið honum á hjarta og angrað hann í meira en áratug. Hann sá svo hræðilega mikið eftir því að hafa logið að mér! Hann táraðist og sagðist hafa tekið þátt í leiknum strákanna að borga stelpunum helmingi lægri laun en þeim sjálfum!!! Mér krossbrá og varð illt. Mér varð flökurt. Hann bað mig um að fyrirgefa sér að hafa tekið þátt í þessu. Ég hef alla tíð þurft að stóla á mínar kvenmannstekjur fyrir mig og börnin mín þar sem ég var einstæð móðir. Líf einstæðrar móður á Íslandi sem hefur ekkert öryggisnet í kringum sig er vægast sagt hart… Í rauninni ekkert annað en lífróður alla daga. Ég sagðist fyrirgefa en ekki gleyma. Gert er gert og ég var beitt órétti í erfiðri lífsbáráttu minni. Þannig er með marga. Rétt skal vera rétt! Höfum hátt og látum misrétti ekki líðast á nokkurn hátt. Ofbeldi er ofbeldi og höfum hátt! 30. 25 ára og nýútskrifuð. Samstarfsmaður sem er eldri en foreldrar hennar. Óviðeigandi athugsemdir um útlit og einstaka líkamhluta hennar. Augnaráð, strokur og nautnahljóð. Heldur áfram allan samstarfstímann. Nokkrum árum síðar liggja leiðir saman á frumsýningu í öðru leikhúsi og frumsýningarpartý þar á eftir. Ballið byrjar að nýju. Áfengi haft um hönd og ákefð mannsins mikil. Athugasemdum um útlit konunnar rignir yfir hana og maðurinn bókstaflega hangir í henni og hann grátbiður hana um að sofa hjá sér. Eltir hana heim og hún þarf í orðsins fyllstu merkingu að hrista hann af sér með aðstoð vinkonu sinnar. Fékk vinkonu sína til að gista hjá sér því hún þorði ekki að vera ein. 41. Mér líður eins og ég sé búin að halda niðrí mér andanum í allt of mörg ár. Er við það að springa vegna þess varnaleysis, niðurlægingu og óréttlætis sem ég upplifði við nám í Kvikmyndaskóla Íslands. Mig langar að öskra á óréttlætið en þess í stað er ég þakklát fyrir að fá tækifæri og hafa fundið vettvang #metoo til þess að leyfa gremjunni að hamra á lyklaborðinu. Ég stundaði nám við leiklist. Einn af okkar aðalkennurum þar var sjarmerandi giftur fjölskyldufaðir með skemmtilega nærveru, þ.a.e ef þú varst í ,,hans liði’’ og hampaði hann þér þá við nemendur annara deilda svo að skólahlutverkin streymdu að. EN ef þú varst ekki ,,í hans liði’’ þá talaði hann opinskárt um það við aðra og bekkjarfélaga þína hversu lélegur leikari þú værir. Fyrstu þrjár annirnar var ég á hvorugri hlið hans. Ég neitaði því að sleikja upp kennara til þess að fá hlutverk, þau gat ég fengið sjálf út frá vinnusemi. Það merkilega var að allir aðrir kennarar en X voru ánægðir með mína vinnu og voru einkunnir mínar og hlutverk í verkefnum voru eftir því. X var þannig kennari að hann braut niður leikara til þess að byggja þá upp og ,,móta‘‘ þá. Hann mætti í nokkur skólaparty og var þá besti vinur allra, sem var undarlegt þar sem nemendur höfðu grátið og skulfið undan honum fyrr um daginn. Í partýum mútaði hinum og þessum til að gera kynferðislega hluti á kostnað annarra og ætíð á þann hátt að það átti að koma þeim sem varð fyrir áreitninni að óvöru. Hversu brenglað? Enginn þorði að segja nei við hann þar sem allir unnu að því að vera í náðinni hjá X. Síðar varð mér ljóst að X væri að misnota vald sitt með kynferðislegum hætti gagnvart fleiri en einum kvenkyns nemanda skólans og ég sagði bekkjarsystrum mínum frá því. Eftir að hafa liðið illa í tímum hjá honum svo vikum skipti fór ein af bekkjarsystrum mínum sem ég trúði fyrir þessu á fund með deildarforseta leiklistadeildar til að segja frá hvað væri búið að vera í gangi. Deildarforsetinn meðhöndlaði málið mjög ófagmannlega. Hún gekk á kennarann, sem var einnig vinur hennar, í hvelli. Hann reyndi að koma sér út úr þessu, en var þó alveg miður sín og málinu því sópað undir teppið. Skólinn gerði ekkert og efa ég að deildarforsetinn hafi farið með málið á borð skólastjóra, deildaforsetinn tjáði vinkonu minni samt að X hefði verið miður sín og farið að gráta.... Það var ekki fundað með nemendum, ekkert. Kennarinn mætir í vinnu næsta dag eins og ekkert hafi í skorist. Hann hins vegar tók málið í sínar hendur og setti sér það markmið að gera líf mitt óbærilegt, hann var viss um að það hefði verið ég sem klagaði hann. Í heila önn rakkaði hann mig niður fyrir framan bekkinn. Lét hann mig sitja út í horni í tímum og sagði við mig fyrir framan samnemendur að ég kynni ekki að leika og ætti að fara að vinna í Bónus. Daginn áður en þekktur leikari átti að koma og leika á móti bekknum sendi hann mér skilaboð á facebook þar sem hann tjáði mér að ég væri ekki nógu góð til að taka þátt því ég hefði mætt svo illa í tíma. Ástæðan fyrir því var sú að mér fannst orðið óbærilegt að sitja tímana hans auk þess sem ég þurfti að leggjast inn á spítala vegna veikinda. En endingin var sú að ég mætti ekki leika á móti þekkta leikaranum. Hann sagði einnig í bréfinu að þeir sem ég teldi að væru vinir mínir í bekknum vildu ekkert með mig hafa, sem reyndist rangt. Nemendurnir upp til hópa vissu af kynferðislegu valdmisbeitingunni sem hann hafði gerst sekur um gagnvart ákveðnum kvenkyns nemendum skólans en enginn vildi gera neitt, margir reyndu að réttlæta þetta, vildu hafa hlutina góða og gera ekki neitt drama úr þessu. Bæði vegna þess hve vel hann væri liðinn, sökum fjölskyldu hans og vegna þess að fólk hafði áhyggjur af því að það gæti hugsanlega skemmt fyrir þeim ferilinn því bransinn væri svo lítill. Eftir að hafa grátið, ekkað og legið á gólfinu, viss um að allt sem hann segði væri satt sagði móðir mín mér að ég væri mun meiri jaxl en þetta! Ákvað ég í framhaldinu að áframsenda bréfið til deildarforseta leiklistar sem sá strax að þetta væri nú ekki alveg í lagi og sá til þess að ég fengi að leika á móti þekkta leikaranum eins og samnemendur mínir. Hann X sá samt til þess að ég myndi finna fyrir því að hafa talað við deildarforsetann og var með mjög ógnandi í hegðun við mig. Ég reyndi samt sem áður að fá hann til þess að samþykkja mig. Því í þessum bransa snúast öll framasporin út á að pota sér áfram, þó svo að virðingin sé skilin eftir heima. Ég verð svo reið út í sjálfa mig þegar ég horfi til baka, ég fór t.d og keypti pizzur fyrir allt crewið sem ég hafði engan vegin efni á, því hann hafði jú líka fengið mig til að halda að allir hötuðu mig... þvílíka valdataflið. Hann X lét mig missa trúna á sjálfri mér og alltaf rembdist ég eins og rjúpan við staurinn að fá hann til þess að samþykja mig. Það var ekki fyrr en að það kom inn kennari, leikari, elskaður og dáður, sem byggði mig aftur upp að ég fór að trúa því að ég væri einstaklingur sem ætti skilið að fá að taka pláss, því X þaggaði alltaf niður í mér. Ég elska þennan bransa jafn mikið og ég hata hann. Þessi risastóri fíll í okkar listræna glerhúsi brýtur hjörtu og bramlar. Loftum út og búum til betri bransa. Takk konur ❤ 42. Vorum tvö ný í sjónvarpsþætti. Leikstjórinn hrósar nýja stráknum í bak og fyrir “það er svo geggjað að hafa fengið þig inn í þáttinn, þú ert svo sjúklega fyndinn” og segir við mig “þú ert algjör hóra”. Það var í gríni og ég veit alveg að hann meinti ekkert með þessu en þetta er bara svo mikil skekkja að sjá ekki neitt athugavert við það meira að segja þegar ég benti honum á það seinna 43. Í einum listaskólanna starfar kennari sem sofið hefur hjá nemanda deildarinnar. Þó hann hafi verið amk 20 árum eldri en hún, og að augljóst valdamisvægi sé þarna þá var þetta einhvern vegin bara skemmtisaga sem flestir sögðu “oj!” við og hlógu bara. Það lýsir því kannski hversu samdauna maður verður ákveðinni menningu. En vandamálið er ekki beint að þetta hafi gerst heldur þessi skrítna og kynæsta stemning sem hefur oft á tíðum einkennt kennslu kk kennara deildarinnar. Það er erfitt að setja puttann á það en þegar kvenleikaranemar eru í sífellu á nærfötum eða fáklæddar í nánast hverri sýningu/opnum tímum, kk kennarar halda uppi þeirri mýtu að kynorka sé ORKAN sem eigi að vinna með- óháð því hvort kvk nemum finnist sú orka henta sinni persónusköpun, fituforómar og líkamssmánun á sér stað í inntökuprófum og í kennslu, þá er farið að safnast ansi vel í sarpinn. Þetta er ömurlegt andrúmsloft og hefur haft svo djúp áhrif á ótal marga kvk nemendur sem þarna stunda nám. Þetta brýtur niður sjálfstraust og kennir okkur að það eina sem skiptir máli í þessu starfi sé að vera kynþokkafull og falleg- til þess að kk áhorfendur njóti þess að horfa! 44. Þegar ég var að setja mína fyrstu sýningu á svið á Íslandi þurfti ég að klæðast búningi sem gerði mig stóra á alla kanta. Starfsmaður leikhússins sem ég bar mikla virðingu fyrir og líkaði vel við var búinn að vera ofboðslega almennilegur og hjálpsamur. Á einni æfingunni þegar búningurinn var fullunninn og ég gat æft mig í honum, gekk hann framhjá mér, kleip í rassinn á mér (þannig að ég fann höndina hans í gegnum búninginn sem var mjög þéttur) og sagði: Mig hefur aldrei langað eins mikið í þig eins og núna. Síðan gekk hann í burtu. Ég geri mér grein fyrir að þetta var bara grín af hans hálfu en ég varð svo óörugg eftir á og fannst ég niðurlægð. Ég get illa greint á milli þess hvað er létt og skemmtilegt grín og hvenær er farið yfir mörkin. Því við vorum ekki að vinna saman í þessari sýningu, hann var hátt settur hjá leikhúsinu sjálfu. Mér fannst ég alls ekki geta sagt við hann hey ekki gera svona því þá væri ég að rugga bátnum (þannig leið mér þá) en ég óttaðist að hann teldi sig mega koma svona fram við mig. Ég ræddi við mótleikonur mínar því mér var svo brugðið og átti ekki von á þessu frá honum en þær sögðu allar, æi þetta er bara búningurinn og hann er bara að grínast, hafðu ekki áhyggjur. Ég geri mér grein fyrir því að við erum oft að gantast og grínast á æfingum og stundum fer grínið í eitthvað kynferðislegt en þetta var bara ekki þannig móment. Þarna leið mér illa. 45. Þegar ég var í leiklistarnámi vorum ég og bekkjarbróðir minn að gera skipulagða spunasenu (við vorum búin að skapa og þróa persónurnar okkar og vissum hverjar kringumstæðurnar í senunni yrðu.) Senan snerist um par sem var að hittast eftir langan tíma án hvers annars. Í miðri senunni erum við einhvernvegin ofan á rúmi og ég er með teppi ofan á mér. Hann kemur undir teppið og byrjar að strjúka mér og snerta á mér nærbuxurnar. Mér fannst þetta alveg ótrúlega skrýtið og mjög óeðlilegt svo ég lét bæði hann og kennarann vita. Kennarinn og samnemendur mínir urðu vandræðalegir og málið varð ekki tekið lengra. Bekkjarbróðir minn sagði að honum “þætti leitt að mér hefði fundist þetta leiðinlegt” og sagði að hann hefði bara “verið svo mikið í karakter” og “karakterinn hans hefði viljað þetta”. Ég spurði hann til baka hvort hann myndi einhverntíman drepa samleikara sína ef hann þyrfti að leika morðingja. Eða hvort hann myndi í alvöru ræna banka ef hann væri að leika bankaræningja. Fannst þetta alveg jafn ruglað. 46. Ég byrjaði að vinna hjá Þjóðleikhúsinu þegar ég var 16 ára, þá við móttöku gesta. Þetta var á þeim tíma mjög verndaður hópur (af okkar yfirmanni fyrst og fremst.) Næstu ár fórum við stelpurnar að sækja frumsýningarpartý og aðrar skemmtanir sem hafði þá ekki tíðkast áður. Það var þó fyrst þegar ég upplifði mátt karlleikara að komast upp með hvað sem er, var þegar eitt leikrit var sett upp hjá Þjóðleikhúsinu á smíðaverkstæðinu. Ég persónulega varð ekki fyrir neinu áreiti, en heyrði karlleikara tala saman, bjór eftir vinnu í “vina” hópi og einn af þeim nefndi að helsta ósk væri hjá viðkomandi að geta tekið kvennmann viljandi eða með valdi í vissum myrkum rýmum í húsinu, sem framkallaði hlátur hjá hinum sem sátu. Eftir það fór ég að heyra af því að stelpurnar hefðu upplifað í gegnum tíðina annað hvort snertingar eða “baktal”. Seinna, tíminn leið, og ég hafði umsjón með starfsmönnum. Ég sá um stelpurnar mínar sem voru að vinna hjá mér. Af eigin reynslu vissi ég um 1, 2 eða 3 aðila sem þurfti að varast, ég lagði þeim línurnar. En þegar ég fékk vott af því að einn hefði gripið hana í rassinn eða brjóst, hvað þá að bjóða henni að koma upp í herbergi – hikaði ég ekki við að fara framan og vísaði honum út, og fyrir framan kollega sína, og fékk ég ekki mótmæli frá þeim, sem gerðist of oft að mínu mati, sem var ekkert rætt frekar. (Svo best ég veit). 47. Ég gegni ábyrgðarstöðu innan kvikmyndabransans og hef hvorki tölur né yfirlit um öll þau skipti sem mér hefur verið mismunað vegna kynferðis míns gegnum tíðina. Ég hef setið á fundum þar sem hugmyndir mínar hafa verið þaggaðar og svo endurteknar af karlmanni skömmu síðar og þá á þær hlustað. Ég hef barist í óteljandi skipti fyrir því að jafnhæf kona sé ráðin frekar en karl og sjaldan á það hlustað. Ég hef endalaust reynt að hafa áhrif á að konur hafi ásýnd til jafns við karla í þeim verkefnum sem ég hef tengst og baráttan oft verið erfið og engu skilað, eins og að berja höfðinu við stein. Í kringum mig hefur launaleynd viðgengist lengi og þegar ég hef samið við karlkyns yfirmenn hef ég alltaf verið beðin um trúnað um þær tölur og ef ég hef brotið hann, hef ég komist að því að það var vegna þess að ég var með lægri laun en karl í áþekku starfi. Ég hef rekið mig á það að karlkynskollegar mínir hafa mun meira svigrúm til orða, athafna og mistaka án þess að vera hengdir fyrir það en konur. Ég hef ekki enga yfirsýn yfir hversu oft karlkyns yfirmaður í kringum mig hefur misbeitt valdi sínu. Ég man ekkert hversu oft ég hef fengið óviðeigandi, kynferðislegar og niðurlægjandi athugasemdir, sem eru augljóslega bara til þess að slá mig út af laginu og halda mér á mínum stað, í óörygginu. Magnið af þessu rugli er slíkt að ég hef enga yfirsýn lengur, en ég lít samt á mig sem “heppna” því mér hefur ekki verið nauðgað eða ráðist á mig líkamlega. En ansi oft andlega. Og það hefur áhrif til lengri tíma. En ég hef líka átt marga, marga, samstarfsmenn sem hafa komið fram af sjálfsagðri virðingu og réttlæti. Þeir eru bara ekki til umræðu akkúrat núna, þó þeir séu nauðsynlegur hluti af umræðunni til framtíðar. 48. Áður en ég frumsýndi útskriftarverkið mitt fékk ég virtan leikstjóra sem ég leit upp til, til að koma á rennsli. Hann talaði um að af því að verkið snerist um ást og þráhyggju vantaði meiri alvöru í verkið. Hann stakk upp á að ein leikkonan (sem er dansari) myndi niðurlægja sig gjörsamlega á sviðinu og fara úr öllum fötunum. Þetta kom mér mjög á óvart, ég svaraði að ég teldi að það myndi fara yfir hennar mörk, og hann sagði að hún myndi aldrei eiga séns í dansheiminum ef hún gæti ekki verið nakin. Þetta sýnir hans viðhorf gagnvart konum á sviði og konum í dansheiminum, þó það sé ekki hægt að útiloka að hann hefði sagt það sama ef vinkona mín væri karlkyns. Hann var í valdastöðu og þetta varð til þess að ég óttaðist að verkið mitt yrði ömurlegt. Ég hinsvegar fylgdi innsæinu og breytti engu í verkinu. Ég fattaði ekki alveg á þessum tíma að hans hugmynd kemur úr rótgrónum úreltum hugmyndum í sviðslistum um hvernig á að framsetja konu á sviði. Ég hugsa að þetta viðhorf hans sem ég lýsi hér á undan sé eitthvað sem mjög margir karlkynsleikstjórar hafa að sé bara í lagi að krefjast af konum. En svona viðhorf þarf að uppræta, og því er mikilvægt að segja frá þessari sögu þó hún sé ekki um kynferðislegt ofbeldi eða áreiti. Ég vildi að þessi umræða hefði verið tekin á meðan ég var í LHÍ. Ég meika ekki lengur þessa kallamenningu og sjomlaorku sem útilokar konur og lætur kvenkyns leikara/dansara í hlutverk og stöður sem eru ekki í lagi. Vinkona mín hafði samband við mig útaf allri umræðunni hér og þakkaði mér fyrir að hafa staðið við hennar mörk við mann sem er virtur í sviðslistaheiminum. Það var í rauninni ekki fyrr en í fyrradag sem ég fattaði hvað þetta var ekki í lagi að koma með svona hugmynd við mig, sem augljóslega leit mikið upp til hans, og tala eins og þetta væri eina leiðin til að bjarga útskriftarverkinu mínu. Vinkona mín setti þetta vel niður og hér kemur hennar hlið á málinu, en við ákváðum saman að birta þetta: “Það sem var ætlast til af mér var einhverskonar kvenlegt vitstol í sviðslistum/samtímadansi þar sem kvenlíkaminn er endanlega búin að missa vitið sem er sýnt með því að fara úr öllum fötunum í einhverju brjáluðu hormóna/tilfinningakasti. Á þessum tíma hafði ég ónot fyrir að falla inní þetta hlutverk, en vissi ekki alveg hvers vegna. Í dag hef ég mótað mér skoðun á því hvers vegna ég vil ekki að horft sé á líkamann minn í þessu samhengi á sviði. Í þessu samhengi missi ég vald yfir því hvernig áhorfendur horfa á líkamann minn og sú gjörð að afklæðast í tilfinningaofsa er ódýr lausn á málum þar sem líkaminn verður niðurlægður í þeim ásetningi að reyna að fá athygli stráks. Nei takk. Í dag hefði staðan verið önnur, sérstaklega þar sem ég hef séð þessu hlutverki verið snúið meðvitað við. En til þess að breyta þessu hlutverki innan sviðslistaheimsins þurfum við þessa umræðu og valið til þess að segja nei, og ef ekki, valið til þess að segja já og ef við viljum segja já, þá kæmi sér vel að vera með einhverskonar vitneskju um það hvernig við getum haldið í valið, að vera naktar, með tilfinningar, en samt sem áður með stjórn og vald. Bara til þess að vita að það er líka val…Það sem sló mig mest út af laginu var að viðbrögðin hans við því þegar þú sagðir honum að þú værir hrædd um að þetta færi yfir mín mörk, var að þá ætti ég ekki séns í samtímadansheiminn. Ef það er óumflýjanlegt að þurfa að vera nakin á sviði í dansheiminum, og ef dansarinn kemst ekkert áfram vegna þess að hann áttar sig á því að hann hefur val til þess að segja nei við því að koma nakin fram á sviði, þá þarf eitthvað að endurskoða gildi þessarar senu.” 49. Ég hafði unnið í leikhúsinu í 5 ár þegar bekkjarbróðir minn fékk þar samning (hann er ári yngri en ég). Framkvæmdastjórinn bauð honum strax að fara á launataxta ofar en ég, af því hann væri FYRIRVINNA, sjálf var ég einstæð móðir á þessum tíma. Þarna fattaði ég einhvernvegin svona alveg að ég sat ekki við sama borð og samferðamenn mínir. 50. Einn kollegi fór óþægilega yfir mín mörk í teiti hjá sameiginlegum vini á sama tíma og við vorum í æfingarferli þar sem traust skipti miklu máli. Mánudaginn eftir atvikið segi ég við hann að hann hafi farið algjörlega yfir línuna, hann segir sorry sorry ég var bara svo fullur, ég segist svo hafa sagt manninum mínum frá þessu, þá kom á hann hik, svo sagði ég að svona framkoma væru nú ástæða þess að ég hefði ítrekað reynt að komast hjá því að vinna með honum, að yfirmaður okkar væri inni í málinu og nú væri grunur minn um markaleysi hans staðfestur... þá panikeraði hann. Hringdi m.a. í manninn minn og bað hann afsökunar... what? Það sem ég fattaði þarna var að honum var nákvæmlega sama hvernig hann hafði farið yfir mín mörk, honum fannst óþægilegt að maðurinn minn vissi þetta, en verst fannst honum ef hann gæti misst vinnuna útaf þessu. Þá uppgötvaði ég að það eina sem svona fávitar skilja er að missa vinnuna. 51. Ég var að semja fyrir mig fyrir kvikmynd, og vildi ná mér uppí eitthvað “eðlilegt”. Þeir buðu mér hlægilega lágan taxta... Ég sagðist ætla að hringja í karlmótleikara minn til að bera saman bækur okkar... þá allt í einu var ekkert mál að semja við mig og ég fékk nær því sem ég bað um. ÆJhhh, ætli hann hafi ekki verið með helmingi meira en ég. Ég hef aldrei viljað spyrja hann, ég held ég yrði svo sár. 52. Ég var 28 ára. Við bjuggjum í sama húsi ásamt fleirum því þetta var sýning úti á landi. Eitt kvöldið þegar ég er að fara í háttinn, kemur einn samstarfsfélagi til mín, sem mér fannst alveg mjög fínn náungi. Ég sá nýtt blik í augunum hans, stingandi. Hann vildi fá mig með sér í sturtu. Suðaði og suðaði, komdu, gerðu það komdu með mér í sturtu. Verum saman allsber í sturtu. Hann var töluvert eldri. Ég átti erfitt með svefn þessa nótt og fleiri. Læsti alltaf mínu herbergi vel og vandlega því ég var hrædd um að hann kæmi inn. Í þessu sömu sýningu varð ég líka fyrir ömurlegu einelti af hálfu leikara. Ég var svooo reið að ég fór til sálfræðings á milli sýninga og gerði m.a. reiðivinnu sem hjálpaði mér að komast í gegnum þetta tímabil. 53. Ég var 21 árs að vinna í Þjóðleikhúsinu sem dresser við mína fyrstu uppfærslu. Mér fannst þessu heimur svo spennandi og skemmtilegur. Þetta var barnaleikrit og í því var maður sem var svona 40 árum eldri en ég að leika afa. Það var oft sem ég og þessi maður þurftum að bíða á milli sena í myrkrinu í þröngum ranghalanum. Mér fannst hann alltaf standa aðeins of nálægt mér en hugsaði ekki mikið meira út í það til að byrja með. Þegar lengra leið á leikárið byrjaði hann að segja mér hvað ég væri falleg og hvað hann hefði verið skotinn í mér á sínum yngri árum. Þetta fór að verða hans setning í hvert skipti sem að sýningin var sýnd. Eftir smá tíma byrjaði hann að segja mér að hann væri sko ekkert að reyna við mig að hann væri nú allt of gamall fyrir mig. Ég var byrjuð að nefna þetta við samstarfsfólk mitt, að hann væri orðinn ansi ágengur en allir hlógu bara og sögðu að hann væri svo gamall að hann mundi aldrei reyna neitt. Eitt kvöldið eftir vinnu í leikhúsinu fórum við samstarfsfólkið á Næsta bar eins og svo oft áður. Þar var hann fullur. Ég bað fólkið sem ég var með að passa upp á mig og þau flissuðu bara og sögðu að ég hefði ekki neitt til að hafa áhyggjur af. Sá gamli kom nokkru sinnum yfir kvöldið til að tala við mig og segja mér aftur hvað ég væri falleg og hvað hann væri skotinn í mér. En hann væri sko ekkert að reyna við mig . Ég sagði skýrt að ég hefði ekki nokkurn áhuga en þakkaði hrósið. Ég bað samstarfsfólk mitt aftur um að hafa auga með honum og þau sögðust ætla gera það en trúðu mér varla. En svo kom að því að hann kom til mín og rak tunguna rakleiðis upp í mig og strauk mér um mjaðmirnar. Þarna fattaði fólkið sem ég var með fyrst að mér mér var alvara og stóð ógn af. Ég einhvern veginn náði að koma mér undan og segja honum að fara og þetta væri svo sannarlega ekki í boði og fólkið í kringum mig hafði augun opin fyrir honum það sem eftir var. En eftir þetta þurfti ég samt að vinna með honum hverja helgi báða dagana í myrku þröngu göngunum í Þjóðleikhúsinu 54. Ég hef setið hér triggeruð, hljóð og lömuð af hræðslu að lesa innleggin sem hingað hafa streymt síðustu sólahringa og sveiflast á milli þess að ákveða hvort ég grafi þetta enn og aftur í óminni mínu eins og ekkert hafi gerst eða hvort ég þori og þá hvort það sé yfirhöfuð einhver tilgangur með því að stiga fram. Mun eitthvað breytast? Mun einhver trúa mér núna og vilja hlusta? Karlmenn í valdastöðum í KVÍ fóru yfir öll leyfileg mörk í samskiptum við mig. Ég hef kennt mér mikið um og tekið alla ábyrgðina og skömmina af þeim í huga mínum því ég spilaði jú oft með. Ég sá það ekki þá en sé það í dag að það var sjálfsbjargarviðleitni en með því að taka þátt einstaka sinnum keypti ég mér pásu frá niðurrifsstarfsemi í tíma hjá ykkur, uppskar jafnvel mikið hrós, velvild og hjálpsemi í einhvern tíma eftir það. Það brást ekki að þegar ég var “erfið” og með uppreisn og neitaði að taka þátt eða setti einhver mörk sjálfrar mín vegna eða reyndi að stoppa þetta þá varð allt námið svo miklu erfiðara. Í ykkar augum var ég kynlífsleikfang, ljóskan sem káfa mátti á, þessi sem senda mátti klúr skilaboð í tíma og ótíma innan sem utan skóla til að þið gætuð svalað ykkar eigin fýsnum. Þið lituð á frelsið til að níðast á mér sem sjálfsagðan hlut og vissuð upp á hár hvernig þið gætuð misnotað valdastöðu ykkar gagnvart mér. Þið tókuð allt sem ég átti af sjálfsvirðingu í leiklistarnámi mínu. Á aðeins tveimur árum breyttist ég úr því að vera sjálfstæð, glöð og orkumikil félagsvera í þunglyndan triggeraðan geðsjúkling sem enga stjórn hafði á skapi sínu í fullkomlega eðlilegum aðstæðum. Það sem mér þótti sýnu verra var að þegar kjaftasaga um reynslu mína var afbökuð og ég reyndi að koma í orð því sem ég hafði orðið fyrir þá snerust margir samnemendur mínir gegn mér og sögðu mig vera að sofa mér leið á toppinn. Þá var ég baktöluð af samnemendum mínum og litin hornauga sem crazy bitch og einangraðist bara enn meir. Suma daga var einu velvildina og hlýjuna að finna frá ykkur, eins sorglegt og það hljómar þá er ég oft reiðari við þá sem hefðu átt að vera stuðningur og hjálp heldur en við ykkur sem brutuð mig markvisst niður.Undir lok námsins fann ég ekki til neinnar lífsgleði og eftir útskrift fór ég ekki framúr rúminu í sex mánuði. Enn í dag á ég erfitt með að treysta. En skömminni ætla ég að skila, hún er ekki mín, hún er alfarið ykkar. #metoo #tjaldiðfellur #höfumhátt 55. Hæst launuðu verkefnin í mínu fagi fara til karlmanna, ráðið í af karlmönnum. Það hefur ekkert með hæfni að gera. 56. Þegar ég er ráðin af konum, hef ég aldrei orðið vör við mismunun. 57. Ég hef fengið 30-40% lægri laun en karlmaður fyrir sömu stöðu. 58. Ég hef enga tölu á því hversu oft hefur ekki verið hlustað á mínar hugmyndir, en þegar karlmaður ber þær upp stuttu seinna, er á þær hlustað. 59. Ég hef margoft talað um mismunun vegna kyns míns, og man eftir misalvarlegum jákvæðum og neikvæðum viðbrögðum, tvö skipti sem ég man eftir brugðust karlmennirnir við með ógnandi framkomu, öskruðu á mig og hentu húsgögnum í veggi. 60. Ég hef oft verið tekin sem ein af strákunum og hlustað á hvernig þessari og hinni ætti að vera flengriðið, hvernig konur eru lélegar í samningum, hvernig konur notfæra sér að vera kynverur, hvernig kærustunum er leyft að gera þetta eða hitt. Samansafn af kommentum sem gera það mjög flókið fyrir mig, ein af strákunum en samt kona, að vera hluti af hópnum sem ég er að vinna með. Þá er sjaldnast vegið að mér beint, persónulega sem konu. Ég hef heyrt valdamikla karlrembukarla hlæja að #metoo og segja að þessi umræða sé komin langt yfir “eðlileg” mörk, þeir líta á sig sem feminista. 61. Var í tökum. Í fyrstu senunni sem við tökum vill leikstjórinn að ég sé á brjóstahaldaranum (sem ég hafði spurt sérstaklega um áður hvort ég þyrfti að gera og var svarað neitandi). Ég stend bara föst á því að það skipti ekki máli fyrir innihald og framvindu þótt ég sé í bol frekar, hann hlær og gerir athugasemd um hvað það sé skrýtið að finnast þetta vera issue en gúdderar þetta loks. Næst er sena þar sem ég á að dansa við strák nema þegar við erum að taka upp segir leikstjórinn mér að ég eigi að grænda strákinn (beygja mig fram og dansa með rassinn í hann). Þetta strýkur mér öfugt því það stóð ekki í handritinu og mér fannst það niðurlægjandi í þessum aðstæðum sem við vorum að vinna með. Aftur sagði ég hey nei þetta er óþarfi fyrir framvinduna, ég dansa bara venjulega. Ég fékk það í gegn en allir á tökustað urðu svo innilega pirraðir á mér því ramminn var þá ekki jafn flottur. Ramminn skiptir sem sagt meira máli heldur en hvernig konur eru málaðar upp í kvikmyndum og sjónvarpi. 62. Annarskonar ofbeldi – kynbundið og niðurlægjandi. Fyrstu ríflega 4 árin í starfi mínu hjá leikhúsinu gengu samskipti mín og yfirmannsins almennt mjög vel og ég áleit okkur félaga, treysti honum og leitaði gjarnan til hans. Hann gerði samt oft lítið úr mér og var ósanngjarn við mig, stal hugmyndum mínum og lét mig sitja uppi með sumar af sínum vondu hugmyndum– en ég bara sætti mig við það, vildi velja orrusturnar og á þessum tíma var hann ekki hæstráðandi. Oft varð ég líka vitni að mjög ljótum samskiptum hans við aðra og þá var ég gjarnan fegin að vera réttu megin við hann. Ég varð vör við hvernig hann tók fólk fyrir og fylgdist beinlínis með honum hrekja fólk úr starfi. Eins tók ég stundum þátt í ákveðnum hlutum án þess að vilja það – en bara einhvernvegin gerði því að það var bara einhvernvegin einfaldara en að reyna að leiðrétta hann. Hann átti (á?) það til að hreinlega hagræða atburðarrás og samtölum sér í hag – og ég held að oftar en ekki hafi hann trúað sjálfur að hann væri í raun og sann fórnarlamb í mikið af sínum samskiptum. Eftir að hafa unnið í leikhúsinu í tæplega 5 ár þá reyndi ég aðeins að spyrna við óhóflegri vinnu og þegar hann kallar mig fyrirvaralaust inn úr sumarfríi án nokkurs aðdraganda þá svara ég í gríni hvort að ég þurfi að mjaðmagrindarbrotna til að fá að vera í friði í fríinu. Við þetta svar mitt umturnuðust samskipti okkar. Tveimur dögum síðar sátum við saman fund útí bæ sem var verulega vandræðalegur fyrir alla viðstadda. Hann gerði sér far um að láta eins og ég væri ekki á staðnum. Heilsaði mér ekki, snéri sjálfur mjög óeðlilega við fundarborðið til að geta bókstaflega snúið í mig bakinu og mér fannst hann raunverulega ekki heyra í mér. Eftir fundin var ég spurð hvort ekki væri allt í lagi og ég bara réttlætti hegðun hans og ákvað að láta þetta ekki á mig fá. Nema þetta var bara byrjunin. Næstu mánuðir voru eiginlega óbærilegir í vinnu. Hann lét eins og ég væri ekki til – og þess á milli var hann óvæginn og ómerkilegur við mig. Ég jafnvel heyrði hann tala illa um mig og ég held að ég hafi átt að heyra það. Hann horfði í gegnum mig, heilsaði mér ekki og gerði mér alveg ljóst að hann vildi ekki vinna með mér. Hann tók mig reglulega fyrir á fundum með miklum æsingi, ranghvolfdi augunum í hvert sinn er við mættumst á þröngum göngum hússins og varð almennt mjög óútreiknanlegur í allri umgengni. Eðlilega tók ég framkomu hans nærri mér. Ég var farin að draga mig verulega í hlé þegar leið á haustið og sporin í vinnuna urðu sífellt þyngri. Ég var farin að efast um alla hluti og ekki síst sjálfa mig og þegar leið á október var ég bara skugginn af sjálfri mér. Þá lendi ég í slysi – og kemst ekki til vinnu í nokkrar vikur. Hann varð fyrst og fremst pirraður, en hafði síðan ekki samband. Ég var að drepast úr samviskubiti yfir því að komast ekki til vinnu og ég bara skildi ekki hvað var í gangi. Nokkrum dögum eftir að ég sný aftur til vinnu kallar hann mig á fund til sín og segir að ég sé orðin mjög áhugalaus. Hann var þá næstum ljúfur – þannig að ég þori að segja honum að það sé ekki síst vegna þess að ég hreinlega væri farin að óttast hann og mér fyndist hann vera mjög fjandsamlegur í minn garð. Hann viðurkennir að hann hafi kannski mögulega verið aðeins ósanngjarn einhvertíma og lofar að það lagist. Framkoma hans batnaði í nokkra daga - en versnaði svo aftur verulega. Í byrjun febrúar var ég aftur komin á sama stað, ekki yrt á mig svo dögum skiptir og öll samskipti mjög fjandsamleg - og mín viðbrögð eins og áður. Kvíði, vanlíðan, þunglyndi og einbeitingaskortur og ég fór að gera klaufaleg mistök og eiga erfitt með að klára verkefni. Ég sendi honum línu þar sem ég segi að mér líði illa þegar svona sé komið fram við mig. Enn versnaði viðmótið og viku síðar, sendi ég honum póst og afrit á skrifstofustjórann þar sem ég segist bara ekki geta mætt til vinnu í þessu ástandi, og biðla jafnframt til hans að samskipti okkar lagist svo við getum unnið saman. Eins leita ég til stéttarfélagsins sem talar um gróft einelti og virtust kannast vel við það frá þessum manni. Tveimur dögum síðar leggur hann niður starfið mitt. Lítið stjórnsýslutrikk sem ég var svo vitlaus að segja honum frá. Nokkrum dögum síðar ræður hann karl í starfið sem hann hafði lengi haft augastað á og viljað í deildina mína. Líf mitt breyttist við þetta, sjálfsmynd mín öll og mér líður eins og hann hafi rænt mig ærunni – svona fyrir utan starfsferill minn er sennilega bara ónýtur. Ég skammast mín eða fæ kvíðahnút í magann þegar ég hitti fyrrum vinnufélaga úr leikhúsinu. Ég veit alveg að það er ekki endilega rökrétt – en hvað veit ég. Hann hefur öll völdin, allt tengslanetið og getur hagað sögunni eins og hann vill. Ég veit líka að hann gerir það, ég varð svo oft vitni að því. Ég veit líka að hann trúir sjálfur að hann hafi ekki gert neitt rangt – það var ég sem bara varð allt í einu – eftir fimm ár - að einverjum aumingja sem réði ekki við vinnuna sína.
MeToo Kynferðisofbeldi Leikhús Kvikmyndagerð á Íslandi Tengdar fréttir Segir rannsókn innan leiklistarinnar í forgangi: „Grafalvarlegir hlutir sem að þarna eru á ferðinni“ Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra segir mikilvægt að taka alvarlega ábendingar um áreitni og valdaójafnvægi í leiklistarheiminum hér á landi. 17. nóvember 2017 10:00 Snjóskafl sem þarf að bræða: Valdaójafnvægi og áreitni innan leiklistar á Íslandi Formaður félags íslenskra leikara vill að rannsókn fari fram á áreitni, kynferðislegu ofbeldi og misbeitingu valds innan leiklistar hér á landi. Hundruð hafa stigið fram og sagt frá slíku á síðustu vikum í Svíþjóð auk Bandaríkjanna og víðar. 15. nóvember 2017 09:00 Mest lesið Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent „RÚV er sá fjölmiðill sem er líklega einna lengst til vinstri á Íslandi“ Innlent Ætla að opna Bláa lónið 29. nóvember Innlent Rafmagnsmastur í hættu vegna hraunflæðis Innlent Hörð viðbrögð við vaxtahækkunum Innlent Tilbúin að aflýsa verkföllum í fjórum leikskólum Innlent Segist svikin af Viðreisn og segir sig úr flokknum Innlent Eldri maður á gamalli Corollu ógnaði ekki lífi hjóna á nýjum Ram Innlent Vaktin: Totur farnar að teygja sig til norðurs Innlent Atburðarás gærdagsins í myndum Innlent Fleiri fréttir „RÚV er sá fjölmiðill sem er líklega einna lengst til vinstri á Íslandi“ Ætla að opna Bláa lónið 29. nóvember Rafmagnsmastur í hættu vegna hraunflæðis Segist svikin af Viðreisn og segir sig úr flokknum Tilbúin að aflýsa verkföllum í fjórum leikskólum Hörð viðbrögð við vaxtahækkunum Boða verkföll í tíu leikskólum í desember Í beinni frá gosstöðvum, undrun á vegferð seðlabankans og lokasprettur Atburðarás gærdagsins í myndum Eldri maður á gamalli Corollu ógnaði ekki lífi hjóna á nýjum Ram Virkni í þremur gígum og mest í miðjunni Mikill meirihluti vill ekki sjá sjókvíaeldi í Seyðisfirði Segir íbúafundinn ekki hafa verið nægilega upplýsandi FA klagar Willum Þór til umboðsmanns Með hundruð kílóa af þýfi heima hjá sér Bílar og byggingariðnaður losar mest í Reykjavík „Allt athafnasvæði Bláa lónsins er innan varnargarða“ Rokk og ról í Rockville holunni frestast fram í janúar Framsókn með þriggja prósenta fylgi í borginni Gist í um tuttugu húsum í Grindavík Njarðvíkuræðin heldur sem stendur og vaxtakjörin útskýrð á mannamáli Útkall vegna reyks við Borgarholtsbraut Ekki þörf enn á að stækka varnargarða við Bláa lónið Bein útsending: Heilbrigðisstarfsfólk grillar frambjóðendur Meirihluti styður verkfallsaðgerðir kennara Jafnast ekki út að vera með annan fótinn í hrauni og hinn í ís Stöðug virkni í nótt og og litlar breytingar Hótaði heimilismönnum með skærum Sigmundur hafi viljað í kennslustund með nemendum Gætu kosið strategískt þegar svo margir flokkar eru á mörkunum Sjá meira
Segir rannsókn innan leiklistarinnar í forgangi: „Grafalvarlegir hlutir sem að þarna eru á ferðinni“ Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra segir mikilvægt að taka alvarlega ábendingar um áreitni og valdaójafnvægi í leiklistarheiminum hér á landi. 17. nóvember 2017 10:00
Snjóskafl sem þarf að bræða: Valdaójafnvægi og áreitni innan leiklistar á Íslandi Formaður félags íslenskra leikara vill að rannsókn fari fram á áreitni, kynferðislegu ofbeldi og misbeitingu valds innan leiklistar hér á landi. Hundruð hafa stigið fram og sagt frá slíku á síðustu vikum í Svíþjóð auk Bandaríkjanna og víðar. 15. nóvember 2017 09:00