Allsherjarþing SÞ um Jerúsalem: Ísland hluti af yfirgnæfandi meirihluta gegn Bandaríkjunum

Alls greiddu 128 af 193 ríkjum atkvæði með tillögunni þrátt fyrir hótanir Donald Trump Bandaríkjaforseta um að svipta ríki sem greiddu atkvæði gegn honum fjárstuðningi, að því er kemur fram í frétt BBC. Þrjátíu og fimm ríki sátu hjá en níu kusu á móti
Ályktunin er ekki bindandi en New York Times lýsir samþykkt hennar sem „stingandi ávítum“ fyrir ríkisstjórn Trump. Bandaríkin eru ekki nefnd á nafn í ályktuninni en hún beinist að ákvörðun Trump um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og að flytja sendiráð Bandaríkjanna þangað.
Ísraels stjórnvöld hafa fordæmt atkvæðagreiðsluna og kallaði Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra, allsherjarþingið „hús lyganna“ í dag.
Atkvæðagreiðslan fór fram á sérstökum aukafundi í allsherjarþinginu sem araba- og múslimaríki óskuðu eftir. Svipuð tillaga var felld í öryggisráðinu með neitunarvaldi Bandaríkjamanna á mánudag. Hin fjórtán ríkin sem eiga sæti í ráðinu greiddu atkvæði með tillögunni.
Auk Bandaríkjanna og Ísraels greiddu Gvatemala, Nárú, Hondúras, Marshall-eyjar, Palá og Tógó atkvæði gegn ályktuninni.
Tengdar fréttir

Hótanir Trump hafa ekki áhrif á afstöðu Íslendinga
Utanríkisráðherra Íslands segir bréf sendiherra Bandaríkjanna við SÞ um að fylgst verði með atkvæðum ríkja í allsherjarþinginu á morgun óvenjulegt.

Allsherjarþing SÞ fjallar um stöðu Jerúsalem eftir ákvörðun Trump
Sérstakur aukafundur verður haldinn í allsherjarþinginu í fyrsta skipti í átta ár.

Ætla að skrá svikin niður
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, varaði önnur aðildarríki við því í gær að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði skipað henni að láta sig vita hverjir væru á móti því að Bandaríkin flyttu sendiráð sitt í Ísrael frá Tel Avív til Jerúsalem.

Trump fylgist með atkvæði Íslands
Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum segir að Bandaríkjaforseti ætli sér að fylgjast grannt með því hvaða lönd greiði atkvæði gegn Bandaríkjunum á allsherjarþinginu á morgun.

Trump hótar ríkjum sem þiggja þróunaraðstoð frá Bandaríkjunum
„Leyfum þeim að greiða atkvæði gegn okkur. Við munum spara mikið. Okkur er sama,“ segir Bandaríkjaforseti sem ætlar að fylgjast grannt með hvernig ríki greiða atkvæði í allsherjarþingi SÞ á morgun.