Atletico Madrid er komið í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir að hafa slátrað Lokomotiv Moskva, samanlagt 8-1, í leikjunum tveimur í Evrópudeildinni.
Síðari leik liðanna í kvöld lauk með 5-1 sigri spænska liðsins. Angel Correa kom Atletico yfir, en Maciej Rybus jafnaði skömmu síðar. Þannig stóðu leikar í hálfleik.
Veisla Madrídinga hófst eftir tvær mínútur í síðari hálfleik þegar Saul Niguez kom þeim í 2-1. Fernando Torres gerði svo tvö mörk og Antoine Griezmann eitt áður en yfir lauk.
Lokatölur því 5-1 og samanlagt 8-1 eins og áður segir en Atletico er komið í átta liða úrslitin. Þeir verða að teljast líklegir til afreka en síðar í kvöld skýrist hvaða átta lið fara áfram ásamt Atletico.
